Vistfræðilegt ástand ferskvatns – samræming aðferða og vöktun ársins 2022

Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir, líffræðingur við störf í Norðurá. Ljósm. Eydís S. Eiríksdóttir. Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir, líffræðingur við störf í Norðurá. Ljósm. Eydís S. Eiríksdóttir.

Árið 2011 voru sett lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011 og er markmið þeirra að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á innleiðingu laganna.

Á þessu ári hafa starfsmenn Hafrannsóknastofnunar komið að vöktun á efnastyrk og lífríki í nokkrum ám og vötnum fyrir Umhverfisstofnun og er framkvæmd vöktunarinnar samkvæmt því sem gert er ráð fyrir í ofangreindum lögum. Verkefnin eru unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Að þessu sinni beinist vöktunin að Norðurá í Norðurárdal, Elliðaám í Reykjavík, Eystra-Gíslholtsvatni í Rangárþingi Ytra og Stóra-Fossvatni í Veiðivötnum.

Sýnum er safnað til greininga á smádýrum (hryggleysingjum) á botni ánna og í fjörubelti stöðuvatnanna. Vatnssýnum er safnað til greiningar á styrk efna í vatninu, blaðgræna er mæld, auk þess sem tegundagreining á vatnaplöntum er framkvæmd í vötnunum.

Tilgangur vöktunarinnar er að fá upplýsingar um ákveðna gæðaþætti sem hægt er að nota til vistfræðilegrar ástandsflokkunar í þessum ám og vötnum. Aðferðirnar sem notaðar eru við vistfræðilega ástandsflokkun eru sambærilegar við það sem gert er í löndum í Evrópu þar sem Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur verið innleidd, en öll viðmið fyrir mæliþættina eru aðlöguð fyrir íslenskar aðstæður (sjá hlekk). Í tengslum við vöktunina hafa nýverið verið gefnar út samræmdar leiðbeiningar um söfnun sýna til greininga á líffræðilegum og eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum:

Leiðbeiningar um söfnun á hryggleysingjum í ferskvatni
Leiðbeiningar um söfnun og mælingu á blaðgrænu a í ferskvatni
Leiðbeiningar um söfnun vatnssýna til mælinga á eðlisefnafræðilegum gæðaþáttum í ferskvatni
Leiðbeiningar fyrir gróðurkönnun í stöðuvötnum


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?