Álftafjörður

kort

Hnit - 66°00'N 23°00'W
Flatarmál - 15 km2
Meðaldýpi - <30 m
Mesta dýpi - 50 m

Álftafjörður er næsti fjörður innan við Skutulsfjörð. Í firðinum hafa myndast þrjár eyrar þar sem ár renna til sjávar. Súðavík stendur við þá ystu sem heitir Langeyri en innar er Hattareyri en þar hefur verið tekið efni úr sjó til framkvæmda á landi. Álftafjörður er tæpir 2 km á breidd í fjarðarmynni á móts við Kambsnes og mjókkar inn undir Langeyri en víkkar síðan í innri hluta fjarðarins en þrengist aftur er kemur inn fyrir Hattareyri og inn í botn. Lengd fjarðarins er rúmir 11 km frá fjarðarmynni í botn. Flatarmál er um 15 km2. Dýpi í fjarðarmynni er um 50 m en þar fyrir innan er mun grynnra einkum austan megin í firðinum og má jafnvel segja að þar sé þröskuldur í firðinum.

Á móts við Súðavík er aftur orðið dýpra eða 30 til 50 metrar og er þá komið inn undir miðjan fjörð. Út af Langeyri má segja að móti fyrir öðrum þröskuldi sem er lítið eitt grynnra á en utan við og innan við hann. Úr því fer grynnkandi inn í fjarðarbotn en upplýsingar um dýpi í innri hluta fjarðarins eru ekki tiltækar.  Allmargar ár renna í fjörðinn en flestar þeirra smáar. Einna stærst er Hattará sem kemur úr Hattardal innst í firðinum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?