Vestfirðir

Vestfirðir eru venjulega skilgreindir sem sá hluti Íslands sem afmarkast af Gilsfirði í vestri og Bitrufirði í austri norðan Hrútafjarðar. Hér er til hægðarauka Vestfirðir taldir frá Patreksfirði í vestri að Bitrufirði á Ströndum en firðir sem ganga inn úr norðurhluta Breiðafjarðar eru látnir fylgja Breiðafirði. Vestfjörðum er síðan skipt í minni svæði vegna fjölda þeirra fjarða sem finnast á Vestfjörðum. Þessi svæði eru Patreksfjörður að Súgandafirði, Ísafjarðardjúp, Jökulfirðir, Hornstrandir og Strandir. Til að staðsetja firðina í lengd og breidd hefur verið valinn einn punktur í hverjum firði og eru hnit gefin fyrir hann sem staðsetning á firðinum. Dýpistölur fjarða eru teknar úr þeim sjókortum sem tiltæk eru.

Vestfjarðakjálkinn er byggður upp af jarðlögum frá tertíer tímabilinu. Jöklar ísaldar hafa grafið sig niður í gegnum berggrunninn og mótað dali og firði. Landslag fjarðanna hefur í stórum dráttum verið fullmótað í lok ísaldar fyrir um 10 þúsund árum. Stærstu og dýpstu firðirnir eru Ísafjarðardjúp, Jökulfirðir og Arnarfjörður. Þar nær sjávardýpi niður fyrir 100 metra og inn af þessum fjörðum greinast minni firðir.

Nákvæmar dýptarmælingar, sem gerðar eru með fjölgeislamæli, sýna hvernig landslagi er háttað á hafsbotninum. Hafrannsóknastofnun hefur gert fjölgeislamælingar í Arnarfirði, Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Það er liður í verkefni stofnunarinnar um Kortlagningu hafsbotnsins. Fjölgeislamælingar í Patreksfirði, Tálknafirði, Dýrafirði og Önundarfirði eru frá Sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar.

Straumar liggja til norðurs með Vestfjörðum vestanverðum og er Atlantssjórinn mikilvægastur þátturinn í þeim. Norðvestur af Vestfjörðum klofnar Atlantsstraumurinn í tvo hluta. Stærri greinin sveigir til vesturs og síðar suðurs inn í Irmingerhafið. Minni greinin sveigir tii austurs fyrir norðan Vestfirði. Innflæði Atlantssjávar norður og austur fyrir Vestfirði er mun meira á sumrin en veturna. Innflæði Atlantssjávar er einnig mjög breytilegt hvað magn varðar eftir árum eða lengri tímabilum sem geta staði í fjölda ára.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?