Hreistursýnataka

Hreistursýnataka er auðveld og skilvirk leið til þess að afla upplýsinga um lífssögu fiska. Hreistur fiska mynda vaxtarhringi, líkt og hjá trjám, sem nýta má til þess að lesa aldur ásamt því að skoða vöxt þeirra með bakreikningum. Með myndgreiningu á hreistri er hægt að meta uppruna laxa, þ.e. hvort lax komi af náttúrulegu klaki árinnar eða úr eldisrækt, þar sem sleppiseiði í sjógöngustærð hafa einungis lifað 1 ár í ferskvatni. Þannig er hægt að reikna út endurheimtur og meta ávinning seiðasleppinga. Auk hefðbundins bakreiknings á hreistri er mögulegt, með talningu vaxtarhringa, að reikna út vaxtarhraða á ákveðnum tímabilum í sjávardvölinni (ICES 2011).

Hér fyrir neðan má sjá stækkaða mynd af hreistri Atlantshafslax og hvernig nýta má vaxtarhringi hreistursins til að reikna aldur laxins og þann tíma sem laxinn eyddi í sjó.

smásjármynd af hreistri

 

Hreistursumslagið
Öllu hreistri sem er safnað, er komið fyrir í hreistursumslagi sem nálgast má hjá viðeigandi veiðifélagi. Hér neðar er sýnishorn af slíku umslagi fyrir þá sem ekki þekkja til þess.

Hreistursumslagið er fyrir hreistur af bæði merktum og ómerktum fiskum. Hreistur skal alltaf tekið af merktum fiski og sem oftast af ómerktum fiski. Hægt er að taka hreistur af fiski sem sleppt er aftur eftir veiði, þá þarf að gæta þess að fara vel með fiskinn og honum sé ekki haldið lengi uppúr vatni. Í hvert umslag eru einungis sett hreistur af einum fiski og á það þarf alltaf að skrá þær upplýsingar um fiskinn sem beðið er um á framhlið umslagsins. Mikilvægt er að lengd fisksins sé skráð á umslagið auk upplýsinga um kyn, þyngd, dagsetningu veiðinnar og veiðistað ásamt athugasemdum ef við á, t.d. ef fiskur er merktur, ummerki um sníkjudýr, sár á fiski o.s.frv.

Ef um örmerktan fisk er að ræða skal skrá það í athugasemd og láta hreisturumslagið fylgja snoppunni (örmerkinu) af fiskinum. Í tilfelli slöngumerktra fiska skal skrá á umslagið númer slöngumerkis og lit. Auk þess skal setja slöngumerkið í umslagið ásamt hreistrinu. Ef um mælimerki er einnig að ræða þá þarf hreistursumslagið að fylgja mælimerkinu.

mynd af útfylltu umslagi

Hvernig er hreistur tekið?
Hreistur er tekið af svæðinu rétt ofan við hliðarrák fisksins rétt aftan við bakugga (sjá mynd neðar). Fyrst er slím skafið burt með því að skafa með hníf aftur eftir fisknum á hreisturtökustaðnum. Því næst er skafið með hnífsoddinum í gagnstæða átt og losna þá nokkrar hreisturplötur sem loða við hnífsoddinn. Hnífsoddi er komið fyrir í hreisturpoka og gott er að taka utan um hreisturpokan með þumalfingri og vísifingri og halda laust um flötu hliðar hnífsins á meðan hann er rólega dreginn upp úr pokanum, við það losna hreisturplötunar af hnífnum og verða eftir í pokanum. Gott er að fá um 20 hreistur af hverjum fiski. Gæta verður þess að þrífa hnífinn milli hreisturtöku á fleiri fiskum.

mynd af hreisturtökustað

Mynd teiknaði Ásta Kristín Guðmundsdóttir.

Hreistur tekið af lifandi fiski
Færst hefur í auka að veiða og sleppa fiskum með þeim tilgangi að draga úr afföllum hrygnandi fiska og þar af leiðandi hvetja til aukinnar nýliðunum í veiðiám. Mikilvægt er að safna hreistri af fiskum sem sleppt er aftur en slíkt þarf að gera með mikilli varkárni. Hreistur er tekið af sama stað og rætt var um hér að ofan. Þegar hreistri er safnað af lifandi fiski eru nokkur atriði sem þarf að huga sérstaklega að:
1. Lyfta fiskinum sem minnst frá vatni.
2. Mæla lengd fisksins með málbandi (ekki er mælt með því að vigta fiska sem sleppt er til lífs).
3. Veiðimaður skal hafa hröð og örugg vinnubrögð.
4. Renna hnífsoddi á móti legu hreisturs til að losa hreisturplötunar af.
5. Passa vel að skera ekki í roð fiskins eða særa hann á meðan hreistri er safnað, en við það skapast sýkingarhætta.

Uppfært 21. febrúar 2022.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?