Steinbítur og hlýri

 

Ferðir dýra hafa löngum verið mönnum hugleiknar og hafa merkingar verið notaðar til að kanna far þeirra. Á Hafrannsóknastofnun er í gangi rannsókn á fari steinbíts og hlýra. Í henni voru notuð rafeindamerki sem mæla hita, dýpi og tíma með reglulegu millibili. Á meðan steinbítur eða hlýri liggur kyrr við botn breytist dýpið í takt við sjávarföllin, það eykst á flóði og minnkar um fjöru. Tímasetning sjávarfalla er ólík eftir stöðum þannig að með því að bera dýptarferil, sem skráður er í rafeindamerkið, saman við sjávarfallalíkan má áætla hvar steinbíturinn hefur verið á hverjum tíma. 

Á árunum 2012-2015 merkti Hafrannsóknastofnun 906 steinbíta, þar af 380 með rafeindamerki og 526 einungis með slöngumerki, á fimm stöðum við Ísland eða á Látragrunni, Skálavík við Bolungarvík, út af Hornbjargi, Glettinganesgrunni, við Papey og í Faxaflóa. Á árunum 2015-2016 voru merktir 102 hlýrar, 44 með rafeindamerki og 58 einungis með slöngumerki. Hlýrarnir voru merktir í kantinum út af Vestfjörðum. Alls hafa endurheimst 84 steinbítar og 10 hlýrar með rafeindamerki. Niðurstöður lofa góðu um að rannsóknin auki þekkingu okkar á fari steinbíts og hlýra t.d. hvenær þeir fara og koma á hrygningar- eða fæðuslóð og hvaða leiðir þeir fara þar á milli.

Almennt eru tengsl milli afarkstursgetu fiskstofna og frjósemi þeirra. Rannsóknir hafa sýnt  að fyrir fjölmargar fisktegundir er frjósemi þeirra breytileg eftir svæðum og árum og að þættir eins og hitastig, fæðuframboð, veiðiálag og erfðir hafa þar áhrif. Einnig hafa rannsóknir sýnt að oft byrja fiskar á að þroska fleiri egg en þeir hrygna, en það ferli sem þeir nota til að eyða eggjunum kallast atresia. Það er því ekki sama á hvaða tíma frjósemi fiska er rannsökuð til að meta hversu mörgum hrognum hrygnan hrygnir. Á Hafrannsóknastofnun er nýlokin rannsókn á frjósemi steinbíts, þar sem breytileiki í frjósemi eftir árum, svæðum og atresia voru rannsökuð og nú er í gangi rannsókn um sama efni hjá hlýra.

 Steinbítur og hlýri

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?