Hnúðlax

myndir af hnúðlöxum

Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha), sem einnig er nefndur bleiklax, tilheyrir ættkvísl kyrrahafslaxa og eru náttúruleg heimkynni tegundarinnar við Kyrrahafið frá Asíu til Norður Ameríku. Stofnar hnúðlaxa eru þeir stærstu af tegundum kyrrahafslaxa. Hnúðlax er fremur smávaxinn að stærð miðað við aðrar tegundir kyrrahafslaxa. Við kynþroska er þyngdin gjarnan á bilinu 1,75 til 2,5 kg og lengdin frá 45-62 cm, en til eru dæmi um hnúðlaxa sem hafa náð 76 cm lengd sem hafa vegið allt að 6,8 kg.

Hnúðlaxar veiddir í Eyjafjarðará 24. ágúst 2019. Á efri mynd er hængur en hrygna á neðri mynd. (Veiðimaður og myndataka: Snævarr Örn Georgsson).

 

Hnúðlaxar hafa einnig stysta lífsferil kyrrahafslaxa og tekur hann ófrávíkjanlega 2 ár frá hrogni upp í kynþroska lax. Eins og aðrar tegundir kyrrahafslaxa hrygna hnúðlaxar á haustin, gjarnan neðarlega í ám en klekjast að vori eru þá einungis 3-4 cm að lengd. Seiðin hafa mjög þroskað sjógöngueðli og ganga nær umsvifalaust til sjávar eftir klak. Laxarnir dvelja síðan um 18 mánuði í sjó þar sem þeir nærast helst á sviflægum hryggleysingjum og taka út mestan vöxt sinn. Eftir sjávardvöl ganga þeir aftur til hrygningar í ferskvatn og er göngutími í norskar ár frá byrjun júlí en hrygningin fer fram í ágúst-september.

Laxinn deyr allur eftir hrygningu. Hrygningartíminn er yfirleitt fyrr en hjá öðrum laxfiskum. Þessi sérstaki lífsferill veldur því að í sumum vatnakerfum hafa myndast hnúðlaxagöngur sem aðeins koma annað hvort ár, ýmist á jöfnum ártölum eða oddatölum. Innan sama vatnakerfis myndast erfðafræðilega aðskildir stofnar sem aldrei hittast og getur stofnstærð þeirra verið ólík þrátt fyrir að nota sömu ána sem hrygningarstöðvar.

Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Við kynþroska myndast stór hnúður á baki hænga og skoltar þeirra stækka. Hnúðlax er mest veidda laxategundin í N-Kyrrahafi og aflinn er seldur ferskur, frystur eða niðursoðinn. Hnúðlax er eingöngu veiddur í sjó þar sem kjötgæðin eru mjög lítil við kynþroska og fiskurinn er þá ekki eftirsóknarverður til átu.

Þann 12. ágúst árið 1960 veiddist hnúðlax í Hítará á Mýrum og var það í fyrsta sinn sem vitað var til að þessi laxategund hafi veiðst í íslenskri veiðiá. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og í dag eru hnúðlaxar tíðir í ám víðsvegar um landið.

Útbreiðsla hnúðlaxa í Evrópu hófst er Rússar fluttu frjóvguð laxahrogn til Rússlands á sjötta áratug síðustu aldar og fóru að sleppa hnúðlaxaseiðum í ár sem hafa afrennsli til Hvítahafsins. Fyrstu laxarnir úr þessari ræktun veiddust árið 1960, en sleppingum í árnar var hætt árið 1979 en hófust á ný árið 1985 með stofnum hnúðlaxa frá Norður Kyrrahafi og héldu þessar sleppingar áfram til ársins 1999. Allir hnúðlaxar sem veiðst hafa í Norður Atlantshafi eru því árangur náttúrulegra hrygningar eftir 2001.

Þann 12. ágúst árið 1960 veiddist hnúðlax í Hítará á Mýrum og var það í fyrsta sinn sem vitað var til að þessi laxategund hafi veiðst í íslenskri veiðiá. Hnúðlaxar hafa af og til komið fram sem flækingar í íslenskum ám en hefur fjölgað verulega undanfarin ár. Til að mynda veiddust um 70 hnúðlaxar á Íslandi árið 2017 og árið 2019 var fjöldi veiddra yfir 90.

Náttúrulegir hnúðlaxastofnar hafa nú myndast í ám í Norðvestur Rússlandi og einnig í fjölmörgum norskum ám. Í Evrópu er hnúðlaxinn flokkaður sem ágeng tegund. Miklar líkur eru á að hnúðlax sé kominn til að vera í íslenskum vatnakerfum, en vísbendingar liggja fyrir um að hnúðlaxar hafa hrygnt í íslenskum ám. Hnúðlaxaklak hefur þó enn sem komið er ekki fundist í íslenskum ám.

Í ljósi aukningar á hnúðlaxagengd í íslenskar ár og hugsanlegri stofnamyndun hérlendis er áríðandi að vakta aukna útbreiðslu og magn hnúðlaxa sem er að veiðast hérlendis. Þá er margt á huldu um lífsferil og hegðun hnúðlaxa og hvaða vistfræðileg áhrif þessi nýja tegund kann að hafa á laxfiskana okkar.

Myndband sýnir hnúðlax synda í gegnum teljara í á.

 

Uppfært 27. janúar 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?