Gagnastefna

Gagnastefna Hafrannsóknastofnunar

Hafrannsóknastofnun býr yfir viðamiklum upplýsingum úr rannsóknum á lífríki og umhverfi ferskvatns og sjávar ásamt mælingum á hafsbotni. Lengstu gagnaraðir ná allt aftur til byrjunar 20. aldar og á hverju ári bætist við mikið magn gagna. Gögn þessi eru m.a. grunnur fyrir ráðgjöf stofnunarinnar til stjórnvalda varðandi sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda á Íslandsmiðum.

Gagnastefnan fjallar eingöngu um stafræn gögn og gerir grein fyrir þeim skilmálum sem Hafrannsóknastofnun gerir til notenda um meðhöndlun gagna og upplýsinga sem stofnunin á og hefur umráð yfir/varðveitir, en markmið stofnunarinnar er að gera gögnin á næstu árum eins aðgengileg og tök eru á með því skilyrði að uppruna gagnanna sé getið. Hafrannsóknastofnun sér einnig um og vistar í grunnum stofnunarinnar gögn frá þriðja aðila. Þau eru ekki látin af hendi án samþykkis eigenda gagnanna.

Eignarhald
Gögn sem Hafrannsóknastofnun safnar eða býr til í eigin þágu eru eign hennar. Skýrt skal kveðið á með samningum um eignarhald og notkun gagna, sem Hafrannsóknastofnun safnar fyrir utanaðkomandi verkkaupa sína. Gögn sem Hafrannsóknastofnun safnar eru vistuð í gagnagrunnum stofnunarinnar.

Gögn
Með gögnum er átt við vísindaleg gögn á stafrænu formi, þ.e. frumgögn (hrágögn), lýsigögn (metadata), reiknuð og afleidd gögn.

Aðgengi
Hafrannsóknastofnun áskilur sér rétt til að vinna úr gögnum áður en þau eru gerð aðgengileg.

Á næstu árum mun Hafrannsóknastofnun leitast við að gera lýsigögn aðgengileg á vef sínum sem og einnig opinber gögn stofnunarinnar, þar með talin þau landrænu gagnasett sem falla undir INSPIRE.

Ef ákveðin gögn eru ekki aðgengileg á vef stofnunarinnar þá er hægt að senda inn beiðni um þau í fyrirspurnahnapp. Ef fyrirspurn um gögn krefst vinnu af hálfu starfsmanna, þá skal greiða fyrir hana skv. gjaldskrá (sjá lög Hafrannsóknastofnunar).

Notkunarskilmálar
Hafrannsóknastofnun setur það skilyrði að heimildar sé getið, ef niðurstöður eru birtar á grundvelli gagna úr hennar eigu, með eftirfarandi texta: Byggt á gögnum frá Hafrannsóknastofnun.

Hafrannsóknastofnun fer fram á að öll gögn verði meðhöndluð siðferðilega rétt og á heiðarlegan og ábyrgan hátt. Ennfremur er túlkun gagnanna alfarið á ábyrgð notanda.

Notandi má ekki áframselja gögn Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun ber ekki ábyrgð á neinum villum eða vanskráningu í gögnum og er ekki ábyrg fyrir neinu tjóni sem hljótast kann af notkun gagnanna.

Takmarkanir
Hafrannsóknastofnun afhendir ekki gögn þriðja aðila til skoðunar, notkunar eða útgáfu nema tilskilin leyfi frá eigendum gagnanna séu fyrir hendi.

Ef um tilraunir er að ræða þá verða gögn ekki aðgengileg fyrr en búið er að birta niðurstöður. Hafrannsóknastofnun afhendir ekki trúnaðargögn né gögn með lagalegar takmarkanir.

Endurskoðun
Þessi stefna skal endurskoðuð annað hvert ár eða oftar ef þörf krefur.

Samþykki
Forstjóri ásamt framkvæmdastjórn rýnir og samþykkir stefnuna áður en hún er gefin út.

Tengd skjöl
Lög um Hafrannsóknastofnun (nr. 112/2015) Upplýsingastefna (nr. 31, 140/2012)

Lög um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar (nr. 44/2011)

Hafrannsóknastofnun 14. júní 2019

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?