Útbreiðsla makríls

Fjölþjóðlegur makríleggjaleiðangur

Makríll (Scomber scombrus) er útbreiddur beggja vegna Norður-Atlantshafs. Á undanförnum árum hefur makríll gengið bæði norðar og vestar en áður Evrópumegin í hafinu. Samfara því hefur útbreiðsla og magn makríls á Íslandsmiðum aukist verulega og er það talið tengjast hlýnun sjávar. Verðmæti makrílafla Íslendinga hefur jafnframt aukist og eru tekjurnar af þessum veiðum nú orðnar mikilvægur hluti af heildarverðmæti sjávaraflans.

Makríllinn byrjar að hrygna í febrúar við strendur Spánar og Portúgals. Með hækkandi hitastigi fram á vor flyst hrygningin smám saman norður með Evrópu. Hún nær venjulega hámarki í apríl-maí úti fyrir vesturströnd Írlands og suðvesturströnd Englands, en á sama tíma er töluverð en dreifðari hrygning allt frá Biscayaflóa og norður fyrir Færeyjar. Á nyrstu svæðunum hefst hrygningin seinna og stendur fram í júlí. 

Gulf háfur. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Árið 2010 tók Hafrannsóknastofnunin í fyrsta skipti þátt í stofnstærðarmælingu á makríl á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem byggist á eggjatalningum. Fyrsta eggjarannsóknin í þeim tilgangi að meta stofnstærð makríls var gerð árið 1977. Þá tóku einungis tvær þjóðir þátt í verkefninu og ekki tókst að rannsaka nema hluta útbreiðslusvæðis stofnsins. Síðan hafa sífellt fleiri þjóðir bæst í hópinn. Árið 2016 voru þannig farnir 19 rannsóknaleiðangrar, sem 15 rannsóknaskip frá níu þjóðum og 11 rannsóknastofnunum tóku þátt í og samtals voru notaðir 367 sjódagar í verkefnið. Löndin sem komu að rannsókninni að þessu sinni voru Portúgal, Spánn, Írland, Bretland, Holland, Þýskaland, Noregur, Færeyjar og Ísland. Í heild stóðu rannsóknirnar yfir frá því í febrúar og fram í júlí en tilgangurinn var að meta stofnstærðir bæði makríl- og brynstirtlustofna (Trachurus trachurus) í austanverðu Norður-Atlantshafi. Rétt er að geta þess að brynstyrtla fannst ekki á rannsóknasvæði Bjarna Sæmundssonar.

Af hverju eggjatalning?

Makríllinn er ekki með sundmaga og er því ekki mælanlegur með bergmálstækni, líkt og gert er í rannsólnum á síld og loðnu. Jafnframt heldur hann sig mikið uppi í yfirborði sjávar sem gerir alla mælingu mjög erfiða. Í stað bergmálsmælinga á makríl hafa um árabil verið stundaðar umfangsmiklar rannsóknir á eggjaframleiðslu hans. Stofnstærðin er bakreiknuð út frá framleiðslugetu einstakra hrygna og þekktu kynjahlutfalli. Vegna stærðar hrygningarsvæðisins og langs hrygningartíma er ásættanlegt mat á eggjaframleiðslu einungis mögulegt með samvinnu fjölmargra þjóða. Mikið umfang verkefnisins og kostnaður veldur því hins vegar að stofnstærðin er einungis metin á þennan hátt á þriggja ára fresti. Auk eggjatalningarinnar styðst Alþjóðahafrannsóknaráðið við trollmælingar, sem Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar framkvæma á hverju ári, og gögn úr veiðiskýrslum til þess að meta stofninn.

Árið 2016 var eggjaframleiðslan metin frá janúar fram í júlí á sjö fyrirfram skilgreindum hrygningarskeiðum á allri hrygningarslóð makrílsins. Hafsvæðinu var skipt upp í reiti, sem voru 0,5 breiddarbaugur x 0,5 lengdarbaugur að stærð (u.þ.b. 30 x 15 sjómílur á okkar svæði) og háfsýni tekin í hverjum reit.

makrílegg

Eggjunum var safnað með háfi, sem dreginn er á eftir rannsóknaskipinu, en hverju rannsóknaskipi er úthlutað ákveðnu rannsóknarsvæði og ákveðnu mælitímabili. Rannsókn okkar Íslendinga fór fram nyrst á útbreiðslusvæðinu á 5. mælitímabili (2.-15. maí). Á hverju svæði var eggjamagnið metið nokkrum sinnum yfir hrygningartímabilið og samtölur allra svæða eftir tímabilum mynda síðan feril hrygningar það árið. Markmiðið er að reikna út heildarfjölda hrygndra eggja á öllu hrygningarsvæðinu

Afföll makríleggjanna eru mjög mikil, þannig að í útreikningum var einungis miðað við nýhrygnd egg á fyrsta þroskastigi, en þroskastig eggjanna má aðgreina í víðsjá. Eggin klekjast út á u.þ.b. viku, þannig að fara þarf yfir sömu svæðin mörgum sinnum, til að kortleggja alla eggjaframleiðsluna.

Um borð í rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni var makríleggjum safnað með háhraða svifháfi, svokölluðum „Gulf_VII“ háfi eða „tundurskeyti“. Þvermál háfopsins er 20 cm, lengd netsins 2 m og möskvastærðin 280 μm (0,28 mm) . Háfnum var slakað frá yfirborði niður á 200 metra dýpi og hann síðan hífður upp aftur á meðan skipið sigldi á um 5 sjómílna ferð. Ferill háfsins niður og upp í sjónum var þannig nokkurn veginn V-laga. Í opi annars háfsins var flæðismælir þannig að hægt var að meta rúmmál sjávarins sem háfurinn síðaði. Alls voru teknar 100 háfstöðvar í leiðangrinum á svæðinu á milli Skotlands og Færeyja. 

Um borð voru öll fiskegg tínd úr sýnunum og þau ljósmynduð með stafrænni myndavél. Þá voru þau greind til tegunda en makríleggin voru auk þess stærðarmæld og greind til sex mismundandi þroskastiga. Þegar komið var í land voru sýnin yfirfarin á ný og tegundagreining og greining þroskastiga staðfest. Á háfinn var festur síritandi hita- og seltumælir (sonda) sem skilaði gögnum í rauntíma upp í skipið. Hitastig í umhverfi eggjanna er notað í útreikningum á eggjaframleiðslu, þar sem hærri hiti flýtir fyrir þroskun og þar af leiðandi eru eggin skemur á fyrsta þroskastigi. Þá voru tekin sýni af hrygningarfiski á nokkrum stöðvum með flotvörpu og makrílafli lengdarmældur, kyngreindur og hrognasekkir teknir til mælingar á frjósemi hrygnanna á svæðinu. Með vefjafræðilegum aðferðum er síðan áætlað hversu mörg egg hver hrygna gefur af sér yfir hrygningartímabilið.

Hverju skila þessar mælingar?

Þéttleiki makríleggja á rannsóknasvæði Hafrannsóknastofnunar í maí 2016 var margfaldur á við það sem mælt var 2010 og 2013. Vel tókst að afmarka hrygninguna til vesturs en vegna tímaskorts var ekki hægt að komast fyrir norðurmörkin. Færeyingar fóru yfir sama rannsóknasvæði u.þ.b. mánuði síðar og fundu mikinn þéttleika makríleggja á öllu svæðinu, m.a. við landhelgislínu Íslands og Færeyja, en að sama skapi gerði knappur skipatími það að verkum að þeir náðu hvorki að afmarka hrygninguna til vesturs eða norðurs. Það er því ljóst að makrílhrygningin hefur teygt sig inn í íslenska lögsögu og sennilega í meira mæli en 2010 og 2013. Trollmælingar Hafrannsóknastofnunar í júlí og ágúst 2017 sýndu að aldrei hefur mælst meira af makríl í íslenskri lögsögu frá því makríllinn fór að gera þar vart við sig í árið 2007. Þessar niðurstöður ríma einnig vel við þá staðreynd að á undanförnum árum hefur orðið vart við makrílungviði við Ísland. Það bendir til þess að makríllinn hrygni við landið, klekist hér út og alist upp á Íslandsmiðum.

Frjósemisrannsóknir á vefjasýnum úr fullorðnum makríl eru tímafrekar og lýkur ekki fyrr en árið 2018. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr öllum rannsóknaleiðöngrum ársins 2016 er áætlað að heildareggjaframleiðsla makríls hafi verið af stærðargráðunni 2.15 x 1015 egg, sem er 29% minnkun frá árinu 2013. Alþjóðahafrannsóknaráðið nýtir síðan þessar niðurstöður ásamt trollmælingum og aflaskýrslum þegar ráðlögð veiði í Norðaustur-Atlantshafi er ákveðin.

Árið 2013 kom í ljós að þungamiðja hrygningarinnar hafði færst frá hafsvæðunum vestan við Bretlandseyjar til suðurs inn í Biscayaflóa. Árið 2016 virðist þetta hafa snúist við á ný og þungamiðja makrílhrygningarinnar flust til norðurs vestur af Bretlandseyjum. Þrátt fyrir að makrílstofninn mælist minni nú en árið 2013 samkvæmt eggjatalningunni virðist hann sterkur. Trollmæling Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga frá því sumarið 2017 styður þær niðurstöður.

Af hverju egg en ekki hrogn?

Ekki eru allir sáttir við að tala um egg fiska en ekki hrogn. Á Hafrannsóknastofnun er þumalputtareglan sú að þegar eggin eru í hrognasekkjum, inni í fiskum, þá er talað um hrogn. Þegar eggin losna úr hrognasekkjunum og berast út í hafið tala fiskifræðingar um egg. Þessa venju má rekja aftur til Bjarna Sæmundssonar og sami háttur er hafður í enskri tungu og á Norðurlöndum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?