Ferskvatnsfiskar

Í íslenskum ferskvötnum lifa sex tegundir fiska. Þrjár tegundir tilheyra laxaættinni (Salmonidae), en það eru atlantshafslaxinn (Salmo salar), urriði (Salmo trutta L.) og bleikja (Salvelinus alpinus). Hinar þrjár tegundirnar eru hornsíli (Gasterosteus aculeatus), evrópski áll (Anguilla anguilla) og flundra (Platichthys flesus). Allar þrjár tegundir laxaættarinnar, auk hornsílisins hrygna í fersku vatni en áll og flundra hrygna í sjó.

Undanfarin ár hefur hnúðlaxi (Oncorhynchus gorbuscha) fjölgað í íslenskum ám og dæmum um hrygningu tegundarinnar í íslenskum ám fer fjölgandi. Það má því segja að hnúðlax er sjöunda tegund fiska sem lifa í ferskvötnum Íslands, en nauðsynlegt er að staðfesta hrygningu hnúðlax, t.d. með rafveiðum seiða í íslenskum ám.

Þrátt fyrir fremur fáar tegundir fiska í ám og vötnum hafa ýmiss afbrigði þróast innan stofna bleikja og hornsíla. Tilkoma nýrra afbrigða bleikja er algengust í djúpum vötnum þar sem stórir stofnar bleikju hafa aðlagast ólíkum lifnaðarháttum, svo sem ákveðinni fæðu og/eða búsvæðum. Með tímanum þróast hluti stofnsins yfir í nýtt afbrigði. Bleikjan í Þingvallavatni hefur til að mynda 4 afbrigði sem öll eru ólík hvað snertir litamynstur, sköpulag, vaxtarferla, stærð og búsvæðaval. Afbrigðin í Þingvallavatni nefnast murta, kuðungableikja, dvergbleikja og sílableikja. Í öðrum stórum vötnum er algengara að tvö afbrigði bleikju finnist, þó vissulega er algengast að aðeins eitt afbrigði sé til staðar. Bleikjuafbrigðin í Mývatni eru tvö, hefðbundin bleikja og svo smærra afbrigði sem heimamenn kalla krús.

Í ám getur silungur ýmist verið staðbundinn, þ.e. aldrei gengið til sjávar, eða sjógengin, þ.e. gengið til sjávar í fæðuleit áður en snúið er aftur upp ánna til hrygningar. Sjógengin urriði kallast sjóbirtingur og bleikjan kallast sjóbleikja. Sjóbirtingur er silfraður en staðbundinn urriði er jafnan dekkri.

Af hornsílum hér á landi eru þekkt a.m.k. þrjú megin útlitsafbrigði er hafa mismunandi lífsferla: Bersíli sem finnst í fersku vatni, hálfbrynsíli finnst í ísöltu vatni og svo brynsíli, en það afbrigði lifir í sjó stóran hluta lífsferilsins.

Fiskifræðin er forn grein vísinda og elstu heimildir herma að Aristóteles (384 – 322 f.Kr.) hafi upphaflega flokkað fiska frá hvölum og síðar lýsti hann 115 tegundum fiska. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú hefur verið lýst um 34.300 tegundum fiska. Þrátt fyrir að 97% rúmmáls vatns í heiminum tilheyri sjó og aðeins 0,01% tilheyri stöðuvötnum og ám, eru hlutföll fiska um 58% sjávartegundir og 41% eru ferskvatnstegundir. Hvað er það sem takmarkar útbreiðslu fiska? Það eru fyrst og fremst fjórir meginþættir sem takmarka útbreiðslu fiska: Eðlisfræðilegir (hitastig, dýpi, straumar o.fl.), efnafræðilegir (sýrustig, súrefnismagn, uppleyst efni o.fl.), líffræðilegir (samkeppni, fæðuframboð o.fl.) og landfræðilegir (hindranir, einangrun o.fl.). Það er erfitt fyrir nýjar tegundir ferskvatnsfiska að nema hér land þar sem tveir stórir þættir hindra útbreiðslu nýrra tegunda: 1. Selta og 2. Landfræðileg einangrun Íslands sem eyja í Atlantshafi. Til þess að ný tegund ferskvatnsfiska nemi hér land þarf tegundin að vera hæf til þess að aðlaga sig að seltu sjávar og ferðast yfir langar vegalengdir Atlantshafsins og finna sér rennandi ferskvatn til að hrygna í. Þetta er stór þröskuldur að yfirstíga og skýrir hann að öllum líkindum af hverju fáar tegundir ferskvatnsfiska finnast hér á landi.

mynd frá Þingvöllum

Frá Þingvöllum. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Uppfært 11. janúar 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?