Víðtækar hvalatalningar

Frá árinu 1987 hefur Hafrannsóknastofnun tekið þátt í fjölþjóðlegum hvalatalningum í samvinnu við nágrannaþjóðir við Norður Atlantshaf (NASS).

Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um útbreiðslu og meta fjölda hvala á Íslandsmiðum og aðliggjandi hafsvæðum svo bæta megi stjórnun nýtingar og verndun stofnanna. Einnig gefa hvalatalningarnar mikilvægar vísbendingar um áhrif hlýnunar sjávar á vistkerfið.

Alls hafa farið fram sex slíkar talningar (1987, 1989, 1995, 2001, 2007 og 2015/2016) í samvinnu við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga og stundum einnig aðildarþjóðir Evrópusambandsins, Bandaríkin og Kanada.

Skipulagning talninganna við Ísland hefur miðað að því að fá sem best mat á stofnstærð langreyðar og hrefnu en þær hafa einnig skilað mikilsverðum upplýsingum um aðrar hvalategundir.

Talsverðar breytingar hafa orðið á útbreiðslu og fjölda hvala við landið á tímabilinu. Langreyði hefur fjölgað mikið, einkum á svæðinu milli Íslands og Grænlands. Hrefnu hefur hins vegar fækkað mjög á íslenska landgrunnsvæðinu eftir aldamót og er þar líklega um að ræða útbreiðsluhliðrun til norðurs vegna ætisskorts. Fjöldi hnúfubaka hefur margfaldast frá því að talningar hófust árið 1987. Ólíkt fyrrnefndum tegundum á steypireyður enn langt í land með að ná þeirri stofnstærð sem var fyrir tíma hvalveiða á seint á 19. öld. Ekki hafa komið fram greinilegar vísbendingar um miklar breytingar í útbreiðslu og fjölda annarra hvalategunda.

Aðrar hvalatalningar


Auk fyrrnefndra fjölþjóðlegra talninga hefur stofnunin staðið fyrir ýmsum minni og/eða sértækari hvalatalningum. Frá haustinu 2015 hafa árlega farið fram hvalatalningar á loðnumiðum í tengslum við mælingar Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins. Markmið rannsóknanna er að meta fjölda hnúfubaka, annarra skíðishvala og sjófugla á loðnumiðum, en slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til mats á afráni hvala á loðnustofninum.

Sumarið 2017 tók stofnunin þátt í fjölþjóðlegum hvala- og fuglatalningaleiðangri á Charlie Gibbs misgengissvæðinu á Norður Atlantshafshryggnum, en það svæði er lítt kannað hvað varðar sjófugla og sjávarspendýr.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?