Víðtækar hvalatalningar

Frá árinu 1987 hefur Hafrannsóknastofnun reglulega tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd á fjölþjóðlegum hvalatalningum í samvinnu við nágrannaþjóðir við Norður Atlantshaf (NASS og T-NASS). Um er að ræða víðtækust talningar og vöktun á nokkrum dýrategundum í heiminum. Hafsvæðið spannar allt frá austanverðu Barentshafi við 34°A að austurströnd Kanada á milli 52°N og 78°N eða um 1,8 miljón fermílna hafsvæði. Slíkar talningar standa yfir í um sex vikur samfellt. Hluti af talningunum fer jafnframt fram með flugvélum. Einkum er þeim beitt á grunnslóð.

Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um útbreiðslu og fjölda hvala á Íslandsmiðum og aðliggjandi hafsvæðum svo bæta megi stjórnun nýtingar og verndun stofnanna. Einnig gefa hvalatalningarnar mikilvægar vísbendingar um áhrif hlýnunar sjávar á vistkerfið.

Alls hafa sex slíkar talningar farið fram (1987, 1989, 1995, 2001, 2007 og 2015/2016) í samvinnu við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga og stundum einnig aðildarþjóðir Evrópusambandsins, Bretland, Bandaríkin og Kanada.

Skipulagning talninganna á hafsvæðinu við Ísland hefur miðað að því að fá sem best mat á stofnstærð langreyðar og hrefnu en þær skila engu að síður jafnframt mikilsverðum upplýsingum um aðrar hvalategundir.

Sjá hefur mátt talsverðar breytingar í útbreiðslu og fjölda hvala við landið á tímabilinu. Langreyði hefur fjölgað mjög, einkum á svæðinu milli Íslands og Grænlands. Hrefnu hefur hins vegar fækkað mjög á íslenska landgrunnsvæðinu eftir aldamót og er þar líklega um að ræða útbreiðsluhliðrun til norðurs vegna skorts á æti á landgrunninu. Fjöldi hnúfubaka hefur margfaldast frá því að talningar hófust árið 1987. Ólíkt fyrrnefndum tegundum á steypireyður enn langt í land með að ná þeirri stofnstærð sem var fyrir tíma hvalveiða seint á 19. öld. Ekki hafa komið fram óyggjandi vísbendingar um miklar breytingar í útbreiðslu og fjölda annarra hvalategunda.

Nýlega útkomnar greinar, greina frá niðurstöður síðustu tveggja talninga (T-NASS07 og T-NASS15) á hafsvæðinu kringum Ísland. í eftirfarandi töflu má sjá niðurstöður þessa tveggja síðustu talninga. Hafa ber í huga að þessar niðurstöður hafa ekki verið leiðréttar fyrir mismun í framkvæmd og úrvinnslu talninganna þessi tvö ár eru því ekki að fullu sambærilegar.

Tafla

Smellið á töfluna til að stækka.


Lesa má um síðustu talningar á tveimur slóðum hér fyrir neðan:
https://septentrio.uit.no/index.php/NAMMCOSP/article/view/5269
https://septentrio.uit.no/index.php/NAMMCOSP/article/view/4941

Aðrar hvalatalningar


Auk fyrrnefndra fjölþjóðlegra talninga hefur stofnunin undanfarna áratugi staðið fyrir ýmsum minni og/eða sértækari hvalatalningum, oft samhliða öðrum leiðöngrum stofnunarinnar svo sem makríl- og síldarleiðöngrum. Meðal eldri sería sem til eru, eru svo kallaðir “núllgrúppuleiðangrar” eða “seiðaleiðangrar”, þar sem farið var að hausti umhverfis landið og magn fiskseiða metið. Haustin 2015 til 2019 fóru fram hvala- og fuglatalningar samhliða mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins. Markmið talninganna er að meta fjölda hvala, sérstaklega hnúfubaka og sjófugla á loðnumiðum auk annara hvaltegunda, en slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til mats á afráni hvala og fugla á loðnustofninum.

Sumarið 2017 tók stofnunin þátt í fjölþjóðlegum hvala- og fuglatalningaleiðangri á Charlie Gibbs misgengissvæðinu á Norður Atlantshafshryggnum, en það svæði er lítt kannað hvað varðar sjófugla og sjávarspendýr.

Síða uppfærð 23. júní 2021.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?