Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna

Hjá Hafrannsóknastofnun ríkir jafnrétti þar sem allir njóta sanngirni og jafnra tækifæra. Stofnunin vinnur markvisst í samræmi við jafnréttisáætlun um að jafna stöðu starfsfólks óháð kyni og allir hafi jafnan aðgang að framgangi í starfi. Með þessu nýtir stofnunin mannauðinn á sem bestan hátt og fer eftir lögum. Jafnréttisstefna Hafrannsóknastofnunar er unnin í samræmi við lög um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 10/2008 og aðrar kröfur.

Hafrannsóknastofnun stuðlar að jafnrétti og vinnur eftir jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála. Samkvæmt lögum á slík áætlun að fjalla um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kynbundið ofbeldi, kynbundið áreiti og kynferðislega áreitni. Stjórnendur Hafrannsóknastofnunar fylgja jafnréttisstefnu þessari og vinna stöðugt að jafnrétti innan stofnunarinnar.

Markmið jafnréttisstefnunar eru:

 1. Starfskjör kynja séu jöfn.
 2. Allir eiga jafna möguleika til starfa hjá Hafrannsóknastofnun, óháð kyni.
 3. Allt starfsfólk, sama hvaða störfum það gegnir hjá Hafrannsóknastofnun, á jafna möguleika til endurmenntunar, símenntunar og þeirrar starfsþjálfunar sem það þarfnast til að auka færni sína í starfi sem þeir sinna.
 4. Störf og verkefni séu skipulögð þannig að starfsfólk geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.
 5. Mismuna ekki starfsfólki á nokkurn hátt á grundvelli kynferðis, aldrurs, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags eða annarra persónubundinna þátta.
 6. Tryggja starfsfólki vinnuumhverfi þar sem einelti, fordómar og kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin.
 7. Tryggja gott aðgengi og vinnuaðstöðu á grundvelli líkamlegs og andlegs atgervis.

Jafnréttisáætlun Hafrannsóknastofnunar

Áætlunin miðar að því að allir einstaklingar njóti réttinda sinna innan stofnunarinnar án mismunar á grundvelli kynferðis, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, trúbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti sem lítilvirðir eða misbýður einstaklingi sem fyrir henni verður. Hafrannsóknastofnun skuldbindur sig til að fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem Hafrannsóknastofnun hefur undirgengist.

 • Að starfskjör kynja séu jöfn.
 • Að jafna hlutfall kynja innan Hafrannsóknastofnunar og einstakra hópa/sviða.
 • Að efla jafnréttismenningu starfsfólks hjá Hafrannsóknastofnun.
 • Að allt starfsfólk geti samræmt starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.
 • Að vinna gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni innan Hafrannsóknastofnunar.
 • Að tekið sé mið af jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun og stærri ákvarðanatöku.

 

 1. Launajafnrétti

Hafrannsóknastofnun greiðir kynjum jöfn laun og veitir þeim sömu kjör fyrir sambærileg eða jafn verðmæt störf.

 1. Laus störf

Hjá Hafrannsóknastofnun hafa allir jafnan aðgang að störfum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu og eru allir hvattir til þess að sækja um lausar stöður hjá stofnuninni. Lögð er áhersla á að störf séu ekki flokkuð út frá sérstökum kyneinkennum.

 1. Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Hafrannsóknastofnun leitast við að vera eftirsóknarverður starfsvettvangur fyrir hæfileikaríka einstaklinga af öllum kynjum og veita þeim tækifæri til starfsþróunar. Tryggt er að allt starfsfólk, óháð kyni njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

 1. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Hafrannsóknastofnun einsetur sér að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu- og einkalífi með sveigjanleika í starfi og fjarvinnu eftir því sem við verður komið. Lögð er áhersla á að starfsfólki sé auðveldað að koma til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra brýnna fjölskylduaðstæðna. Hafrannsóknastofnun hvetur foreldra til að taka jafna ábyrgð á fjarveru vegna foreldrahlutverksins.

 1. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

Á Hafrannsóknastofnun er ekki liðið kynbundið ofbeldi, kynbundið eða kynferðislegt áreiti og gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að starfsfólk verði ekki fyrir ofbeldi og/eða áreitni á vinnustaðnum.

Í viðbragðsáætlun er kveðið á um hvert starfsmaður skal leita með mál er varða kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni þegar bæði starfsmenn og yfirmenn eiga í hlut.

Samþykkt á fundi framkvæmdarstjórnar Hafrannsóknastofnunar þann 4. september 2020.

September 2020.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?