Bleikja

Bleikja (Salvelinus alpinus) er hánorræn tegund með útbreiðslu um allt norðurhvel jarðar og nær útbreiðsla hennar norðar en nokkurrar annarrar ferskvatnsfisktegundar. Hún getur aðlagast mjög ólíkum aðstæðum og getur hrygnt bæði í stöðuvötnum og straumvatni. Bleikja getur annars vegar alið allan sinn aldur í ferskvatni (staðbundin bleikja) og finnst það lífsform bæði hjá bleikju í ám og vötnum. Hins vegar er bleikja sem dvelur fyrstu ár ævi sinnar í ferskvatni sem seiði, en gengur eftir það árlega til sjávar yfir sumartímann en dvelur yfir veturinn í ferskvatni (sjóbleikja).

Í stöðuvötnum hrygnir bleikjan oftast á grynningum þar sem er malar- eða grjótbotn. Eftir að ungviðið hefur alist upp í allt að tvö ár við ströndina, dreifir það sér um vatnið. Aðstæður í hverju vatni ráða því hve stór bleikjan verður kynþroska, ef fæða er lítil og vöxtur hægur getur hún orðið kynþroska um7 - 12 cm löng, en allt að 50 – 60 cm þar sem vaxtarhraði er meiri.

Sjóbleikjan dvelur nokkrar vikur á hverju sumri í sjó, en gengur upp í ferskvatn seinni part sumars og dvelur þar yfir veturinn. Aldur sjóbleikjuseiða við fyrstu sjógöngu er nokkuð mismunandi, en er yfirleitt á bilinu 3 til 4 ára, þó rannsóknir hafi sýnt að hjá einstaka bleikjustofnum eru allt niður í eins árs seiði að ganga til sjávar, þá aðeins 6 - 12 cm á lengd. Smá bleikja þolir ekki strax fulla seltu og heldur sig í ísöltum árósasvæðum eða sjávarlónum áður en gengur áfram til sjávar. Stærri bleikja þolir hinsvegar strax fulla seltu og gengur beint til sjávar. Bleikjan dvelur síðan tvö til þrjú sumur í sjó áður en hún verður kynþroska og gengur í sína heimaá til hrygningar. Vetursetustöðvar sjóbleikju sem ekki hefur orðið kynþroska, geta verið í öðrum ám en þeim sem þær eru upprunar úr.

Bleikja aðlagast mikið að umhverfi sínu og eru til mörg afbrigði af henni. Best þekkta dæmið er líklega bleikjan í Þingvallavatni, en þar má í sama vatninu finna fjögur afbrigði hennar. Það er murtan sem lifir á svifi, dvergbleikja sem lifir í gjótum og sprungum í hrauninu, sílableikja sem er stærri og lifir á fiski og að síðustu kuðungableikja sem er aðlöguð að áti af botni.

Staðbundin bleikja og sjóbleikja er útbreidd um allt land. Almennt má segja að stærstu sjóbleikjustofnarnir séu á Tröllaskaga og Austfjörðum, einkum þar sem saman fara fremur hrjóstrugar ár þar sem lax og sjóbirtingur eru ekki til staðar. Ísölt lón eða vötn á vatnasvæðinu hafa einnig áhrif til aukinnar viðkomu stofnanna. Nýting og vinsældir silungsveiði á þessum svæðum hafa farið vaxandi á síðustu árum, einkum stangveiði.

Bleikjustofnar Íslands hafa átt undir högg að sækja síðustu áratugi og almennt hafa stofnstærðið staðbundinna bleikja og sjóbleikja farið minnkandi. Dæmi um samdrátt í staðbundnum bleikjustofni er stofninn í Mývatni, en hrun var í bleikjustofninum árið 1988 og aftur árið 1997. Ljóst er að bleikjustofninn í Mývatni var orðinn verulega lítill og gilda enn til dagsins í dag strangar veiðitakmarkanir í vatninu. Veiði á sjóbleikju hefur sömuleiðis farið minnkandi á flest öllum landshlutum. Í gegnum árin hefur veiðin verið mest á Norðvesturlandi, en hefur nær stöðugt farið minnkandi síðustu 20 árin. Árið 2001 veiddust um 40.000 bleikjur í stangveiði á Íslandi en árið 2018 var heildarveiðin rúmlega 27.000 bleikjur.

Myndband sýnir bleikju synda í gegnum teljara í á.

Uppfært 24. janúar 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?