Ísafjarðardjúp

kort

Hnit - 66°05'N 22°48'W
Flatarmál - 650 km2
Meðaldýpi - 50-100 m
Mesta dýpi - 130 m

Ísafjarðardjúp er einn af stærstu fjörðum Íslands og sá langstærsti á Vestfjörðum. Það er um 75 km langt frá mynni að botni innsta fjarðar, Ísafjarðar. Það er rúmlega 20 km á breidd við mynnið, þar sem það er breiðast, á milli Stigahlíðar að sunnan og Rits en Ritur er ysti höfði Grænuhlíðar að norðan. Djúpið mjókkar smám saman eftir því sem innar dregur. Frá mynni Ísafjarðardjúps og inn eftir því gengur áll sem er 110-130 m djúpur en á grunnunum beggja vegna er 40-60 m dýpi.

Suður úr Djúpinu ganga níu firðir en yst í því sunnan megin er Bolungarvík. Að norðanverðu er aðeins einn lítill fjörður Kaldalón og þar fyrir framan Lóndjúp. Til norðausturs út úr mynni Ísafjarðardjúps gengur stór fjörður, svokallaðir Jökulfirðir, sem greinist í fimm innfirði.

Nokkrar eyjar eru í Ísafjarðardjúpi. Æðey er þeirra stærst en hún er norðan megin í Djúpinu rétt utan við Unaðsdal. Vigur er nokkuð stór eyja í minni Hest- og Skötufjarðar en Borgarey smæst og innst, vel utan við innsta fjörðinn, Ísafjörð. Flatarmál Ísafjarðardjúps að frádregnum innfjörðum þess er um 650 km2 en að viðbættum innfjörðum um 786 km2 og eru þá Jökulfirðir undanskildir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?