Ársskýrsla 2019

Sigurður Guðjónsson. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Ávarp forstjóra

Ísland er eyríki sem byggir stóran hluta afkomu sinnar á sjávarútvegi og skyldum greinum. Til að nýta auðlindir hafsins á skynsaman og sjálfbæran hátt þarf öflugar hafrannsóknir. Það hefur truflað rannsóknastarfsemi Hafrannsóknastofnunar að fjármögnun á grunnstarfsemi hennar byggði ekki á nægilega traustum grunni. Talsverður hluti starfseminnar er fjármagnaður af opinberum sjóðum og var Verkefnasjóður sjávarútvegsins þar langstærstur. Á þetta hefur lengi verið bent án þess að í nauðsynlegar breytingar hafi verið ráðist. Hluti skýringanna má leita í tíðum stjórnarskiptum á umliðnum árum. Við greiðslufall Verkefnasjóðs í lok árs 2018 stóð stofnunin skyndilega mjög illa þar sem það vantaði 140 milljónir í rekstur ársins 2018 og annað eins í rekstur ársins 2019. Nú hefur þessu verið breytt þannig að greiðslur renna eftir sem áður í Verkefnasjóð og þaðan í ríkissjóð. Ríkisframlag til stofnunarinnar var hækkað á móti þannig að ríkissjóður tekur sveiflurnar sem verða í Verkefnasjóði. Engu að síður þurfti að fara í erfiðar hagræðingaraðgerðir í lok árs 2019. Fækkað var í yfirstjórn og stoðþjónusta skert. Reynt var að hlífa rannsóknastarfinu eins og kostur var. Áfram er unnið með ráðuneyti og ráðherra í góðri sátt að lausn þess vanda sem skapaðist vegna greiðslufalls Verkefnasjóðs og tilheyrandi halla fyrir árin 2018 og 2019. Hagræðingaraðgerðir sem þessar hafa óneitanlega mikil áhrif á starfsemi stofnunarinnar, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Engum dylst að þjóðhagsleg og vísindaleg verðmæti Hafrannsóknastofnunar byggja á mannauði hennar. Þekking og reynsla starfsfólks stofnunarinnar er ómetanleg og mikilvægt að tryggja að hún viðhaldist.

Annað sem veldur einnig áhyggjum er sífelld hagræðingarkrafa í ríkisfjárveitingum. Skýr vilji hefur komið fram hjá núverandi ríkisstjórn að efla hafrannsóknir og umhverfisrannsóknir. Líta verður á hafrannsóknir sem fjárfestingu en ekki eyðslu á fjármagni. Hafrannsóknastofnun í dag sinnir grunnvöktun á helstu umhverfisþáttum í hafinu í kringum landið ásamt vöktun á helstu nytjastofnum sjávar og í ám og vötnum. Í þetta fara nánast allir rekstrarfjármunir stofnunarinnar. Nýting sjávarauðlinda byggir á sjálfbærri nýtingu okkar nytjastofna og mælingar á afkastagetu þeirra er nauðsynleg fjárfesting. Ef slakað er á þarna, skapar það óvissu í mælingum sem leiðir til þess að stofnunin getum ekki ráðlagt jafn mikinn afla. Varúðarreglan mælir svo fyrir. Það þýðir beint tap fyrir þjóðfélagið. Hagræðingarkrafa upp á 2 % á ári er umtalsverð og í tilfelli Hafrannsóknastofnunar þýðir það lækkun í fjárveitingu um 90 milljónir á ári sem tekur í, sérstaklega ef áfram er haldið ár eftir ár. Þetta er í beinni andstöðu við auknar áherslur í hafrannsóknum. Þá kalla miklar umhverfisbreytingar, á auknar rannsóknir og kostnað. Langstærsti hluti af rekstrarfé stofnunarinnar er varið í grunnvöktun á umhverfi og fiskistofnum. Stór hluti af rekstrarfé er fastur kostnaður. Til dæmis kostar grunnrekstur skipanna rúman fjórðung af rekstrarfénu. Það er því ekki mikið rými til hagræðingar. Heppilegt væri að Hafrannsóknastofnun þyrfti ekki að sæta hagræðingarkröfu.

Meginþungi starfsemi Hafrannsóknastofnunar er á vöktun á umhverfi og nytjastofnum. Við erum að sinna grunnrannsóknum of lítið. Hættulega lítið, sérstaklega á tímum hröðustu umhverfisbreytinga sem við höfum upplifað.

Miklar breytingar eiga sér nú stað í umhverfi hafsins sem og í veðurfari. Þessar breytingar hafa og munu hafa mikil áhrif á vistkerfi bæði í hafinu og í ám og vötnum landsins. Jafnframt þessu er hafið að súrna vegna aukins styrks koltvísýrings í andrúmslofti. Súrnun sjávar er hraðari í norðurhöfum vegna meiri uppleysanleika þeirrar lofttegundar í svalari sjó. Þegar sjást miklar breytingar á vistkerfunum og á nytjastofnum. Hvað útbreiðslu varðar færast flestar tegundir norður. Bæði útbreiðsla tegunda og stofnstærð er að breytast hjá flestum tegundum. Sem dæmi stækkaði stofn makrílsins og færðist norður og inn í íslenska lögsögu sem hefur verið Íslendingum hagfellt. Á hinn bóginn færðist útbreiðsla loðnu enn norðar og stofn hennar hefur minnkað mikið. Þetta þýðir að minna eða ekki verður hægt að veiða loðnu á komandi árum. Enn meira áhyggjuefni er að loðnan er mikilvægasta fæða þorsksins og fleiri fiskstofna. Því er sem aldrei fyrr afar mikilvægt að vakta ástand hafsins og nytjastofna þess. Það þarf að stórauka þessar rannsóknir til að reyna að sjá fyrir þær breytingar sem án efa munu eiga sér stað á komandi árum. Á grunni þekkingar er auðveldara að bregðast við breytingunum og aðlaga samfélagið að þeim.

Fiskeldi á mikla möguleika hér á landi og ljóst að vaxandi þörf heimsins fyrir sjávarafurðir verður einungis svarað með auknu fiskeldi þar sem veiðar munu ekki aukast svo nokkru nemi frá núverandi stöðu. Hér á landi og við landið getur dafnað mjög fjölbreytilegt fiskeldi. Íslendingar eru að fara mjög ábyrga leið í sjókvíaeldi á laxi, þar sem áhersla er lögð á sjálfbært laxeldi. Þar stöndum við framar flestum öðrum þjóðum. Þetta ætti að koma íslenskri náttúru og laxeldi mjög vel. Afurðir úr slíku eldi eru umhverfisvænni en úr öðru eldi. Fiskeldi á landi á bleikju og fleiri tegundum felur í sér mikla möguleika með nýtingu jarðhita, hreins vatns og sjávar. Hægt er að byggja á mörgu úr sjávarútvegi varðandi vinnslu, markaðsetningu og sjálfbærni. Fiskeldi hér á landi ætti að geta skapað jafnmikil verðmæti í framtíðinni og sjávarútvegur gerir nú. Til að ná þangað þurfum að leggja mun meiri áherslu á þróun og rannsóknir í fiskeldi en nú er gert.

Mikilvægi hafrannsókna er að aukast. Sérstaklega er mikilvægt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína jafnmikið á auðlindum hafsins að menntun á þeim fagsviðum í landinu sé öflug.  Systurstofnanir Hafrannsóknastofnunar víða um heim gegna því hlutverki að koma að kennslu við háskóla samhliða rannsóknum. Í lögum um Hafrannsóknastofnun er skýrt kveðið á um samstarf við háskóla. Slíkt fyrirkomulag leiðir til þess að nemendur fá mjög góða kennslu. Glænýjar rannsóknaniðurstöður eru nýttar strax og námið verður mjög áhugavert sem hvetur ungt námsfólk til að leggja þessi fræði fyrir sig. Nýliðun sérfræðinga stofnunarinnar er mjög mikilvæg og er tryggari með þessum hætti. Mikið er í húfi fyrir okkur sem þjóð að þekking á þessum sviðum sé góð svo að við getum áfram verið í forystu í hafrannsóknum og í sjálfbærri nýtingu á auðlindum hafs og vatna. Á þessum grunni var gerður samstarfsamningur við Háskóla Íslands um námsbraut á meistarastigi í fiskifræði og skyldum greinum. Þetta nám stendur til boða strax haustið 2020. Hafrannsóknastofnun leggur til sérfræðing sem ásamt háskólanum skipuleggur námið og kemur að kennslu. Fleiri sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar munu koma að kennslu, auk þess sem að rannsóknaaðstaða stofnunarinnar, bæði rannsóknastofur og skip eru til reiðu. Þarna er stigið mikið framfaraspor.

Nú á vordögum 2020 flytur stofnunin í nýtt og glæsilegt húsnæði við Fornubúðir 5 í Hafnarfirði. Húsnæðið er leigt til 25 ára. Þar verður öll aðstaða á einum stað bæði rannsóknaaðstaða og útgerð. Rannsóknaskipin liggja í Hafnarfjarðarhöfn við nýjan viðlegukant rétt utan við húsið. Nýja húsið er glæsileg bygging þar sem hugsað er fyrir öllum þörfum stofnunarinnar og er mikil framför fyrir starfsemina. Á umliðnum árum hefur talsverðum fjármunum verið varið í að bæta vinnuumhverfi starfsfólks, meðal annars með kaupum á tölvum og hugbúnaði. Vegna aukinna verkefna og vegna náttúrulegrar endurnýjunar hefur á síðustu árum verið ráðið nýtt starfsfólk til stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun er því bæði að eflast í búnaði og mannafla. Við þessar ráðningar hefur hlutdeild kvenna stóraukist sem styrkir stofnunina enn frekar.

Smíðanefnd byggingar nýs hafrannsóknaskips hefur unnið að undibúningi smíði skips sem til stendur að bjóða út vorið 2020. Margir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa lagt á ráðin með frumhönnuði skipsins sem er Skipatækni. Stefnt er að því að smíði skipsins verði lokið á árinu 2022.

Við stofnsetningu okkar nýju stofnunar var aukin áhersla á að sækja um fjármagn í erlenda rannsóknasjóði til að efla rannsóknir. Sú sókn hefur skilað árangri. Nú þegar eru 3 stór evrópsk rannsóknarverkefni hafin þar sem stofnunin á stóran þátt og fleiri verkefni eru á leiðinni. Við munum halda áfram á þeirri braut til að bæta og auka grunnrannsóknir og þekkingu. Það eru verðmætin sem við getum skapað. Sækjum meiri þekkingu með samvinnu. Til þess höfum við þor.

Framtíðarsýn Hafrannsóknastofnunar

Hafrannsóknastofnun verði í fremstu röð í

 • haf- og ferskvatnsrannsóknum í lögsögu Íslands og á norðurslóðum
 • nýtingarráðgjöf nytjastofna með vistkerfisnálgun að leiðarljósi
 • vöktun vistkerfa í hafi og ferskvatni
 • rannsóknum og þróun í fiskeldi í sátt við náttúru

Hafrannsóknastofnun verði eftirsóknarverður vinnustaður með

 • framsækinni mannauðsstefnu sem stuðlar að samkeppnishæfni stofnunarinnar
 • markvissri jafnréttisstefnu
 • aðstæðum þar sem árangursríkt starf og faglegur metnaður getur dafnað
 • aukinni nýliðun starfsmanna og spennandi tækifærum fyrir nemendur

Hafrannsóknastofnun verði eftirsóttur samstarfsaðili með því að

 • miðla þekkingu til vísindasamfélagsins og almennings
 • hafa á að skipa öflugri stoðþjónustu og besta fáanlega tækjabúnaði
 • vera virk á alþjóðavettvangi

Gildi Hafrannsóknastofnunar

Þekking
Þekking á vistkerfum hafs og vatna er forsenda sjálfbærrar nýtingar auðlinda lagarins. Við byggjum starf okkar á langtímasýn og metnaðarfullum rannsóknum á fagsviðum Hafrannsóknastofnunar.

Samvinna
Árangur stofnunarinnar byggist á samvinnu, innan stofnunar og utan. Við berum sameiginlega ábyrgð, komum fram við hvert annað af virðingu og göngum að hverju verki með jákvæðu hugarfari.

Þor
Við erum framsækin, beitum nýjustu þekkingu og tækni og höfum metnað til að standa í fararbroddi í verkefnum okkar. Við höfum hugrekki til að segja hlutina eins og þeir eru og drögum ekkert undan.

Ljósmyndari ef annað er ekki tekið fram í ársskýrslu er Svanhildur Egilsdóttir.

Botnsjávarsvið
Ferskvatnssvið
Fiskeldissvið
Uppsjávarsvið
Sjávarútvegsskóli
Þróun, miðlun og mannauður
    Útgáfa og ritaskrá
    Samfélagsmiðlar og málstofa
Fjármál og rekstur
    Skiparekstur

 

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?