Um þörungaeitranir

Sumir svifþörungar í sjó geta myndað eiturefni sem valda skelfiskeitrun og getur neysla á eitruðum skelfiski verið skaðleg mönnum og dýrum. Einnig geta eitraðir svifþörungar valdið fiskadauða, einkum í eldi. Ummælin um að “óhætt sé að neyta kræklings sem tíndur er í mánuðum sem hafa “r” í nafni sínu” eru ekki rétt. Í fjölda tilvika hefur mælst eitrun í skelfiski, jafnvel að vetri til og mánuðum með “r” í nafni sínu.

Kræklingur getur safnað í sig þörungaeitri og verður þá hættulegur til neyslu.

Útbreiðsla eitraðra svifþörungategunda og tíðni skaðlegra blóma af þeirra völdum virðist hafa aukist undanfarna áratugi og hafa loftslagsbreytingar haft neikvæð áhrif þar á. Þegar talað er um skelfiskeitrun hefur skelfiskurinn nærst á eitruðum svifþörungum og eitrið safnast fyrir í skelfiskinum án þess að hafa áhrif á hann en eituráhrifanna gætir aftur á móti hjá mönnum og öðrum dýrum sem neyta eitraðs skelfisks. Því er mikilvægt að hafa varan á ef neyta á skelfisks.

Í samvinnu við Matvælastofnun, vaktar Hafrannsóknastofnun svæði í kringum landið þar sem ræktun eða uppskera skelfisks, aðallega kræklings, fer fram. Niðurstöður vöktunarinnar eru birtar á vef Matvælastofnunar, hér.

Aðallega er um að ræða þrenns konar eitrun sem menn þurfa að vera vakandi yfir í hafinu við Ísland:

PSP eitrun (paralytic shellfish poisoning). Áhrif PSP eitrunar eru í því fólgin að eiturefnið saxitoxín truflar natríumbúskap taugafruma, sem leiðir af sér truflun á taugaboðum. Fyrstu PSP einkenni eru oft doði og titringur við munn, PSP getur valdið lömun, öndunarerfiðleikum og jafnvel dauða. Áhrif eitrunarinnar koma fram stuttu eftir að eitraðs skelfisks er neytt og eru ekki varnaleg.
Það eru skoruþörungar af ættkvíslunum Alexandrium, Pyrodinium og Gymnodinium sem valda PSP eitrun. PSP eitrið hefur eitrið mælst í skelfiski hér við land.

DSP eitrun (diarrhetic shellfish poisoning). Áhrif DSP eitrunar eru ógleði, uppköst, krampar í kviðarholi og niðurgangur af völdum pectenotoxíns og okadaicsýru og verður þeirra vart skömmu eftir að menn hafa neytt eitraðs skelfisks. Áhrif eitrunarinnar eru skammvinn og ekki varanaleg.
Það eru skoruþörungar af ættskvíslum Dinophysis og Prorocentrum sem geta valdið DSP eitrun. DSP eitrið hefur mælst í skelfiski hér við land.

ASP eitrun (amnesic shellfish poisoning). Áhrif ASP einkennast af ógleði, minnisleysi, heilaþoku og ruglingi, og getur eitrunin leitt til dauða. Áhrifin geta komið fram skömmu eftir neyslu en einnig eftir lengri tíma, áhrifin geta verið varanleg. Það eru kísilþörungar af ættkvíslinni Pseudo-nitzschia sem valda ASP eitrun og stafar þessi eitrun af amínósýrunni dómóínsýru sem er taugaeitur. ASP eitrið hefur ekki mælst í skelfiski hér við land, en hefur mælst í frumum og Pseudo-nitzschia tegundir eru algengar við landið.

Ef fólk verður vart við ofantalin einkenni eftir neyslu á skelfiski er því ráðlagt að hafa samband við heilbrigðisþjónustu á svæðinu en ef einkennin eru veruleg að hringja í 112 án tafar.

Viðmiðunarmörk fyrir hættu á eitrun eru mismunandi eftir tegundum. Þegar meta skal hvort hætta er á ferðum og hvort ástæða er til að vara fólk við neyslu skelfisks af tilteknum svæðum er miðað við ákveðinn fjölda eiturþörunga í hverjum lítra af sjó. Viðmiðunarmörk um fjölda fruma í lítra eru Dinophysis spp. 500 frumur, Pseudo-nitzschia spp. 200 þúsund frumur, og Alexandrium. Spp. 200 frumur í lítra.

Tegundir eiturþörunga sem þekktar eru úr strandsjónum við Ísland:

DSP eitrun
Dinophysis norvegica
Dinophysis acuminata
Dinophysis acuta
Dinophysis rotundata

PSP eitrun
Alexandrium tamarense
Alexandrium ostenfeldii

ASP eitrun
Pseudo-nitzschia seriata
Pseudo-nitzschia fraudulenta
Pseudo-nitzschia delicatissima
Pseudo-nitzschia
cf. pseudodelicatissima

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?