Vöktun eiturþörunga

 

Öðuskel með hrúðurkörlum

Sumir svifþröungar í sjó geta myndð eiturefni sem valda skelfiskeitrun og getur neysla á eiturðum skelfiski verið skaðleg mönnum og dýrum. Einnig geta eitraðir svifþörungar valdið fiskadauða, einkum í eldi.

Í samvinnu við Matvælastofnun, skelfiskveiðimenn og kræklingaræktendur vaktar Hafrannsóknastofnun nokkur svæði í krignum landið vegna eitraðra svifþörunga. Niðurstöður vöktunarinnar eru birtar á vef Matvælastofnunar.

Hægt er að hafa samband með því að senda póst á netfangið vakt@hafro.is

Um þörungaeitranir

Útbreiðsla eitraðra svifþörungategunda og tíðni skaðlegra blóma af þeirra völdum virðist hafa aukist undanfarna áratugi. Menn eru ekki á eitt sáttir um hvað veldur. Sumir nefna aukna útbreiðslu eitraðra tegunda af mannavöldum, m.a. vegna aukinna skipaferða og lestunar og losunar kjölfestuvatns. Aðrir telja aukninguna stafa af því að aukið magn næringarefna berist til sjávar vegna mengunar af mannavöldum sem eykur vöxt þörunga. Enn aðrir telja einfaldlega að aukin þekking á þessu sviði og stóraukið eftirlit valdi því að við verðum oftar en áður vör við blóma skaðlegra þörunga. Þegar talað er um skelfiskeitrun hefur skelfiskurinn nærst á eitruðum svifþörungum og eitrið safnast fyrir í skelfiskinum án þess að hafa áhrif á hann en eituráhrifanna gætir aftur á móti hjá mönnum og öðrum spendýrum sem neyta eitraðs skelfisks. Um þessar mundir eru árlega skráð um 2000 tilfelli í heiminum þar sem eitraður skelfiskur veldur veikindum og er talið að um 15% þeirra sem veikjast deyi.

Aðallega er um að ræða þrenns konar eitrun sem menn þurfa að vera vakandi yfir í Norður-Atlantshafi:
PSP eitrun (paralytic shellfish poisoning). Áhrif PSP-eitrunar á spendýr eru í því fólgin að eitrið truflar natríumbúskap taugafruma, sem leiðir af sér truflun á taugaboðum og getur valdið lömun, öndunarerfiðleikum og jafnvel dauða.

Það eru skoruþörungar af ættkvíslunum AlexandriumPyrodinium og Gymnodinium sem valda PSP eitrun og hefur hún greinst úr skelfiski hér við land nokkrum sinnum.

DSP eitrun (diarrhetic shellfish poisoning). Áhrif DSP-eitrunar eru ógleði, uppköst, þrautir í kviðarholi og niðurgangur og verður þeirra vart skömmu eftir að menn hafa neytt eitraðs skelfisks. Bati næst yfirleitt innan þriggja sólarhringa.

Það eru skoruþörungar af ættskvíslum Dinophysis og Prorocentrum sem geta valdið DSP-eitrun. DSP eitrun hefur greinst úr skelfiski við Ísland nokkrum sinnum.

ASP eitrun (amnesic shellfish poisoning). Áhrif ASP-eitrunar koma fram nokkrum dögum eftir að eitraðs skelfisks hefur verið neytt, en þau einkennast af ógleði og niðurgangi, minnisleysi og jafnvel dauða. Það eru staflaga kísilþörungar af ættkvíslinni Pseudo-nitzschia sem valda ASP-eitrun og stafar þessi eitrun m.a. af amínósýrunni “domoic sýru”. ASP-eitrun hefur ekki greinst hér við land svo óyggjandi sé, en tegundir Pseudo-nitzschia eru algengar við landið.

Viðmiðunarmörk

Viðmiðunarmörk fyrir hættu á eitrun eru mismunandi eftir tegundum. Hér er stuðst við norskar og danskar viðmiðunarreglur. Þegar meta skal hvort hætta er á ferðum og hvort ástæða er til að vara fólk við neyslu skelfisks af tilteknum svæðum er miðað við ákveðinn fjölda eiturþörunga í hverjum lítra af sjó. Hér eru birt viðmiðunarmörk um fjölda fruma í lítra nokkurra þekktra eiturtegunda við Ísland.

Dinophysis spp. 500 frumur í lítra
D. norvegica 1000 frumur í lítra
D. acuta 500 frumur í lítra
D. acuminata 500 frumur í lítra
Pseudo-nitzschia pseudodelicatissima 200 þúsund frumur í lítra
P. delicatissima 200 þúsund frumur í lítra
P. seriata 100 þúsund frumur í lítra
Alexandrium spp - 200 frumur í lítra.

Eiturþörungategundir

Tegundir eiturþörunga sem þekktar eru úr strandsjónum við Ísland:

Dinophysis
Dinophysis norvegica , veldur DSP-eitrun.
Dinophysis acuminata , veldur DSP-eitrun.
Dinophysis acuta , veldur DSP-eitrun.
Dinophysis rotundata veldur DSP-eitrun

Alexandrium
Alexandrium tamarense, veldur PSP-eitrun.
Alexandrium ostenfeldii , veldur PSP-eitrun.

Pseudo-nitzschia
Pseudo-nitzschia pseudodelicatissima , veldur ASP-eitrun.
Pseudo-nitzschia seriata , veldur ASP-eitrun.
Pseudo-nitzschia delicatissima, veldur ASP-eitrun.

Rit

Agnes Eydal. (2003). Áhrif næringarefna á tegundasamsetningu og fjölda svifþörunga í Hvalfirði. Hafrannsóknastofnunin, Fjölrit 99. 44 bls.
Agnes Eydal. (2003). Árstíðabreytingar í fjölda og tegundasamsetningu svifþörunga í Mjóafirði. Í: Umhverfisaðstæður, svifþörungar og kræklingur í Mjóafirði (ritstj. Karl Gunnarsson). Hafrannsóknastofnunin, Fjölrit 92. 29–42.
Agnes Eydal, Karl Gunnarsson. (2004). Svifþörungar í Hvalfirði og skelfiskeitrun. Náttúrufræðingurinn 72 (3-4), bls. 97-105.
Elvar Árni Lund, Hafsteinn G. Guðfinnsson, Helga Gunnlaugsdóttir og Sophie Jensen. Aukin þekking á heilnæmi íslenskrar bláskeljar - rannsóknir á sambandi eitraðra svifþörunga í sjó og uppsöfnun eiturs í bláskel. AVS. Verknúmer R-010-16.
Guðrún G. Þórarinsdóttir, Þórunn Þórðardóttir. (1997). Vágestir í plöntusvifinu. Náttúrufræðingurinn 67. 67–76.
Guðrún G. Þórarinsdóttir, Hafsteinn Guðfinnsson og Jón Örn Pálsson. Kræklingarækt og umhverfisaðstæður í Patreksfirði og Steingrímsfirði. Reykjavík 2015. Hafrannsóknir nr. 177, 16 s.
Hafsteinn G. Guðfinnsson, Sólveig R. Ólafsdóttir og Jón Örn Pálsson. (2015)Svifþörungar, næringarefni og sjávarhiti í Steingrímsfirði á Sröndum, 2010-2011. Hafrannsóknir nr. 180, 22 bls.  Phytoplankton, nutrients and temperature in Steingrímsfjördur NV-Iceland 2010-2011.  22 s.
Kristinn Guðmundson, Agnes Eydal. (1998). Svifþörungar sem geta valdið skelfiskeitrun. Hafrannsóknastofnunin, Fjölrit 70. 1–33.
Þórunn Þórðardóttir, Agnes Eydal. (1996). Phytoplankton at the ocean quahoc harvesting areas off the northwest coast of Iceland 1994. Hafrannsóknastofnunin, Fjölrit 51. 22 bls.

Eldri vöktunarupplýsingar um eiturþörunga:

Breiðafjörður
Eyjafjörður
Hvalfjörður
Mjóifjörður
Stakksfjörður
Steingrímsfjörður
Þistilfjörður
Álftafjörður - engar upplýsingar þar sem hætt við eldi.

Ársskýrslur vöktunar eiturþörunga á tímabilinu 2005-2015

Ársskýrsla 2016 Ársskýrsla 2013 Ársskýrsla 2010 Ársskýrsla 2007
Ársskýrsla 2015 Ársskýrsla 2012 Ársskýrsla 2009 Ársskýrsla 2006
Ársskýrsla 2014 Ársskýrsla 2011 Ársskýrsla 2008 Ársskýrsla 2005

Ítarefni

https://en.wikipedia.org/wiki/Algal_bloom

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?