Ferskvatnssvið

mynd með færsluStarfsemi ferskvatnssviðs er fjölbreytt og skiptist m.a. í grunnrannsóknir, vöktun, þjónusturannsóknir, ráðgjöf og umsagnir. Á sviðinu eru 17 starfsmenn, þar af 4 staðsettir í starfsstöðvum á landsbyggðinni. Grunnrannsóknir eru í flestum tilfellum unnar með fjármagni úr sjóðum en slík verkefni eru jafnan tímabundin og unnin samkvæmt rannsóknaáætlunum. Rannsóknaverkefni eru einnig oft unnin í samstarfi við aðrar stofnanir og háskóla, bæði innlenda og erlenda. Rannsóknaverkefnum fylgir oft aðkoma nemenda sem starfsmenn sviðsins leiðbeina.

Vöktun lífríkis og umhverfisþátta er fyrirferðamikill þáttur í starfsemi sviðsins, s.s. mælingar á frumframleiðni vatna og áa, tegundasamsetningu og þéttleika botn- og svifdýra í völdum vatnakerfum. Eitt aðalverkefni Ferskvatnssviðs er vöktun og rannsóknir á fiskstofnum sem taka til lykilþátta s.s. stofnstærðar göngufiska, aflamagns, stærð hrygningarstofna, nýliðunar, vöxt seiða og árgangastyrkleika, mats á fjölda gönguseiða laxfiska og endurheimta þeirra úr sjó. Um er að ræða þrjár tegundir nytjafiska og stofna sem flestir ganga á milli ferskvatns og sjávar. Mikilvægt er að safna upplýsingum um viðgang þeirra í báðum þessum vistum. Mikilvægir liðir í vöktun fiskstofna eru m.a. veiðiskráning, talningar göngufiska með fiskteljurum, veiðar á seiðum með rafmagni og greining aldurs og vaxtar út frá hreistri og kvörnum. Langtímavöktun er mikilvæg til að greina samspil umhverfisþátta og lífvera, og nýtist sem grunnur til að nema og skilja áhrif þeirra breytinga sem verða á umhverfi og veiðistjórnun. Mikilvægi þeirra rannsókna hefur aukist á síðari árum vegna áhrifaloftslagsbreytinga á lífríki norðurslóða og afkomu þeirra sem þar búa.

Þjónusturannsóknir eru unnar fyrir fjölmarga aðila og má þar nefna veiðifélög, veiðiréttarhafa og framkvæmdaaðila t.d. sveitarfélög, virkjanaaðila og vegagerð. Ráðgjöf er gefin til margra aðila sem koma að umsjón eða nýtingu ferskvatns og lífríki þess, en fyrirferðarmest er ráðgjöf til stjórnvalda og stofnana. Í því felast m.a. umsagnir um áhrif framkvæmda og hvort og þá hvernig hægt er að draga úr óæskilegum áhrifum á umhverfi og vistkerfi ferskvatns. Á árinu 2020 hefur verið mikið um áætlaðar framkvæmdir og hefur drjúgur tími farið í að gefa umsagnir um möguleg umhverfisáhrif. Einnig má nefna þátttöku í faghópum í fjórða áfanga Rammaáætlunar vegna forgangsröðunar virkjanakosta, vegna nýtingar vatnsafls og jarðvarma.

Hafrannsóknastofnun hefur lagt til gögn og fagþekkingu við innleiðingu laga um stjórnun vatnamála en markmið þeirra er að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar, bæði ferskvatns og strandsjávar. Innleiðingin er leidd af Umhverfisstofnun og unnin í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir.

Ferskvatnssviðið hefur tekið þátt í vinnu með erlendum stofnunum, þ.m.t. vinnunefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um lax í Norður Atlantshafi, rannsóknir á lífríki í ferskvatni á norðurslóðum sem stýrt er af CAFF og IASC sem eru undir stjórn Norðurskautsráðsins.

Dæmi um verkefni á ferskvatnssviði árið 2020

Lífríki tjarna við Straumsvík

Sumarið 2020 var gerð rannsókn á lífríki fjögurra tjarna við Straumsvík. Var rannsóknin gerð að beiðni Vegagerðarinnar til að meta áhrif breikkunar Reykjanesbrautar á lífríki. Tjarnirnar eru einstakar þar sem þær eru flestar ferskvatnstjarnir undir miklum áhrifum af sjávarföllum, sem veldur því að vatnsborð þeirra sveiflast innan sólarhrings samhliða breytingum í sjávarhæð. Rannsóknin beindist að botnþörungum, hryggleysingjum í svifi og á botni tjarnanna, fiskum og eðlisefnafræðilegum þáttum. Umhverfi tjarnanna er viðkvæmt fyrir raski, sem helgast fyrst og fremst af því hve lekur berggrunnurinn á svæðinu er.

mynd með færslu

Yfirlitsmynd yfir Gerðistjörn og Brunntjörnina, sunnan við Reykjanesbraut (Ljósm. Ingi Rúnar Jónsson).

mynd af fjölda hryggleysingja í tjörnum

Fjöldi hryggleysingja í fjöru fjögurra tjarna við Straumsvík, 3. og 6. júlí 2020. Miðgildi er sýnt með svartri línu og meðaltal með rauðri láréttri línu í hverjum kassa. Lóðrétt lína sýnir neðri (5%) og efri (95%) mörk mælinga. Kassarnir sýna efri 75% og neðri 25% mörk mælinga.

Skýrsla með niðurstöðum rannsóknar.

Samanburður á þróun stofnstærðar laxfiska á Íslandi og í Norður-Noregi

Að undanförnu hefur verið unnið að því að bera saman þróun í stofnstærð laxfiskategundanna sjóbleikju, sjóbirtings og laxa í Norður-Noregi og á Íslandi. Á Íslandi og í Norður-Noregi hefur bleikjustofnum hnignað á undanförnum árum og veiði minnkað umtalsvert. Á sama tíma hafa stofnar sjóbirtings verið að stækka en sambærilegar breytingar er ekki að sjá í laxastofnum á þessum svæðum á sama tíma, þótt sveiflur séu á milli tímabila. Á þessum tíma hefur hlýnað, einkum að hausti, vetri og vori. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fækkun sjóbleikju og fjölgun sjóbirtings megi rekja til hlýnunar en að ennþá sé óvíst hvernig breytingar í hitastigi komi fram og á hvaða æviskeiði tegundanna áhrifin séu mest. Mikilvægt er að efla rannsóknir á þessu sviði til að skilja ástæður þeirra breytinga sem fram hafa komið og finna út hvar í lífsferlinum áhrifin helst koma fram og hvaða áhrif breytingarnar geta haft, með tilliti til veiðistjórnunar og sjálfbærrar nýtingar. Greinin í heild.

mynd af bleikjum og urriða 

Bleikjur og urriði úr Mývatni (Ljósm. Guðni Guðbergsson)

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?