Botnsjávarsvið

Viðfangsefni Botnsjávarsviðs er hafsbotninn og lífverur sem lifa í og við botn sjávar. Rannsóknir beinast að breytingum í stofnstærð, viðgangi, atferli og samspili mismunandi þátta vistkerfisins sem og mati á áhrifum athafna manna á það. Grunnrannsóknir líkt og kortlagning hafsbotnsins og búsvæða hans, botnþörungar, rannsóknir á fæðu og frjósemi fiska og hryggleysingja sem og rannsóknir á samfélagsgerðum og fari fiska eru dæmi um verkefni sem unnið er að á Botnsjávarsviði.

Vöktun nytjastofna er stór hluti af vinnunni á sviðinu en undir sviðið falla margir af helstu nytjastofnum Íslendinga svo sem þorskur, ýsa, karfi og rækja. Stofnmælingaleiðangrar á botnfiskum og hryggleysingjum eru farnir árlega en í þeim er ýmist tekin sýni með botnvörpu eða netum á staðlaðan hátt. Á undanförnum árum hefur jafnframt aukist notkun myndavélatækni til stofnmælinga og í dag er stofnmæling humars og hörpudisks framkvæmd með neðansjávarmyndavélum. Helsta markmið stofnmælingaleiðangra er að fylgjast með breytingum á stærð nytjastofna sem nýtist svo í ráðgjöf til stjórnvalda. Jafnframt er safnað gögnum um marga aðra þætti, eins og fæðu fiska, ástand þeirra og á síðari árum hafa botndýr verið skráð og þannig fengist mikilvægar upplýsingar um útbreiðslu slíkra dýra. Nýlega var hafin skráning á plasti í stofnmælingaleiðöngrum og þannig hafa fengist einu vísindalegu upplýsingarnar um dreifingu plasts á hafsbotni við Ísland.

Sýnataka úr afla og aldurslesningar á kvörnum fiska er mikilvæg stoð fyrir stofnmat og ráðgjöf. Sýntaka úr afla fer fram hjá fjórum starfsstöðvum auk Hafnarfjarðar og er safnað upplýsingum um flesta botnlæga nytjastofna í samvinnu við sjómenn, útgerðir og fiskmarkaði. Aldursgreiningar eru grundvöllur stofnmats en á hverju ári eru aldursgreindar tæplega 50 þúsund kvarnir botnfiska sem safnað er úr afla fiskiskipa og í stofnmælingum stofnunarinnar.

Stofnmat og ráðgjöf til stjórnvalda fyrir botnlæga nytjastofna og sjávarhryggleysingja er áberandi þáttur á sviðinu. Árlega er veitt ráðgjöf um 35 nytjastofna botnfiska og hryggleysingja. Um mikilvægustu stofnana svo sem þorsk, ýsu og karfa, er jafnframt fjallað um innan Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) og sækja starfsmenn sviðsins fundi á vegum ráðgjafarnefndar ráðsins (ACOM) þar sem inntaksgögn stofnmats og aðferðir eru rýndar. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld óskað eftir tillögum að aflareglum fyrir hina ýmsu nytjastofna en jafnframt á endurskoðun á gildandi aflareglum sér stað reglulega og er umtalsverð vinna unnin á hverju ári við það.

Unnið er að þróun tölfræðilegra líkana og aðferða þar sem reynt er að lýsa vistkerfinu, t.d. samspili mismunandi stofna, en slík líkön geta varpað ljósi á ýmsa þætti sem nýtast við stofnmat og ráðgjöf.

Á undanförnum árum hefur orðið vakning um önnur áhrif mannsins á vistkerfi sjávar og kemur það fram í rannsóknum á botnsjávarsviði m.a. í mælingum og mati á brottkasti og meðafla sem og rannsóknum á áhrifum veiðarfæra á botn og botndýrasamfélög. Starfsmenn sviðsins vinna í nánu samstarfi við starfsmenn annarra stofnana líkt og Fiskistofu að slíkum verkefnum. Alþjóðlegt samstarf er einnig mikið í þessum málaflokki og er helsti samstarfsvettvangurinn ICES, NAMMCO og IWC.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?