Ferskvatnssvið

mynd frá vitjun neta

Starfsemi ferskvatnssviðs snýr að þáttum sem lúta að umhverfi og lífríki í ferskvatni á Íslandi, þar með talið undirstöðum þess, samspili umhverfisþátta, búsvæðum og nýtingu. Starfsemin fer fram á þremur starfstöðvum, þ.e. í Reykjavík, á Hvanneyri og á Selfossi, en starfsvettvangur er landið allt. Á sviðinu starfa 14-15 manns en náin samvinna hefur verið við önnur svið innan Hafrannsóknastofnunar, einkum umhverfissvið og gagnasvið.

Starfseminni má skipta í grunnrannsóknir, vöktun, þjónusturannsóknir, ráðgjöf og ýmis konar umsagnir.

Grunnrannsóknir lúta að einstökum rannsóknaverkefnum sem í flestum tilfellum eru unnin fyrir fjármögnun úr sjóðum. Slík verkefni eru jafnan tímabundin og unnin samkvæmt þeim áætlunum sem settar eru fram í umsóknum. Rannsóknaverkefni hafa verið unnin í samstarfi við aðrar stofnanir og háskóla, bæði innlenda og erlenda. Mörgum rannsóknaverkefnum fylgir aðkoma nemenda sem starfsmenn sviðsins leiðbeina.

Vöktun er fyrirferðamikill þáttur í starfsemi sviðsins, en þar er um að ræða endurteknar kerfisbundnar mælingar margra þátta. Má þar nefna mælingar á frumframleiðni vatna og áa, tegundasamsetningu og þéttleika botn- og svifdýra í völdum vatnakerfum ásamt umhverfisbreytum s.s. vatnshita og annarra ólífrænna þátta. Einna fyrirferðarmest er vöktun og rannsóknir á fiskstofnum. Nýting fiskstofna í ferskvatni á að vera sjálfbær lögum samkvæmt. Vöktun fiskstofna nær til lykilþátta s.s. stofnstærð göngufiska, aflamagns, stærð hrygningarstofna, nýliðunar og vöxt seiðaárganga, mat á fjölda gönguseiða laxfiska og endurheimtum þeirra úr sjó. Þar sem um þrjár tegundir nytjafiska og marga stofna er að ræða sem sumir ganga á milli ferskvatns og sjávar þarf að hafa upplýsingar um vöxt þeirra og viðgang í báðum þessum vistum. Margskonar aðferðum er beitt s.s. skráningu á tegundasamsetningu fiska í veiði, talningum göngufiska með fiskteljurum, veiðum á seiðum með rafmagni og greiningu aldurs og vaxtar út frá hreistri og kvörnum. Langtímavöktun er mikilvæg til að greina samspil umhverfisþátta og lífvera, sem nýtist sem grunnur til að nema og skilja breytingar. Á það jafnt við um frumframleiðslu, smádýr og fiska. Langtímavöktun nýtist einnig til að nema þær breytingar sem snúa að eðli og áhrifum loftslagsbreytinga og áhrifum þeirra á lífríki norðurslóða.

Þjónusturannsóknir eru unnar fyrir fjölmarga aðila og má þar nefna veiðifélög, veiðiréttarhafa og framkvæmdaaðila t.d. sveitarfélög, virkjanaaðila og vegagerð.  

Ráðgjöf er gefin til margra aðila sem koma að umsjón eða nýtingu ferskvatns og lífríki þess, en fyrirferðarmest er ráðgjöf til stjórnvalda og stofnana. Í því felst m.a. umsagnir um áhrif framkvæmda og hvort og þá hvernig hægt er að draga úr óæskilegum áhrifum á vistkerfi ferskvatns. Einnig má nefna þátttöku í faghópum í Rammaáætlun vegna forgangsröðunar á nýtingu vatnafls og jarðvarma og vegna innleiðingar laga um stjórn vatnamála.

Ferskvatnssvið hefur tekið þátt í vinnu með erlendum stofnunum, þ.m.t. vinnunefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um lax í Norður Atlantshafi, rannsóknir á lífríki í ferskvatni á norðurslóðum sem stýrt er af CAFF og IASC sem eru undir stjórn Norðurskautsráðsins.

Helstu verkefni

Eitt stærsta verkefnið sem unnið var 2019 var að koma upp búnaði til vöktunar og talningar á göngufiskum í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi, en framkvæmdum lauk í júní. Byggt var fyrirstöðuþrep neðarlega í ánni og komið það fyrir fiskteljara með myndavél (Vaka-teljari) til talninga, en framkvæmdin er hluti af vöktun náttúrulegra veiðivatna í tengslum við uppbyggingu sjókvíaeldis.

Þrepið er um 40 m langt og hannað af Vífli Oddssyni verkfræðingi í samráði við Hafrannsóknastofnun. Teljarinn telur og tekur mynd af hverjum fiski sem fer um hann, en þannig er hægt að tegundagreina og stærðarmæla einstaka fiska sem ganga í ána. Hægt er að greina ytri eldiseinkenni, s.s. eydda ugga, ef laxar sem sloppið hafa úr sjókvíaeldi ganga um teljarann og unnið er að því að unnt verði að meta fjölda laxalúsa á fiskinum.  Gögn úr teljaranum og veiðitölur gefa síðan möguleika á að meta heildarstofnstærð laxa í ánni. Fyrirhugað er að teljarinn verði í virkni á þeim tíma sem von er á göngum laxfiska úr sjó eins langt fram eftir hausti og von er á fiski og unnt er vegna aðstæðna. Framkvæmdirnar voru kostaðar af Umhverfissjóði sjókvíaeldis og unnar af Vestfirskum Verktökum.

Á árinu var gerður samningur við félagið Fálkaþing ehf. um auknar rannsóknir á laxastofnum í ám á NA-landi, en félagið er stór landeigandi á svæðinu . Samkvæmt samningnum kemur félagið til með að styrkja tvo nemendur til doktorsnáms til fjögurra ára, annan við Háskóla Íslands og hinn við Imperial College í Lundúnum. Sá nemandi sem verður hér á landi verður með aðstöðu hjá Hafrannsóknastofnum, sem veita mun aðgang að fyrirliggjandi gögnum, auk þess sem sérfræðingar stofnunarinnar munu leiðbeina í náminu. Um víðtækar rannsóknir er að ræða sem mótaðar verða frekar á komandi mánuðum, en einn liður þeirra verður að fylgjast með fari fiska og búsvæðanýtingu í Vesturdalsá í Vopnafirði. Það verður m.a. gert með því að fylgjast með fari seiða sem merkt voru í ánni s.l. haust með rafeindamerkjum (PIT-merki). Framleiðandi tækja er Biomark í Bandaríkjunum og haustið 2019 komu hingað til lands aðilar frá þeim til uppsetningar á búnaði. Þá var komið fyrir skynjurum á þremur stöðum í Vesturdalsá, en þeim var komið fyrir í botninum og verða starfræktir allt árið. Við skynjarana tengist nettengdur stjórnbúnaður á bakkanum og þannig er hægt að fylgjast með fari merktra seiða og virkni búnaðarins í rauntíma. Laxaseiði á leið til sjávar vorið 2019 voru einnig merkt með rafeindamerkjum og munu merktir laxar endurheimtast úr sjó sumarið 2020 og 2021.

mynd frá lagningu búnaðar í Vesturdalsá

Unnið við uppsetningu loftneta í botn í Vesturdalsá í Vopnafirði, við Torfastaði haustið 2019.

Laxgengd í ár, einkum á suðvestan verðu landinu, var með allra minnsta móti sumarið 2019. Auk þess var fordæmalaust lágrennsli í ám á því svæði sem gerði aðstæður til veiða erfiðar. Ástæður þessarar litlu laxgengdar má að hluta til rekja til lágs vatnshita vorið 2018 þegar seiði voru að ganga til sjávar, fáliðaðra gönguseiðaárganga og svo aðstæðum til veiða. Nú er verið að greina frekar þau gögn sem fyrir liggja úr seiðamælingum, hreistursýnum, fiskteljurum og veiðiskráningum.

stoplarit yfir stangveidda laxa
Fjöldi stangveiddra laxa á Íslandi skipt eftir uppruna og veiðiaðferð. Tölur frá 2019 eru bráðabirgðatölur.

Árið 2020 stendur yfir skráning á þeim hnúðlöxum sem veiddust í ám á Íslandi sumarið 2019, en vitað er að hnúðlaxar veiddust þá í a.m.k. 60 ám. Í mörgum þeirra veiddust margir hnúðlaxar m.a. hrygnur sem lokið höfðu hrygningu. Hnúðlax (Oncorhynchus gorbuscha), stundum nefndur bleiklax, er kyrrahafstegund sem Rússar fluttu þaðan til sleppinga í ár við Hvítahaf  á 6. áratug síðustu aldar. Þaðan hefur hann m.a. borist í ár á Kólaskaga og einnig til Noregs og hefur sum ár veiðst allnokkuð af honum í ám þar, en minna önnur ár. Göngurnar hafa farið vaxandi síðustu ár. Lífsferill hnúðlax er aðeins tvö ár og því er sitt hvor „stofninn“ sem kemur til hrygningar á oddatöluári og ártölum sem eru á sléttri tölu. Göngur kynþroska hnúðlaxa í Noregi og á Íslandi hafa verið sterkari á oddatöluárum, líkt og í Kyrrahafi, sem sést t.d. í því að margir hnúðlaxar veiddust hér sumarið 2019. Líklegt er að áfram verði aukning á hnúðlaxagengd í ár hér á landi, einkum á oddatöluárum og telja verður líklegt að þeir komi til með að mynda stofna hér á landi. Hvaða áhrif þeir koma til með að hafa á lífríki þ.m.t. aðra stofna og veiði á eftir að koma í ljós.

 mynd af hnúðlöxum

Hnúðlaxar veiddir í Eyjafjarðará 24. ágúst 2019. Á efri mynd er hængur en hrygna á neðri mynd. (Veiðimaður og myndataka: Snævarr Örn Georgsson).
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?