Stofngerð og stofnstærð hnísu

Hnísan er minnst hvala við Ísland og lætur lítið yfir sér og er því erfitt að greina af skipi eða úr flugvél nema við bestu skilyrði. Í flugtalningum 2007 var flogið lægra og fenginn þjálfaður erlendur sérfræðingur í hnísum í talningum. Fékkst þá mat upp á rúm 40 þúsund dýr með mikilli óvissu og mögulega verulegu vanmati þó nokkur leiðrétting hafi verið gerð fyrir dýrum sem talningamenn gætu hafa misst af.

Stofnmat er til grundvallar í þeirri umræðu sem á sér stað um áhrif meðafla á stofninn. Á meðan meðafli fór á fiskmarkaði safnaði Hafrannsóknastofnun sýnum þaðan og síðan 2012 hefur erfðasýnum verið safnað í netaralli stofnunarinnar. Búið er að greina erfðafræðilegan mismun á hnísum við Ísland og á öðrum svæðum úr þessum sýnum, en einnig er hægt að fá stofnstærðarmat út frá skyldleika dýranna. Því stærri sem stofninn er þeim mun minni líkur eru á skyldleika. Fundist hafa nokkur líkleg pör af foreldri og afkvæmi út frá þeim 13 hvatbera erfðamörkum sem unnir hafa verið en til að gagn verði af þarf fleiri sýni og meiri úrvinnslu.

Á síðust vertíð var haft samband við alla grásleppuveiðimenn sem skráð höfðu hnísur í meðafla og þeir beðnir að safna vefjasýnum, en þeir nota stærri möskva en gert er í þorsveiðum í net, og því talið að það gæfi meiri líkur á stærri og eldri dýrum. Eldri dýr sem átt hafa mörg afkvæmi auka líkur á að finna líkleg pör af foreldri og afkvæmi, þá sérstaklega þegar sýni er safnað úr móður og fóstri, en þá er með meira öryggi hægt að greina föðurinn. Alls bárust 150 sýni frá 17 veiðimönnum.

Nákvæmari talningar væru mjög dýrar og einnig væri nánast útilokað fyrir stofnunina að standa sjálf í viðamikilli sýnasöfnun, því er þessi áframhaldandi samvinna við sjómenn lykilatriði í að ná stofnmati á hnísu.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?