Strandir

Strandir - kort

Hnit - 66°20´N 22°10´W til - 
65°29´N 22°11´W

Strandir liggja að vestanverðum Húnaflóa og ná frá Geirólfsgnúpi að norðan að Hrútafjarðará og Holtavörðuheiði að sunnan. Strönd svæðisins er vogskorin með fjölda af fjörðum og víkum. Flestir eru firðirnir stuttir, einkum þó norðan til. Stærstir eru Steingrímsfjörður og Reykjarfjörður. Fram milli fjarða ganga brött fjöll og múlar. Undirlendi er mest upp frá Steingrímsfirði.

Fyrir utan Strandir er misdýpi mikið og fjöldi af skerjum og boðum utarlega og innarlega og eru þeir kallaðir einu nafni Strandabrekar. Stærsta eyjan er Grímsey í mynni Steingrímsfjarðar. Í illviðrum brýtur oft á blindskerjum langt undan landi, en djúpir og krókóttir álar ganga inn á milli skerjaklasanna. Sigling nærri landi er hér hættuleg fyrir aðra en þá sem nákunnugir eru.

Rekar eru víða miklir á Ströndum sem og æðarvarp og selur og töldust áður til mikilla hlunninda. Selveiði var víða stunduð á árum áður á Ströndum sem og nýting á reka en nú er það helst dúntekja æðarfuglsins sem er nýtt.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?