Fiskeldissvið

Áskorun Fiskeldissviðs er að efla fiskeldi og fiskirækt í sátt við samfélag og náttúru. Af því fiskeldi sem stundað er hérlendis er laxeldi lang viðamest. Það er mest stundað í sjókvíum á Vest- og Austfjörðum en nú stefnir í að lax verði einnig alinn á landi á Reykjanesi. Þar er fyrir bleikjueldi og eldi á flúru og sæeyrum. Við þetta bætist ræktun villtra laxastofna í laxveiðiám sem framkvæmd er með sleppingum sjógönguseiða. Fiskeldi og fiskirækt hefur alla burði til að verða öflug atvinnugrein á strjálbýlum svæðum eins og Vest- og Austfjörðum og einnig þar sem byggð er þéttari svo sem á Reykjanesi. Greinin styður einnig við aðrar atvinnugreinar svo sem ferðaþjónustu.

Í alþjóðlegu samhengi hafa íslenskar sjávarafurðir traustan gæðastimpil og íslenskt fiskeldi stefnir að því að öðlast sama sess. Til að svo megi verða þarf ímynd íslensks fiskeldis að vera hafin yfir öll tvímæli. Markmið Hafrannsóknastofnunar er að efla fiskeldi á Íslandi og því mun kröftum verða beint að eftirfarandi:

  • Að stunda og efla rannsóknir með það að markmiði að fiskeldi og fiskirækt á Íslandi verði áhættuminni, fjárfestingar aukist og atvinnuvegurinn eflist.
  • Að miðla þekkingu og reynslu til íslensks fiskeldis.
  • Að auka fé til rannsókna með sókn í innlenda sem alþjóðlega rannsóknasjóði.
  • Að búa til nýja kynslóð vísindamanna sem leiða mun rannsóknir framtíðarinnar á sviði fiskeldis.

Fiskeldissviðið hefur yfir að ráða fullkominni rannsóknastöð að Stað við Grindavík sem starfrækt hefur verið í 30 ár. Stöðin er með um 50 eldisker af mismunandi stærðum og heildarrúmtak þeirra er um 500 rúmmetrar. Starfsfólk sviðsins er með langa reynslu í eldi sjávar- og laxfiska og þá sérstaklega á lirfu- og smáseiðaeldi ýmissa tegunda. Mikil reynsla er af rekstri áframeldisrannsókna og mælingum á fóðurnýtingu, vaxtarhraða, vatnsgæðum ásamt nýtingu vatns og varma. Á árinu 2019 tók Hafrannsóknastofnun aftur við Tilraunaeldisstöðinni í Kollafirði en stöðin hefur verið í útleigu til Stofnfisks síðastliðin 28 ár. Stöðin er fullkomin seiðastöð fyrir lax og bleikju og hefur yfir að ráða 70 sekúndulítrum af fersku vatni og einnig jarðhita. Stöðin gefur mikla möguleika í tilraunum og rannsóknum á bleikju og laxi.

Helstu verkefni ársins 2020

Áhættumat erfðablöndunar var endurskoðað á árinu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti tillögu Hafrannsóknastofnunar að nýju áhættumati vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi. Áhættumat erfðablöndunar er, samkvæmt lögum um fiskeldi, unnið út frá mati á fjölda frjórra eldislaxa sem strjúka úr eldi í sjó og vænta má að gangi upp í ár þar sem villta laxastofna er að finna. Ráðgjöf um eldismagn byggir á mati á áhrifum mögulegrar erfðablöndunar á hæfni og viðgangi villtra laxastofna.

Eldi á ófrjóum laxi. Hafrannsóknastofnun leiðir samstarfsverkefni innlendra og erlendra stofnana og fyrirtækja varðandi þróun á eldi með ófrjóum laxi. Í verkefninu er laxinn gerður ófrjór, annars vegar með svokallaðri þrílitnun og hins vegar með svokallaðri genaþöggun og hefur mikill kraftur verið settur í síðarnefndu aðferðina. Rannsóknir á þrílitna eldislaxi í samvinnu við Benchmark Genetics, Hólaskóla, Stjörnu-Odda og Fiskeldi Austfjarða hafa staðið yfir síðan 2018 og hafa gengið afar vel.

Kynningarmyndband á genaþöggun.

Rannsóknir og þróun á bleikjueldi. Í Tilraunaeldisstöðinni að Stað við Grindavík, er meðal annars unnið að rannsóknum á áhrifum mismunandi aðferða við frumfóðrun, lifun og langtímavöxt bleikju upp í sláturstærð. Einnig er unnið að rannsóknum á áhrifum umhverfisþátta, eins og hitastigs á mismunandi vaxtarskeiðum, á vöxt og kynþroska, svo og tengingu við svokallaðar utangenaerfðir. 

Auk þess voru stundaðar rannsóknir á sjúkdómsþoli með hjálp sameindaerfðafræðilegra aðferða. Megináhersla verkefnisins er þróun og prófun sameindalíffræðilegra aðferða til notkunar við val fyrir auknu sjúkdómsþoli í bleikjueldi. Markmiðið er að geta valið fisk til undaneldis sem hefur meira þol gegn sjúkdómum, án stórra sýkingartilrauna. 

Rannsóknir og framleiðsla á hrognkelsum. Í Tilraunaeldisstöðinni að Stað hefur verið unnið að þróun eldis á hrognkelsum allt frá árinu 2014. Verkefnið er unnið í góðu samstarfi við Benchmark Genetics Iceland sem starfrækir stóra hrognkelsaeldisstöð í Höfnum á Reykjanesi. Hrognkelsi eru notuð til að éta lýs af eldislöxum í sjókvíum og eru talin með betri aðferðum við að halda laxalús niðri. Árið 2020 voru um 350 þúsund hrognkelsi framleidd hjá Hafrannsóknastofnun og seld áfram til notenda í Færeyjum og á Vestfjörðum. Fram að þessu hafa hrogn og svil til framleiðslunnar verið tekin úr villtum fiskum en á þessu ári hóf Tilraunaeldisstöðin hins vegar eldi á hrognkelsum sem ætlunin er að verði framtíðarklakstofn. Kynningarmyndband um rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á hrognkelsum.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?