Skötufjörður

kort

Hnit - 65°58'N 22°53W
Flatarmál - 12 km2
Meðaldýpi - Ekki þekkt
Mesta dýpi - >100 m

Skötufjörður er langur mjór fjörður. Mynni hans milli Tjaldtanga og Ögurnes er um 4,8 km á breidd en rúmir 4 km frá Tjaldtanga í Skarðshlíð. Breidd fjarðar við Hvítanes í Skarðseyri þar sem hinn eiginlegi Skötufjörður byrjar er tæpir 2 km en lengd fjarðarins þaðan inn í fjarðarbotn er rúmir 13 km og flatarmál hans um 12 km2. Frá Hvítanesi inn að Kálfavík er fjörðurinn um það bil jafnbreiður en mjókkar svolítið þar fyrir innan. Fjarlægð frá Hvítanesi út að Vigur er um 4,3 km.

Djúpur áll gengur langt inn eftir Skötufirði með 60 til 100 m dýpi. Utan og innan við miðjan fjörð eru enn dýpri pollar þar sem dýpi er meira en 100 metrar. Með landinu báðum megin eru mjó grunn þar sem dýpi er minna en 20 m.

Undirlendi er nauðalítið í Skötufirði nema fyrir botni hans. Margar smáar ár renna í Skötufjörð en stærsta áin er Kleifará sem fær vatn frá mörgum ám og rennur til sjávar í botni fjarðarins í gegnum Kleifarós.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?