Botnsjávarsvið

mynd af sjónum

Viðfangsefni botnsjávarsviðs er hafsbotninn og lífverur sem lifa í og við botn sjávar. Rannsóknir beinast að breytingum í stofnstærð, viðgangi, atferli og samspili mismunandi þátta vistkerfisins sem og mati á áhrifum athafna manna á það. Grunnrannsóknir líkt og kortlagning hafsbotnsins og búsvæða hans, botnþörungar, rannsóknir á fæðu og frjósemi fiska og hryggleysingja sem og rannsóknir á samfélagsgerðum og fari fiska eru dæmi um verkefni sem unnið er að á botnsjávarsviði. 

Vöktun nytjastofna er stór hluti af vinnunni á sviðinu en undir sviðið falla margir af helstu nytjastofnum Íslendinga eins og þorskur, ýsa, karfi og rækja. Stofnmælingaleiðangrar á botnfiskum og hryggleysingjum eru farnir árlega en í þeim er ýmist tekin sýni með botnvörpu eða netum á staðlaðan hátt. Á undanförnum árum hefur jafnframt aukist notkun myndavélatækni til stofnmælinga og í dag er stofnmæling humars og hörpudisks framkvæmd með neðansjávarmyndavélum. Helsta markmið stofnmælingaleiðangra er að fylgjast með breytingum á stærð nytjastofna sem nýtist svo í ráðgjöf til stjórnvalda. Jafnframt er safnað gögnum um marga aðra þætti, eins og fæðu fiska, ástand þeirra og á síðari árum hafa botndýr verið skráð og þannig fengist mikilvægar upplýsingar um útbreiðslu slíkra dýra.  Nýlega var hafin skráning á plasti í stofnmælingarleiðöngrum og þannig hafa fengist einu vísindalegu upplýsingarnar um dreifingu plasts á hafsbotni við Ísland. 

Sýnataka úr afla og aldurslesningar kvarna fiska er mikilvæg stoð fyrir stofnmat og ráðgjöf. Sýntaka úr afla fer fram frá fjórum starfstöðvum auk Reykjavíkur og er safnað upplýsingum um flesta botnlæga nytjastofna í samvinnu við sjómenn, útgerðir og fiskmarkaði. Aldursgreiningar eru grundvöllur stofnmats en á hverju ári eru tæplega 50 þúsund kvarnir botnfiska aldursgreindar sem safnað er úr afla fiskiskipa og í stofnmælingum stofnunarinnar. 

Stofnmat og ráðgjöf til stjórnvalda fyrir botnlæga nytjastofna og sjávarhryggleysingja er áberandi þáttur á sviðinu. Árlega er veitt ráðgjöf um 35 nytjastofna botnfiska og hryggleysingja. Um mikilvægustu stofnana eins og þorsk, ýsu og karfa er jafnframt fjallað um innan Alþjóða hafrannsóknaráðsins (ICES) og sækja starfsmenn sviðsins fundi á vegum ráðgjafarnefndar ráðsins (ACOM) þar sem inntaksgögn stofnmats og aðferðir eru rýndar. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld óskað eftir tillögum að aflareglum fyrir hina ýmsu nytjastofna og voru til að mynda þróaðar aflareglur fyrir löngu og keilu nýverið og í farvatninu eru aflareglur fyrir skarkola og grálúðu.  Endurskoðun gildandi aflareglna á sér stað reglulega og er umtalsverð vinna unnin á hverju ári við það.

Unnið er að þróun tölfræðilegra líkana og aðferða þar sem reynt er að lýsa vistkerfinu, t.d. samspili mismunandi stofna, en slík líkön geta varpað ljósi á ýmsa þætti sem nýtast við stofnmat og ráðgjöf. 

Á undanförnum árum hefur orðið vakning um önnur áhrif mannsins á vistkerfi sjávar og sér þess stað í rannsóknum á botnsjávarsviði m.a. í mælingum og mati á brottkasti og meðafla sem og rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á botn og botndýrasamfélög. Starfsmenn sviðsins vinna í nánu samstarfi við starfsmenn annara stofnana líkt og Fiskistofu að slíkum verkefnum og sinna m.a. veiðieftirliti og skyndilokunum. Alþjóðlegt samstarf er einnig mikið í þessum málaflokki og er helsti samstarfsvettvangurinn ICES, NAMMCO og IWC. 

Kortlagning búsvæða

Ýmislegt áhugavert kom fram á neðansjávarmyndum þegar leiðangursfólk á rs. Bjarna Sæmundssyni kannaði lífríki hafsbotnsins í lok júní og byrjun júlí 2019. Leiðangurinn var liður í gagnasöfnun fyrir langtímaverkefnið Kortlagning búsvæða þar sem ólík búsvæði á hafsbotninum við landið eru skilgreind og fjölbreytileiki þeirra er skoðaður. Alls voru mynduð 70 snið eftir botninum og var hvert snið um 600 m að lengd. Myndað var á 100-700 m dýpi. Úrvinnsla myndefnis fer fram í landi og eru öll dýr greind og talin, einnig er botngerð, rusl og slitin veiðarfæri skráð.

Með því að ljósmynda hafsbotninn eins og gert hefur verið undanfarin ár við Kortlagningu búsvæða sést að lífríkið á hafsbotninum er fjölbreytt og hvert svæði hefur sín einkenni og sérstöku lífverur. Með því að skoða á skipulagðan hátt lífríkið á botninum komumst við nær því að þekkja náttúrulegan fjölbreytileika á sjávarbotninum við landið, en einnig sjáum við áhrif mannsins á lífríkið og umhverfið. Valin eru svæði með ólíka botngerð og á mismundandi dýpi. Sérstök áhersla er á að leita uppi viðkvæm og fágæt búsvæði eins og kóralrif, kóralgarða og svampabreiður. Lífverur botnsins eru mjög tengdar umhverfinu eins og setgerð, hita og straumum og búsvæði eru skilgreind út frá þessum þáttum. Búsvæði eru misstór og misfjölbreytt. Það er mikilvægt að kortleggja þessi svæði til að hafa grunnupplýsingar um það sem er að finna í kringum okkur ekki síst vegna nýtingar hafsbotnsins við fiskveiðar og aðrar athafnir mannsins.

svampar og sæliljur

Svampur og sæliljur nýta sér harða flekki á botninum í Jökuldjúpi.

Það var ánægjulegt að sjá að á nokkrum stöðum á landgrunnskantinum úti fyrir Öræfagrunni, Mýragrunni og Síðugrunni voru lifandi kóralrif og á öðrum stöðum voru akrar af sæfjöðrum. Þessi svæði eru utan við veiðislóð enda í bröttum kantinum.  

Á Kötlugrunni fannst dýr sem ekki hefur sést áður og ekki er vitað hvaða tegund það tilheyrir. Liturinn er ljósfjólublár og dýrið er með tvær raðir af öngum og ferkantaðan fót. Það eru þekktar yfir 3000 tegundir af botndýrum í kringum Ísland en aðeins hluti þeirra hefur verið myndaður hingað til. Hvort þetta dýr tilheyrir einhverri af þessum þekktu tegundum eða hvort um nýja tegund sé að ræða við Ísland er ekki vitað.

furðudýr
Furðudýr á Kötlugrunni. Dýrið er um 10 sm í þvermál.

Kortlagning hafbotnsins

Leiðangursmenn á rs. Árna Friðrikssyni kortlögðu í júní 2019 alls um 47.000 ferkílómetra hafsbotns í Íslandsdjúpi suður af landinu, stærsta svæði sem nokkru sinni hefur verið kortlagt með fjölgeislamælingum í einum leiðangri í íslenskri efnahagslögsögu.

Þar með hefur nær þriðjungur hafsbotns innan marka lögsögunnar verið kortlagður. Í leiðangrinum var farið yfir sæfjöll og eldstöðvar. Flak þýska „gullskipsins“ SS Minden birtist einnig í rannsóknagögnum.

Leiðangurinn 2019 var hluti af átaksverkefni Hafrannsóknastofnunar um kortlagningu hafsbotns í efnahagslögsögu Íslands. Markmiðið er að afla þekkingar sem nýtast mun á ýmsan hátt og er forsenda frekari vísindarannsókna við nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á hafsbotni og undir hafsbotni. Þegar átakið hófst árið 2017 höfðu um 12,3% hafsbotns verið kortlögð og stefnt að því að ljúka við að kortleggja neðan við 100 metra dýpi á 13 árum.

Nú þremur árum síðar hafa um 29% efnahagslögsögunnar verið kortlögð eða liðlega 216.000 ferkílómetrar af alls 754.000 ferkílómetra efnahagslögsögu landsins. Árangurinn er góður en ljóst að lengja þarf árlegan mælingatíma verulega ef ná á upphaflegum markmiðum verkefnisins.

fjölgeislamynd

Fjölgeislamæling A7-2019 í Íslandsdjúpi, alls 46.690 km2. Dýptarbil er 1.700-2.600 metrar. Flak SS Minden er stjörnumerkt (blátt).

Stofnmæling rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi og merkingar á ungþorski

Frá árinu 1988 hefur verið farið árlega í leiðangra til að meta stofnstærð rækju. Niðurstöður úr mælingunum eru notaðar til að veita stjórnvöldum ráðgjöf um veiðar á innfjarðarækju. Ýmsum öðrum upplýsingum er safnað, meðal annars um útbreiðslu, magn og lengd allra fisktegunda í báðum fjörðunum og einnig er afrán þorsks, ýsu og lýsu kannað. Þannig hafa niðurstöður úr þessum mælingum meðal annars sýnt að tegundasamsetning og þéttleiki fiska og hryggleysingja breyttist upp úr síðustu aldamótum þegar magn þorsks og ýsu jókst en á sama tíma minnkaði magn rækju, flatfiska og ýmissa smáfiska.

Í kjölfar könnunar á ástandi innfjarðarækjustofna sem fram fór dagana 1.-11. október 2019 ráðlagði Hafrannsóknastofnun að leyfðar yrðu veiðar á 197 tonnum af rækju í Arnarfirði og 568 tonnum í Ísafjarðardjúpi á vertíðinni 2019/2020.

Stofnvísitala rækju í Arnarfirði var nálægt sögulegu lágmarki en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Rækjan í Arnarfirði var smærri en undanfarin ár. Mikið var af þorsk- og ýsuseiðum í Arnarfirði og mældist meira af þorski en undanfarin þrjú ár.

Stofnvísitala rækju í Ísafjarðardjúpi var undir meðallagi en yfir skilgreindum varúðarmörkum. Útbreiðsla rækjunnar var að miklu leyti takmörkuð við svæðið innst í Ísafjarðardjúpi sem er í samræmi við þróun síðustu ára. Nýliðunarvísitala rækju var langt undir meðallagi árin 2016–2019. Vísitala þorsks hefur farið lækkandi frá árinu 2012 en magn þorsks var töluvert meira í október 2019 en undanfarin þrjú ár. Vísitala ýsu hefur haldist há frá 2004. Mikið var af ýsuseiðum á svæðinu í október 2019.

Á síðustu árum hefur verið kallað eftir ítarlegri upplýsingum varðandi nýliðun þorsks við Ísland. Í leiðangrinum voru ríflega 900 ungþorskar merktir til að sjá hversu lengi þeir dveljast í fjörðunum. Að auki var lögð áhersla á mælingar á þorskseiðum með það að markmiði að skoða ástand og aldur seiða í mismunandi fjörðum við landið.

Umhverfisáhrif sjókvíaeldis

Álag á grunnsævi fer vaxandi vegna ýmissa mannlegra athafna, svo sem fiskeldis. Til að meta áhrif fiskeldis á lífríki botnsins var upplýsingum nú safnað í botngreipar og með myndavélum annað árið í röð í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Rannsóknirnar fóru fram á nóttum meðfram könnun á ástandi innfjarðarrækjustofna dagana 1.-11. október 2019. Með slíkri árlegri vöktun fást upplýsingar um þéttleika og samsetningu botndýra á fjarsvæðum eldissvæða og hvernig það getur hugsanlega breyst. Að auki voru botnkjarnar teknir, súrefni, brennisteinsmagn og sýrustig mælt úr setinu til að meta ástand þess. Verkefninu er ætlað að vakta ástand á fjarsvæðum eldis og fjarðakerfum í heild en eldisfyrirtæki standa sjálf að lögbundinni vöktun við eldissvæðin. Þetta verkefni er styrkt af Umhverfissjóð sjókvíaeldis.

mynd af mönnum með botnkjarna

 
 

Botnkjarnar voru teknir. Súrefni, brennisteinsmagn og sýrustig var mælt úr setinu til að meta ásand þess.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?