Stangveiði

Skráning veiði / árnar og vötnin

Frá aldamótum 1900 safnaði Hagstofan saman tölum um veiði og höfðu hreppstjórar með höndum söfnun veiðitalna. Eftir 1946 þegar embætti veiðimálastjóra var stofnað hófst hann handa við að safna saman veiðitölum og bæta skráningu á veiði. Komið var á laggirnar skráningarkerfi með veiðibókum þar sem skráð skyldi veiði ásamt upplýsingum um hvern veiddan fisk. Þessi aukna og bætta skráning var til að fá yfirlit yfir veiði og til að auka söfnun á líffræðilegum upplýsingum um fiskstofna áa og vatna á Íslandi.

Íslendingar lærðu stangveiði af Bretum sem hingað sóttu til veiða í lok 19. aldar. Fljótlega skapaðist sú hefð að skrá þyngd fiska í pundum og var jafnan stuðst við að pundið samsvaraði 500g. En þar sem margar vogir (pundarar) sem notaðar voru til þyngdarmælinga voru í enskum pundum (lbs) gat orðið um rugling að ræða þar sem 1 lbs er 0,454 kg. Því eru veiðimenn beðnir um að skrá þyngd í kg og nota a.m.k 100g nákvæmni þ.e. kg eru skráð með einum aukastaf.

Út frá þyngd laxa má í allflestum tilfellum greina sjávaraldur þeirra en lax sem dvalið hefur eitt ár í sjó er allt að 3,5 kg ef um hrygnur er að ræða en hængar eru allt að 4,0 kg. Laxar með lengri sjávardvöl eru yfirleitt þyngri en þetta en sjávardvöl lengri en tvö ár er sjaldgæf hér á landi. Til nákvæmari greiningu á lengd sjávardvalar er æskilegt að hafa hreistur til greininga.

Samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði ber þeim er veiði stundar að gefa skýrslu um veiði og veiðifélögum og/eða veiðiréttarhafa ber að sjá svo um að slíkt sé gert. Í stangveiði ber að skrá veiði í veiðibók en þær fást endurgjaldslaust hjá Hafrannsóknastofnun. Hafrannsóknastofnun sendir út veiðibækur fyrir byrjun veiðitíma ár hvert. Á veiðitíma eru veiðibækur hafðar aðgengilegar fyrir veiðimenn til skráningar veiði og liggja þær gjarnan frammi í veiðihúsum þar sem þau eru til staðar. Í veiðibækur skal skrá upplýsingar um dagsetningu veiði, nafn veiðimanns, tegund fisks, kyn, þyngd, lengd, veiðistað, agn, hvort fiski sé sleppt auk upplýsinga um merkta fiska eða annað sem veiðimenn vilja koma á framfæri.

Við lok hvers veiðitímabils skal senda veiðiskýrslur og veiðibækur til Hafrannsóknastofnunar þar sem upplýsingar eru skráðar á tölvutækt form. Að skráningu lokinni eru veiðibækur endursendar til skráningaraðila eða veiðifélags ásamt samantekt niðurstaðna yfir veiðina.

Heildarsamantekt veiðitalna er gerð árlega fyrir landið í heild og niðurstöðurnar birtar í Veiðiskýrslu fyrir hvert ár á vefnum.

Ekki hefur náðst að skapa sambærilega skráningarhefð fyrir netaveiði og algengara er að netaveiði sé skráð sem heildarfjöldi veiddra fiska hvern dag. Eyðublaðsform fyrir skráningu netaveiði fæst hjá Hafrannsóknastofnun og deildum hennar. Laxveiði í net í sjó við Íslandsstrendur er nú með öllu aflögð en lítilsháttar veiði er á göngusilungi í sjó. Einungis örfáir aðilar hafa skilað upplýsingum um silungsveiði í sjó á undanförnum árum og er sú veiði því væntanlega hverfandi lítil.

Sá sem netaveiði stundar er hvattur til þess að nýta sér veiðibækur og einstaklingsskrá veiðina fremur en skráningu eftir dögum. Slíkt eykur til muna upplýsingar um viðkomandi veiðistofn.

Á grundvelli veiðiskráningar hafa hér á landi safnast líffræðilegar upplýsingar um veidda fiska sem eru með því allra besta sem gerist hjá laxveiðiþjóðum. Skráning á silungsveiði hefur verið að aukast og batna á undanförnum árum þótt þar sé enn verk að vinna. Til að koma skráningu á silungsveiði í sambærilegt horf og er hjá með laxveiði þarf að koma til samhæft átak veiðiréttarhafa, Veiðimálastofnunar og síðast en ekki síst veiðimanna að skrá veiði samviskusamlega.

Veiðiskráning kemur veiðiréttarhöfum til góða til þess að fylgjast með fiskgengd og afla í viðkomandi veiðivatni. Jafnframt líta veiðimenn gjarnan til veiðitalna þegar veiðivon er metin, veiðiferðir skipulagðar og veiðileyfi keypt. Skráning veiði eftir veiðistöðum innan vatnakerfa hefur aukist á undanförnum árum. Mikilvægt er að í lok veiðitíma fari kunnugir yfir skráningu veiði á veiðistaði og númeri veiðistaði í veiðibókinni. Út frá þeim má sjá dreifingu veiði innan áa og á því er byggt við matsgerðir þegar eignarhluta veiði er deilt milli veiðiréttarhafa í arðskrá veiðifélaga. Þar vegur veiði þungt ásamt landlengd og uppeldis- og hrygningarskilyrðum. Eins og flestir vita geta tekjur af sölu veiðileyfa verið umtalsverðar og því mikilvægt að eigendur veiðihlunninda séu sívakandi yfir þeim.

Eins og áður sagði er veiðiskráning mikilvæg úr frá líffræðilegu sjónarmiði og einnig til að verðleggja veiði og skiptingu arðs. Þá eru veiðibækur einnig mikilsverðar upplýsingar um veiði og veiðisögu og hafa mörg veiðifélög það fyrir reglu að koma eldri veiðibókum á héraðsskjalasöfn til varðveislu. Afrit þeirra eru síðan höfð í veiðihúsum til afnota fyrir veiðimenn.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?