Veitt og sleppt

Þeim veiðimönnum fer fjölgandi sem sleppa stangveiddum fisk.  Það er mikilvægt að það sé gert rétt á öllum stigum.

Hér að neðan eru leiðbeiningar um hvernig er hægt að bera sig að.

Rétt agn er mikilvægt

 • Mælt er með krókum án agnhalds, nota má töng til klemma niður agnhaldið.
 • Best er að nota sterka línu, þannig að hægt sé að landa fiski fljótt og vel.
 • Fiskar veiddir með spún eða beitu eiga líka lífsmöguleika.
 • Stórir krókar geta rifið illa og sært augu og munn.
 • Smáir krókar eru oft kokgleyptir og getur verið betra að skera á línuna þegar þannig háttar til.
 • Best er að nota króka sem ryðga. Ef slíkur krókur er kokgleyptur og skorið er á línuna, brotnar hann niður og eyðist.

Meðhöndlun

 • Varist að lyfta fiski upp úr vatninu.
 • Ef framkvæma á ljósmyndun er best að hafa myndavélina til taks og hjálparmaður myndar aflann í vatnsyfirborðinu.
 • Háfar geta farið illa með símhúð og hreistur fisksins. Ef hann er hins vegar nauðsynlegur, notið þá háf með neti úr mjúku bómullarneti, ekki nylonefni.
 • Snertið hvorki tálkn né augu og kreistið ekki fiskinn.
 • Varast ber að ,,sporðtaka” fisk og lyfta honum þannig úr vatninu.
 • Bleytið hendurnar áður en fiskur er handleikinn, snerting með þurrum höndum getur fjarlægt símhúð og valdið hreisturlosi

Losun önguls

 • Losið öngulinn sem fyrst, en gerið það mjúkum höndum. Ef hægt er, látið fiskinn vera undir yfirborðinu allan tímann.
 • Notið töng með góðu gripi til þess að ná önglinum úr fiskinum.
 • Ef séð er að öngull er illa fastur og honum verði ekki náð án þess að særa fiskinn enn meira, klippið þá línuna sem næst önglinum og látið hann vera.
 • Forðist að eyða miklum tíma í losun önguls, því lengri tími sem líður, því minni verða lífsmöguleikar fisksins. Ef fyrirséð er að mikinn tíma þurfi í losunina, skerið þá frekar strax á línuna.

Hreistursöfnun

 • Ef safna skal hreistri af lifandi fiski ber að fara mjög varlega og hafa hröð og örugg vinnubrögð. Hér má sjá ítarlega aðferðalýsingu á hreistursöfnun á fiski sem skal aftur sleppt.

Merkingar

 • Ef merkja á fisk er nauðsynlegt að vera með búnaðinn við hendina til að tryggja fljóta afgreiðslu.
 • Nota einungis samþykktan merkingarbúnað og nota samþykkt merki fyrir viðkomandi vatnakerfi.

Stærð fiska

 • Forðast að reyna að vigta fisk, mæla fremur fisk með lengdarstiku, auðvelt er að áætla þyngd út frá lengd.
 • Númer merkja og stærð fiska skal skrá í veiðibók. Alla veiði skal skrá í veiðibók ásamt umbeðnum upplýsingum.

Fiskurinn þarf að jafna sig

 • Ef fiskur er slappur, snúið honum þá á móti hægum árstraumi, þannig er honum best hjálpað við að ná eðlilegri öndun á nýjan leik. Ýtið honum ekki fram og til baka til að hjálpa upp á streymi.
 • Þegar fiskurinn hefur náð sér og reynir að synda úr höndum þínum, gefið honum þá frelsi.
 • Stórir fiskar þurfa oft lengri tíma til að jafna sig en þeir smærri.

Metið lífsmöguleikana

 • Ekki reyna að sleppa fiski sem er mjög slappur eða mikið skaddaður. Blæðing úr tálknum og mikið hreisturlos eru vísbendingar um að fiski verði ekki bjargað.

Skráning aflans

Í veiðibókum er sérdálkur ,,sleppt/released” sem krossað er við. Mikilvægt er að lengdarmæla þann fisk sem sleppt er, þyngd fisks má síðan áætla eftir þar til gerðum töflum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?