Ársskýrsla 2020

  mynd af forstjóra

Formáli forstjóra

Árið 2020, fimmta starfsár nýrrar Hafrannsóknastofnunar, var að mörgu leyti óvenjulegt. Eins og hjá öðrum fyrirtækjum sem og þjóðinni allri setti heimsfaraldurinn mark á árið. Með samstilltu átaki tókst starfsmönnum þó að vinna þau verk sem áætlanir gerðu ráð fyrir og tókst að sinna allri nauðsynlegri sýnatöku á sjó og mestu af því sem fyrirhugað var að vinna á starfsstöðvum um land allt. Starfsmenn stofnunarinnar sýndu þrautseigju og samstöðu við erfiðar aðstæður og lagði það grunninn að því að hægt væri að sinna þeim fjölmörgu verkefnum sem stofnunin sinnir bæði á sjó og landi.

Í skýrslunni er að finna samantekt um rannsóknastarfsemina á árinu 2020 eftir rannsóknasviðum stofnunarinnar, stoðdeildum, útibúum og einnig er yfirlit um starfsemi Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ og Hafrannsóknastofnun rekur. Þá er rekstraryfirlit fyrir árið 2020 í sérstökum kafla.

Á vormánuðum flutti stofnunin í nýtt húsnæði að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði en hafði frá sameinignu verið til húsa í Sjávarútvegshúsinu að Skúlagötu 4 í Reykjavík og Hafrannsóknastofnun frá árinu 1965. Þann 5. júní var formleg vígsla og mikið í lagt til að gera athöfnina sem eftirminnilegasta. Athöfnin hófst hjá Sjávarútvegshúsinu þar sem starfsfólk og gestir gengu fylktu liði að rannsóknaskipum stofnunarinnar, Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, sem lágu við Faxagarð. Þaðan var siglt út á Faxaflóann og yfir í hina nýju heimahöfn, Hafnarfjörð. Með í för voru auk starfsmanna, forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fleiri góðir gestir. Í Hafnarfirði lögðust skipin að bryggju í nýrri heimahöfn þar sem fjöldi gesta tók á móti skipunum og fögnuðu þeim áfanga að starfsemin á höfuðborgarsvæðinu er nú sameinuð á einum stað í nýjum og glæsilegum húsakynnum. Í húsinu starfa um 130 manns. Nú er öll starfsemin á höfuðborgarsvæðinu á einum stað og aðstaða öll til fyrirmyndar enda var húsið hannað með þarfir Hafrannsóknastofnunar í huga.

Auk starfseminnar í Hafnarfirði var stofnunin í árslok með 8 starfsstöðvar um land allt. Starfsstöðvarnar sinna m.a. nauðsynlegri sýnatöku auk þess sem hver stöð er einnig sérhæfð á ákveðnum sviðum og sinnir rannsóknum, vöktun eða vinnur að vissum verkþáttum í stærri verkefnum. Þannig eru starfsstöðvarnar mikilvægur hlekkur í starfsemi stofnunarinnar.

Alþingi samþykkti árið 2018 smíði nýs rannsóknaskips fyrir stofnunina sem skyldi leysa af hólmi rs. Bjarna Sæmundsson sem kominn er til ára sinna eftir 50 ára þjónustu í hafrannsóknum við Ísland. Hönnun skipsins er á lokastigum og er gert ráð fyrir að smíði skipsins geti hafist fyrir árslok 2021. Við hönnunina hefur verið horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti enda fara þar vel saman umhverfissjónarmið og hagkvæmari rekstur skipa. Þannig verður skipið frekar langt og mjótt miðað við flest ný skip en með þeim hætti er talið að hægt sé að ná allt að 20% sparnaði á siglingu. Hægt verður að brenna lífdísil (t.d. repjuolíu) og er þeim möguleika haldið opnum í hönnun að hægt verði að nota metanól ef hentugar vélar til brennslu þess verði komnar í framleiðslu á smíðatímanum. Rafmagn framleitt í landi á rafhlöður er ekki talinn raunhæfur kostur þar sem einungis væri hægt að vinna með slíkum lausnum í mjög stuttan tíma en leiðangrar skipsins verða ávallt taldir í dögum eða vikum meðan ending rafhlöðu væri líkast til aldrei meiri en klukkustund miðað við pláss í þeirri stærð skips sem smíðað verður. Innan skips verður einnig farið í allar þekktar leiðir til orkusparnaðar. Til lýsingar er notuð LED tækni, spilbúnaður skipsins verður rafdrifinn, til upphitunar verður notuð afgangsorka frá kælivatni aðalvéla og vistarverum skipt upp þannig að einungis verði loftræstar þær sem eru í notkun hverju sinni. Þegar skipið liggur í höfn, þá verður það tengt við landrafmagn. Það verður mikil bót á aðstöðu til hafrannsókna þegar nýtt skip kemur í stað rs. Bjarna Sæmundssonar sem hefur verið í þjónustu við Hafrannsóknir í yfir 50 ár.

Eins og fram kemur í ársreikningi er afgangur af rekstri stofnunarinnar á árinu 2020 en áfram er glímt við uppsafnaðan hallarekstur vegna fyrri ára. Krafa stjórnvalda um hagræðingu í rekstri á undanförnum árum hefur leitt til þess að dregið hefur úr grunnrannsóknum stofnunarinnar og dregið hefur verulega úr vöktun sumra nytjastofna. Þá hefur ekki verið hægt að sinna sem skyldi rannsóknum tengdum loftslagsbreytingum. Vöktun á lífríki hafs og vatna er kostnaðarsöm en þær upplýsingar eru nauðsynlegar ef veita á ráð um skynsamlega nýtingu auðlindanna. Ef dregið er úr vöktun og rannsóknum á lífríkinu getur það leitt til skorts á upplýsingum sem þarf til að hægt sé að veita ráð um nýtingu sem byggir á hámarks afrakstri. Upplýsingaskortur getur því leitt til lægri ráðgjafar um heildarafla og þar með minni gjaldeyristekna þjóðarbúsins.

Hafnarfirði, 1. júní 2021

Þorsteinn Sigurðsson

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?