Áll

Í Atlantshafi eru tvær tegundir ála, þ.e. Evrópski állinn (Anguilla anguilla) sem lifir í Evrópu og Norður- Afríku og Ameríski állinn (Anguilla rostrata) sem er í Norður-Ameríku. Tegundirnar eru mjög líkar og nánast ógerningur að greina þær í sundur á útliti. Evrópski állinn hefur að meðaltali 114 (110‒119) hryggjaliði en sá ameríski 107 (103‒110). Íslenski állinn hefur venjulega verið talinn til evrópsku tegundarinnar en nýlegar niðurstöður benda til þess að hluti ála sem hingað koma tilheyri blendingum milli Ameríska og Evrópska álsins. Þótt útbreiðsla áls á Íslandi sé fremur lítið þekkt finnst hann í öllum landshlutum. Mest er af honum á láglendi á sunnan og vestanverðu landinu frá Lónsfirði að Vestfjörðum.

Báðar álategundirnar hrygna í Þanghafinu við austurströnd Mið-Ameríku. Hrygningin fer fram að vori (mars – júní) á um 400‒700 m dýpi þar sem sjávardýpi er um 6000 m. Hrognin og álalirfurnar sem úr þeim klekjast eru sviflæg. Lirfurnar berast með Golfstraumnum að ströndum Evrópu og Ameríku. Lengi vel var talið að ferðin að Evrópuströndum tæki tvö og hálft til þrjú ár, en nýjustu niðurstöður benda til að þessi tími sé mun styttri, um eða innan við 1 ár. Þegar álalirfurnar hafa nálgast strendur taka þær miklum breytingum og nefnast eftir það gleráll. Glerálar eru, eins og nafnið bendir til, glærir og þeir eru um 5‒7 cm langir.

Þeir sækja að ströndinni og ganga síðan í ferskvatn að vori og fram á sumar. Smám saman taka þeir á sig lit, verða gulbrúnir, og nefnast þá álaseiði. Hluti ála, aðallega hængar, gengur ekki í ferskvatn heldur elst upp við strendur í sjó eða hálfsöltu vatni. Glerálar og álaseiði ganga í ferskvatn að sumarlagi. og örvast uppganga þeirra við hækkandi hita. Göngur glerála og álaseiða í ferskvatn eru háðar vatnshita og er gengd meiri í hlýjum sumrum. Fossar hindra ekki för þeirra heldur skríða þeir upp raka kletta eða í gróðri framhjá fossunum. Sem dæmi er áll í Systravatni ofan við Kirkjubæjarklaustur og hafa álaseiði sést skríða upp við foss neðan við vatnið sem er nokkrir tugir metra á hæð.

Áll í uppeldi nefnist guláll. Hann lifir í ám og vötnum sem álaseiðin ná að ganga í. Kjörskilyrði fyrir ála eru í grunnum láglendisvötnum sem geta hlýnað að sumarlagi, enda er állinn hitakær, kjörhiti til vaxtar er 22‒23 °C. Í fersku vatni er fæða ála ýmis smádýr sem lifa á botni, s.s. skordýralirfur og vatnabobbi en hann étur sjaldan fisk. Vöxtur í fersku vatni er mjög misjafn og fer eftir hitastigi, þéttleika og fæðuskilyrðum. Athuganir á ál í Vestur-Skaftafellssýslu benda til 5‒6 cm vaxtar á ári.

Þegar állinn hefur náð um 35‒100 cm (0,1‒2,0 kg) tekur hann að ganga í Þanghafið til að hrygna. Áður tekur hann miklum breytingum. Augun stækka, bakið dökknar, kviður verður silfurlitaður og slím á húð minnkar. Állinn hættir að éta, magi og garnir skreppa saman og kynfæri taka að þroskast. Hann nefnist þá bjartáll. Bjartálahængar eru að jafnaði minni en hrygnur, eða 35-50 cm (um 60 ‒200 g), en hrygnurnar eru frá 45‒100 cm (0,1‒2,0 kg). Dæmi eru þó um að álar geti orðið allt að 125 cm og 6 kg. Aldur við útgöngu er mjög breytilegur og fer eftir vaxtarskilyrðum. Á Íslandi er 8‒14 ár líklega algengur aldur bjartála.

Álar geta orðið miklu eldri og talið er að áll í brunni einum í Svíþjóð hafi orðið 155 ára. Bjartállinn gengur mest til sjávar síðsumars og á haustin. Göngur aukast við aukið vatnsrennsli og lækkandi vatnshita að hausti. Göngur eru mestar að næturlagi. Lítið er vitað um göngur bjartálanna á sinni löngu göngu (allt að 6500 km) á hrygningarstöðvarnar í Þanghafinu, en talið er að þeir gangi á um 50‒400 metra dýpi. Allur áll deyr eftir hrygningu.

Állinn hefur lengst af verið mikið veiddur enda þykir hann herramannsmatur. Lítil hefð er fyrir álaveiðum á Íslandi. Eitthvað mun hann þó hafa verið veiddur til matar og roðið var notað í skóþvengi. Á árunum 1960 til 1964 var veitt töluvert af ál til útflutnings. Jón Loftsson og Samband Íslenskra Samvinnufélaga sáu um söluna og seldu lifandi og reyktan ál til Hollands. Veitt var með álagildrum víðs vegar á landinu, einkum í Skaftafellssýslum og á Mýrum í Borgarfirði. Sumrin 1961‒1963 veiddust 13‒15 tonn á öllu landinu en árið 1964 var afli orðinn lítill. Állinn fór smækkandi og aflinn minnkaði líklega vegna of mikillar veiði. Á síðari árum hafa álaveiðar lítið verið stundaðar.

Víða erlendis hefur gleráll verið veiddur bæði til matar og til eldis. Ál hefur mikið fækkað á síðustu áratugum og hófst sú þróun um miðjan 8. áratug síðustu aldar. Hnignun álastofnsins má m.a. merkja á verulegri fækkun í fjölda glerála sem berst að ströndum Evrópu. Evrópski állinn er nú á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Settar eru miklar takmarkanir á álaveiðum. Ekki er fullþekkt hvað veldur hnignun álastofnsins. Gæði búsvæða og aðgengi að þeim í fersku vatni hefur versnað.

Sjúkdómar, sníkjudýr og ofveiði eru sennilega meðverkandi þættir. Einnig getur orsökin legið í breyttum umhverfisskilyrðum í sjó. Árið 2018 voru samþykkt lög sem heimila bann við álaveiðum á Íslandi. Álaveiðibann var síðan sett á með reglugerð árið 2019. Fiskistofa getur þó veitt undanþágu til veiða til eigin neyslu. Margt er á huldu um stofnstærðir og lífshætti ála á Íslandi og því þörf á auknum álarannsóknum.

Myndband sýnir ál synda í gegnum teljara í á.

Uppfært 24. janúar 2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?