Um okkur

Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er stærsta rannsóknastofnun landsins á sviði haf- og vatnarannsókna og gegnir auk þess ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu og verndun auðlinda hafs og vatna. Stofnunin heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Mikill hluti starfseminnar tengist alþjóðlegu samstarfi við erlendar hafrannsóknastofnanir og háskóla. Stofnunin rekur auk aðalstöðva í Reykjavík starfsstöðvar vítt og breytt um landið, tilraunaeldisstöð, tvö rannsóknaskip og hefur að jafnaði um 190 starfsmenn í þjónustu sinni.

Lög nr. 112/2015 um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.

rannsóknavinna

Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna varð til við sameiningu tveggja rótgróinna stofnana, Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar þann 1. júlí 2016.

Starfsemi Veiðimálastofnunar má rekja aftur til ársins 1946, en það ár var Þór Guðjónsson skipaður í nýtt embætti veiðimálastjóra, samkvæmt ákvæði í lögum frá 1932. Verksvið veiðimálastjóra var að annast rannsóknir vatna og fiska og skrásetja veiðivötn, safna skýrslum um veiði og fiskrækt, undirbúa byggingu klakstöðva og fiskvega, gera tillögur um reglugerðir um friðun og veiði, leiðbeina um veiðimál og vera ráðherra til aðstoðar um allt sem að veiðimálum lýtur. Fyrsta aldarfjórðunginn var starfslið veiðimálastjóra fámennt, einn til tveir starfsmenn auk veiðimálastjóra. Á áttunda áratugnum fjölgaði starfsfólki embættisins og stofnuð voru útibú frá stofnuninni á landsbyggðinni.

Hinni eldri Hafrannsóknastofnun var komið á fót árið 1965 en upphaf hafrannsókna við Ísland má þó rekja til síðari hluta 19. aldar er Danir hófu sjórannsóknir við landið. Kerfisbundnar haf- og fiskirannsóknir Íslendinga hófust með frumkvöðlastarfi Bjarna Sæmundssonar í upphafi 20. aldar. Árið 1931 hófust fiskirannsóknir á vegum Fiskifélags Íslands og veitti Árni Friðriksson þeirri starfsemi forstöðu. Árið 1937 urðu þáttaskil í íslenskum haf- og fiskirannsóknum með stofnun Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans og varð Árni Friðriksson fyrsti forstöðumaður Fiskideildar.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var mikil gróska í íslenskum haf- og fiskirannsóknum er rannsóknasvið Fiskideildar jókst jafnt og þétt með tilkomu sérmenntaðs starfsfólks í hinum ýmsu greinum haf- og fiskifræði. Árið 1947 hófust kerfisbundnar sjó- og áturannsóknir og rannsóknir á plöntusvifi hófust 1958.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?