Loftslagsstefna 2022‐2030

Loftslagsstefna Hafrannsóknastofnunar 2022‐2030

Hafrannsóknastofnun er með 190 starfsmenn, 10 starfsstöðvar vítt og breitt um landið, tvö rannsóknaskip og eina fiskeldisstöð. Stofnunin hefur sjálfbærni og vernd umhverfisins að leiðarljósi og ætlar að leggja sitt af mörkum til að styðja við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamkomulaginu og yfirlýsingu yfirvalda um kolefnishlutleysi, og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. Til að framfylgja þessu hefur stofnunin sett sér eftirfarandi loftslagsstefnu fyrir allar starfsstöðvar og alla starfsmenn stofnunarinnar:
Hafrannsóknastofnun ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna skrifstofustarfsemi um 40% á hvert stöðugildi fyrir árið 2030 og um 5% vegna reksturs rannsóknaskipa. Miðað verður við árið 2019 sem grunnár fyrir alla starfsemi aðra en skiparekstur, en þar verður miðað við árið 2021. Leitað verður leiða til að minnka olíunotkun skipanna með endurskipulagningu rannsóknaleiðangra, auk þeirra aðgerða sem snúa að því að minnka losun vegna skrifstofustarfsemi stofnunarinnar. Öll eftirstandandi losun stofnunarinnar verður kolefnisjöfnuð með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2022.

Hafrannsóknastofnun mun draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum vegna:

- Reksturs rannsóknaskipa með áherslu á hagræðingu í rannsóknaleiðöngrum á sjó og þjónustu við skip í landi
- Flugferða erlendis og innanlands með áherslu á fjarfundi og breytt vinnulag
- Aksturs á vegum stofnunarinnar með endurnýjun eigin bifreiða og kröfum til bílaleiga og leigubíla um bifreiðar án jarðefnaeldsneytis
- Úrgangs með minni sóun og aukinni flokkun
- Orkunotkunar með orkusparnaðaraðgerðum

Stefnan tekur til umhverfisáhrifa samgangna, orkunotkunar, úrgangs og innkaupa Hafrannsóknastofnunar. Einnig verður stuðst við uppfærða aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um loftslagsstefnur opinberra aðila og Græn skref í ríkisrekstri. Stefnunni er fylgt eftir með innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri, sem hófst hjá Hafrannsóknastofnun í apríl 2018.

Fyrir 1. apríl ár hvert er Grænt bókhald fyrra árs tekið saman af fjármálasviði stofnunarinnar, og því skilað í Gagnagátt Umhverfisstofnunar. Grænt bókhald Hafrannsóknastofnunar nær til allra starfsstöðva stofnunarinnar og allra umhverfisþátta sem falla undir umfang stefnunnar á öllum starfsstöðvum. Niðurstöðum Græns bókhalds og árangri umhverfis‐ og loftslagsstefnu er miðlað til samfélagsins á vef Hafrannsóknastofnunar og í rafrænni ársskýrslu ár hvert. Einnig birtast niðurstöður Græns bókhalds á heimasíðu Grænna skrefa ásamt niðurstöðum annarra ríkisstofnana.

Loftslagsstefnan verður rýnd árlega af umhverfis‐ og loftslagsnefndum og áherslur, markmið og aðgerðaáætlun uppfærð þegar niðurstöður Græns bókhalds liggja fyrir. Allar uppfærslur verða lagðar fyrir Framkvæmdastjórn til samþykktar.

Stefnan var samþykkt af Framkvæmdastjórn, Umhverfisnefnd og Loftslagsnefnd
Hafrannsóknastofnunar 27.04.2022.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?