Líffræði og vistfræði hrefnu

Markmið þessa verkefnis er að afla upplýsinga um líffræði, fæðuvistfræði og orkubúskap hrefna sem veiddar eru í atvinnuskyni hér við land. Rannsóknir á líffræði og fæðuvistfræði hrefnunnar fóru fram á árunum 1977-1985, og Hafrannsóknastofnun stóð fyrir mjög ítarlegum rannsóknum á 200 hrefnum á árunum 2003-2007.

Í síðarnefndu rannsóknunum hafa m.a. komið fram talsverðar breytingar í fæðusamsetningu yfir gagnasöfnunartímabilið, auk þess sem fæðusamsetningin var talsvert frábrugðin því sem lesa mátti úr takmörkuðum gögnum frá síðustu öld. Þannig var hlutfall þorsks, ýsu og annarra bolfiska, auk sandsílis mun hærra nú en í fyrri rannsóknum, en hlutfall átu og loðnu samsvarandi lægra. Hlutur sandsílis í fæðunni lækkaði mjög eftir því sem leið á tímabilið (2003-7) en hlutfall síldar og ýsu jókst að sama skapi. Nærtækast er að tengja þessar breytingar á fæðuframboði á landgrunnssvæði Íslands. Einnig ber að hafa í huga að, auk þess að breyta fæðuvali virðist hrefnan færa sig til eftir fæðuframboði. Þannig fækkaði hrefnu mjög á landgrunnssvæði Íslands milli talninga árin 2001 og 2007 og virðist enn fáliðuð á því svæði samkvæmt talningum 2016.

Mikilvægt er að fylgjast áfram með fæðusamsetningu og fjölda hrefnu á Íslandsmiðum enda gegnir tegundin líklega mikilvægu hlutverki í vistkerfinu, en samkvæmt útreikningum frá 1997 var heildarneysla hrefnu á stofnsvæðinu (A-Grænland-Ísland-Jan Mayen) um 2 milljónir tonna.

Síða uppfærð 23. júní 2021.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?