Bergmálsmælingar á ljósátu

Markmið rannsóknanna er að bæta mat á lífmassa ljósátu gert með bergmálsaðferðum. Kannað verður hvort og í hvaða mæli flóttaviðbrögð ljósátu gagnvart háfi og svifsjá hafi áhrif á ákvörðun endurvarpsstuðuls ljósátu. Verkefnið felst í að bera saman bergmál frá ljósátu og átumagn metið með háfum og svifsjá. Þá verður hugað að því hvernig lágmarka má hugsanleg flóttaviðbrögð ljósátu gagnvart veiðarfærum, sérstaklega smærri háfum og stuðla þannig að því að fá öruggara mat á hlutfallslegri mergð árganga og lengdardreifingum úr sýnatökum.

Það hefur lengi verið þekkt að endurvarp fiska og dýrasvifs er tíðniháð og að þessa tíðnisvörun má nota til þess að meta endurvarp til tegunda og jafnvel stærðar þeirra lífvera sem endurvarpið er af. Sérstaklega hefur gefist vel að greina sundur ljósátu og fisk með samanburði á endurvarpi þeirra á lægri og hærri tíðnum bergmálsmæla. Með stafrænni skráningu og öflugum úrvinnsluhugbúnaði hefur þessari aðferð vaxið ásmegin hin seinni ár.

Til að meta ljósátumagnið með bergmálstækni hefur reynst sérstaklega gagnlegt að skoða mismun endurvarpa á 38 og 120 kílóriðum, en mismunur 70 og 200 kílóriða er einnig hafður til hliðsjónar. Í megindráttum er endurvarp frá ljósátu greint frá endurvarpi fiska og hvelja með því að athuga mismun endurvarps 38 og 120 kílóriða. Ef sá mismunur er innan tiltekinna marka er endurvarpið talið vera frá ljósátu, annars frá öðrum lífverum. Sýnataka með háfum og svifsjárgögn hefur sannreynt þessa aðferð. Einnig hefur verið lögð áhersla á að meta hversu mikið magn ljósátu lægi að baki tilteknum bergmálsgildum með samanburði við tegunda- og þéttleikagreiningu svifsjárgagna. Ekki eru öll kurl komin til grafar í þeim samanburði, m.a. vegna óþekktra flóttaviðbragða ljósátunnar gagnvart háfum og svifsjá.
Rannsóknir þessar hófust árið 2011 með því að gerðar voru athuganir í Ísafjarðardjúpi og var markmiðið að afla upplýsinga um útbreiðslu, magn og fæðugildi ljósátu í Djúpinu, ásamt því að gera veiðarfæratilraunir með framtíðar nýtingarsjónarmið í huga. Frá árinu 2011 hefur bergmálsaðferðinni verið beitt í vorleiðöngrum til að meta útbreiðslu ljósátu allt í kringum Ísland. Þessar rannsóknir hafa reynst mjög mikilvæg viðbót við hefðbundnar athuganir í vorleiðöngrum og gefið upplýsingar um útbreiðslu og magn ljósátu í hafinu umhverfis Ísland, sem ekki voru til áður. Segja má að öllum meginmarkmiðum verkefnisins hafi verið náð, nema að talið er að mat á magni ljósátu sé enn talsverðri óvissu háð vegna óvissu í ákvörðun endurvarpsstuðuls fyrir ljósátu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?