Þörungarannsóknir

Þörungar við ísland

 
 
 
 
 
 
 
 
Saga markvissra rannsókna á þörungaflóru við Ísland hefst á 19. öld með rannsóknum Svíans Strömfelt (1886). Hann rannsakaði þörunga á Suðvesturlandi og Austfjörðum.
Um aldamótin 1900 gerði íslenskur vísindamaður Helgi Jónsson (1901, 1903 a,b, 1910) rannsókn á þörungaflórunni í kringum landið. Niðurstöður þeirra rannsókna birti Helgi í safnritinu “The Botany of Iceland”(Helgi Jónsson 1912). Það var svo ekki fyrr en 1963 að þörungafræðingurinn Sigurður Jónsson hóf aftur rannsóknir á þörungum við Ísland. Fyrst beindist athygli hanns að landnámi nýrra tegunda í Surtsey og að þörungaflóru Vestmannaeyja (Sigurður Jónsson o.fl.1987). Sumarið 1971 fór Sigurður ásamt hópi vísindamanna hringinn í kringum Ísland þar sem þörungar voru rannsakaðir (Caram & Sigurður Jónsson 1972). “Síðan þá hafa nokkrar athuganir verið gerðar á sjóþörungum við landið. Flestar þeirra hafa beinst að einstökum tegundum (t.d. Karl Gunnarsson 1992) eða afmörkuðum hópum (t.d. Karl Gunnarsson 1985) eða að gerð almennrar lýsingar á gróðurfari ákveðinna, afmarkaðra fjörusvæða (t.d. Munda 1994). “
 

Hvað eru þörungar?

Gróður sjávar samanstendur af margs konar plöntum. Þörungar eru þar mest áberandi. En hvað eru þörungar? Í raun eru þörungar ekki einn samstæður hópur heldur er um að ræða fjölmarga óskylda hópa. Þróunarfræðilega eru sumir hópar þörunga náskyldir bakteríum eins og t.d. bláþörungar, aðrir eru skyldir einfruma dýrum og síðan eru einnig þörungar sem eru flokkaðir með mosum, burknum og háplöntum, þ.e. grænþörungar. Þörungar hafa aðlagast lífi við nánast allar hugsanlegar aðstæður. Þá er að finna í þurrum eyðimörkum, uppi á jöklum og í heitum hverum, mest er fjölbreytni þeirra þó í sjó og vötnum.

Það er sameiginlegt öllum þörungum að þeir hafa a-blaðgrænu og ljóstillífa, mynda súrefni og lífræn efni úr ólífrænum og nýta til þess orku sólarljóssins. Þennan eiginleika hafa einnig mosar, byrkningar og háplöntur, enda náskyldir grænþörungum eins og áður sagði.

Gróðri sjávar má skipta í tvo hópa eftir lifnaðarháttum og búsvæðum. Annars vegar er svifgróður, einnig nefnt plöntusvif, sem eru einfruma þörungar sem berast með straumum í yfirborðslögum sjávar. Hins vegar eru botnþörungar sem vaxa á botninum. Botnþörungarnir eru ýmist einfruma eða fjölfruma og eru sumir þeirra margra metra langir.

Svifþörungar

Svifþörungar sjávar eru flestir einfrumungar. Við Ísland eru kísilþörungar og skoruþörungar mest áberandi í svifinu, en kalksvipuþörungar finnast stundum einnig í miklu magni. Kísilþörungar hafa um sig skel úr kísli sem er alsett örsmáum götum sem mynda skrautlegt mynstur. Þeir eru mjög fjölbreytilegir að lögun; oft hanga þeir saman í keðjum. Skoruþörungar eru klæddir brynju úr sellulósaplötum. Tvær rásir eða skorur eru á frumunni, önnur umlykur hana þvert en hin langsum. Eitt svipuhár liggur í hvorri skoru. Svifþörungarnir berast um með straumum og hafa litlar sem engar eigin hreyfingar.

Svifþörungurinn Dinophysis acuta.

Botnþörungar

Botngróður sjávar samanstendur aðallega af þörungum, en einnig skófum og fræplöntum. Nokkrar tegundir af skófum vaxa í fjörum hér við land og tvær tegundir fræplantna vaxa hér í sjó; marhálmur og lónajurt. Helstu hópar þörunga sem vaxa á botninum eru rauðþörungar, brúnþörungar og grænþörungar, en þar er einnig að finna bláþörunga, kísilþörunga og gulþörunga. Af þremur fyrst töldu hópunum vaxa um 250 tegundir hér við land. Meirihluti þeirra eru smávaxnir og lítt áberandi, en af stærri þörungum sem auðvelt er að sjá með berum augum eru um 100 tegundir.

Purpurahimna (Porphyra leucosticta) á fjörugrösum.

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?