Hvalakomur og hvalrekar við strendur Íslands

Tilkynna hvalreka

Meðal hlutverka Hafrannsóknastofnunar er að halda skrá yfir upplýsingar um hvali sem reka á land við Ísland og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um slíkar skráningar. Árið 2005 var vísindalegt hlutverk stofnunarinnar í þessu samhengi formfest með samkomulagi ýmissa ríkisstofnana um vinnulag og verkaskiptingu varðandi hvalreka. Þar er stofnuninni falið að sjá um skráningar hvalreka og rannsóknir á þeim.

Markmið þessa rannsóknaverkefnis er að safna upplýsingum um hvalreka og varðveita í gagnagrunni ásamt því að stunda rannsóknir á reknum hvölum .

Hvarvetna í heiminum þykir nauðsynlegt að hafa eftirlit af þessu tagi í tengslum við almenna upplýsingaöflun um umhverfi sjávar. Hér er einnig oft um eina möguleikann til að afla gagna um ástand stofnanna og þátt tegundanna í lífríki hafsins. Þetta á einkum við um þær tegundir sem ekki hafa verið veiddar hér við land. Undanfarin 40 ár hefur Hafrannsóknastofnun fylgst með og skráð upplýsingar um hvalreka eftir því sem vitneskja hefur borist stofnuninni. Starfsmenn fara á vettvang til sýnatöku, mælinga og marvíslegra annarra athugana þegar kostur er, eða leiðbeina heimamönnum/landeigendum um sýnatöku.

Oftast er um að ræða staka hvali sem eru dauðir þegar þeir finnast, en þó kemur fyrir að lifandi hvalir syndi á land, stundum í hópum sem geta talið hundruði einstaklinga. Þær athuganir sem mest áhersla hefur verið lögð á, tengjast almennri líffræði og vistfræði hvalanna. Einnig hefur m.a. verið safnað sýnum til erfðaefnisathugana, orkumælinga, mengunar- og veirurannsókna. Samvinna hefur verið við ýmsar innlendar og erlendar rannsóknastofnanir um úrvinnslu gagna á þessu sviði.

Vöktun hvalreka er sérstaklega mikilvæg nú á tímum mikilla breytinga í lífríkinu og vekja margir rekar hins suðræna rákahöfrungs um síðustu aldamót og mikill fjöldi rekinna andarnefja árið 2008 t.d. athygli í því samhengi. Mikilvægt er að upplýsingar um hvers kyns hvalreka berist Hafrannsóknastofnun svo skráning þeirra sé sem heillegust.

hvalreki

Í öllum tilvikum reynir stofnunin að fá a.m.k. DNA sýni úr reknum hvölum. Er það gert til að byggja upp erfðasýnabanka sem flestra tegunda. Í sumum tilfellum eru sýni úr strönduðum og reknum dýrum þau einu sem fást úr viðkomandi tegund.

Erfðarannsóknir geta hjálpað til við að greina tegundina sem um ræðir.

Dæmi er um að slík DNA greining hafi breytt ætlaðri tegund. Það var þegar stórhveli rak á land í Hindisvík á Vatnsnesi árið 2010. Upphaflega var talið að um sandreyð eða langreyð væri að ræða en með erfðagreiningu kom í ljós að um steypireyði væri að ræða.

Hvali á reki úti á sjó skal einnig tilkynna til Landhelgisgæslunnar þar sem þeir geta skapað hættu fyrir sjófarendur. 

 

Síða uppfærð 23. júní 2021.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?