Flundra

mynd af flundru

Flundra (Platichthys flesus) er flatfiskur af kolaætt. Hún líkist mest skarkola (Pleuronectes platessa) og sandkola (Limanda limanda). Hún þekkist þó frá þessum tegundum á því að meðfram bak- og raufarugga og rákinni eru smá beinkörtur. Heimkynni flundru eru með ströndum Evrópu frá Marokkó til Færeyja og allt norður á Kólaskaga. Flundra getur aðlagast breyttri seltu í umhverfinu, því er hana að finna í sjó, ísöltu vatni, t.d. ósum og lónum, og ferskvatni.

Yfirleitt nær flundran um 30 cm að lengd en dæmi eru um að hún verði allt að 60 cm löng. Hún lifir við botn frá fjöruborði niður á um 100 m dýpi, sækir í ísalt vatn en hrygnir ávallt í sjó. Í sjónum étur flundran aðallega að næturlagi, mest samlokur og botnlæga hryggleysingja, en á daginn grefur hún sig að hluta niður í setið og felur sig fyrir afræningjum.

Á sumrin heldur flundran sig gjarna í og við árósa og getur gengið upp í ár og læki. Flundra er nýlegur landnemi á Íslandi, en fyrsta flundran sem greind var hér á landi veiddist í Ölfusárósi í september 1999. Þá höfðu bændur á Hrauni í Ölfusi veitt allnokkra “kola” í net fyrr um sumarið og komu eintaki til Veiðimálastofnunar á Selfossi. Greining af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar leiddi síðar í ljós að um væri að ræða nýja tegund í fiskfánu landsins, flundru. Síðan hefur flundra veiðst mun víðar, bæði í sjó og í árósum. Flundra hefur náð hér varnalegri fótfestu og hefur nú veiðst frá sunnanverðum Austfjörðum suður um í Skagafjörð. Ekki er þekkt hvernig flundra barst hingað en vitað er að hún hefur borist til Ameríku með kjölvatni í skipi þótt hún hafi ekki náð þar fótfestu. Þá kann að vera að hún hafi borist hingað til lands á svif-lirfustigi og borist hingað með hafstraumum og þannig kunni hlýnandi loftslag að vera meðvirkandi þáttur í landnámi hennar.

Flundran er ein þeirra fáu tegunda flatfiska sem nota ár og læki sem uppeldissvæði. Þótt nokkrar rannsóknir liggi fyrir hérlendis, er í raun lítið vitað um búsvæðaval eða lífshætti tegundarinnar hér. Flundran hrygnir að vori á grunnsævi og þar klekjast hrognin út. Á fyrsta eða öðru ári eftir klak nýta seiðin sér sjávarstrauma til þess að ferðast að ósum, þar sem seiðin geta synt upp árnar en flest þeirra halda sig í ísöltu vatni í ósnum. Þar dvelur flundran í 2‒5 ár, þar til hún leitar aftur í fullsaltan sjó. Hængar ná kynþroska við 2‒3 ára aldur en hrygnur 3‒4 ára aldur. Fyrsta skeiðið eru flundruseiðin sviflæg en sækja á botn þegar þau hafa náð um 1,0 cm stærð.

Talsvert virðist nú um flundru í ósum og sjávarlónum á útbreiðslusvæði flundrunnar. Rannsóknir hérlendis hafa sýnt að ósar og ísölt lón eru mjög mikilvæg búsvæði fyrir bleikju og urriða. Flundran er þar í samkeppni við þessar og aðrar fisktegundir um fæðu og rými og þekkt er frá innlendum rannsóknum að hún éti aðra fiska. Þörf er á mun víðtækari rannsóknum til að afla meiri vitneskju um lifnaðarhætti flundru á árósasvæðum íslenskra áa þannig að hægt sé að átta sig á hver áhrif tilkoma flundru í íslenskt vistkerfi eru gegnum afrán og samkeppni. Flundra er ekki veidd hérlendis að neinu marki en er nytjafiskur erlendis.

Uppfært 23. júní 2021..

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?