Merkingar með gervihnattasendum

Á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnun staðið fyrir tilraunum til að merkja hvali með gervitunglasendum. Markmið verkefnisins er að kanna ferðir skíðishvala við landið og far þeirra frá íslenskum hafsvæðum á haustin. Lengi hefur verið vitað að flestar tegundir skíðishvala eru fardýr sem halda til á svölum eða köldum næringarríkum hafsvæðum á sumrin en leita á haustin í hlýrri sjó þar sem mökun og burður á sér stað.

Nánari þekking á þessum ferðum hvala er mjög takmörkuð og t.d. eru vetrar- eða æxlunarsvæði flestra hvalastofna óþekkt. Þessi vanþekking torveldar skilgreiningar á fjölda og landfræðilegum mörkum hvalastofna og eykur óvissu varðandi verndun og nýtingu hvala.

Erfðafræðilegur samanburður er erfiður þegar fjöldi og staðsetning æxlunarsvæða eru óþekkt og hafa vísindamenn lengi litið vonaraugum til gervitunglamerkinga í þessu samhengi. Tæknilega eru slíkar merkingar þó mjög erfiðar vegna stærðar og lifnaðarhátta hvala. Skjóta þarf merkjum úr fjarlægð og sendingar berast einungis þann stutta tíma sem loftnetið er ofansjávar, fáeinar sekúndur í senn.

Frá árinu 2001 hafa um 50 hvalir verið merktir á vegum Hafrannsóknastofnunar með fjárhagslegum stuðningi frá tækjasjóði RANNÍS. Mest hefur verið merkt af hnúfubak og hrefnu, en einnig hafa verið merktar steypireyðar, langreyðar og ein andarnefja. Verkefnið hefur leitt í ljós margvíslegar áður óþekktar upplýsingar um ferðir og annað atferli hvalanna. Meðal athyglisverðra niðurstaðna er að svokallað „haustfar“ hnúfubaka getur dregist allt aftur í febrúar. Þetta rúmlega 7.500 km ferðalag frá Íslandi á vetrarstöðvarnar í Karíbahafi tekur 5-6 vikur hvora leið. Þá hafa merkingarnar gefið fyrstu vísbendingar um vetraraðsetur hrefnu djúpt undan vesturströnd Afríku.

Síða uppfærð 23. júní 2021.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?