Merkingar á makríl

Frá árinu 2015 hefur Hafrannsóknastofnun merkt makríl á handfærabátum frá Snæfellsnesi. Merktir hafa verið tæplega 5000 fiskar á ári. Merkingarnar fara fram í samstarfi við Norðmenn sem merkja árlega nokkra tugi þúsunda makríls við Írland í maí. Merkingar við Ísland hafa m.a. gefið upplýsingar um far makríls austur yfir Atlantshaf á haustin. Jafnframt eru niðurstöður merkinga og endurheimta notaðar í stofnmat makríls.

Makríllinn er merktur með rafaldskennimerkjum (RFID, „radio-frequency identification“) sem skynjarar í fiskvinnslum víða við N-Atlantshaf nema þegar merktir fiskar eru í lönduðum afla. Slíkir skynjarar eru nú til staðar í þremur verksmiðjum hérlendis og voru þeir settir upp í samstarfi við fyrirtækin. Þá eru slíkir skannar í fjölmörgum verksmiðjum víða um Evrópu. Þessir skannar nema ekki aðeins merktan makríl heldur einnig merkta norsk-íslenska síld sem Norðmenn hafa nýlega byrjað að merkja á sama hátt.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?