Sjórannsóknir

Eitt af markmiðum Hafrannsóknastofnar er að afla þekkingar um eðlis- og efnafræðilega eiginleika sjávar umhverfis Ísland, einkum með tilliti til áhrifa á lífríkið.

Sjórannsóknir er samheiti rannsókna af þessu tagi og mörg verkefni miða að þessari þekkingaröflun. Til þeirra teljast ýmis verkefni sem eru nokkurs konar vöktun á Íslandsmiðum.

Viðamesta verkefnið af þessu tagi er nefnt Ástand sjávar en markmið þess er að fylgjast með breytingum á hitastigi og seltu Íslandsmiða.

Frá því um 1950 hafa farið fram mælingar á hita og seltu á ákveðnum stöðum á landgrunninu að vori eða í byrjun sumars. Stöðvarnar mynda línur eða snið út frá landinu sem eru nefnd eftir kennileitum á landi.

snið út frá landinu

Um 1970 var farið að mæla endurtekið á þessum föstu mælistöðvum því sem næst fjórum sinnum á ári, í febrúar-mars, maí-júní, ágúst-september og í október-nóvember. Mælingar eru oft samtímis og tengjast öðrum athugunum, svo sem seiðatalningu í ágúst og loðnumælingu í október-nóvember. Með tímanum hafa myndast nytsamlegar tímaraðir mælinga á ástandi sjávar umhverfis landið.

Þessar mælingar hafa verið og eru notaðar til skýringa á ýmsum þáttum sem tengjast lífríki hafsins. Má þar nefna frumframleiðni þörungasvifsins, hegðun átu og útbreiðslu nytjafiska sem dæmi.

Samhliða verkefninu Ástand sjávar fer fram ýmis önnur vöktun. Má þar nefna að í vorleiðangri í maí-júní er fylgst með magni næringarefna í sjónum, frumframleiðni svifþörunga og átumagni svo nokkuð sé nefnt. Upphaf vorleiðangra var í tengslum við síldarleit og hafa þeir haldist nær óslitið frá því um 1950.

Á ársfjórðungslegum leiðöngrum er reglulega fylgst með magni koldíoxíðs í sjó, auk þess margskonar sýnasöfnun fer fram m.a. fyrir greiningar á snefilefnum, geislavirkni og botnfalli lífræns efnis svo nokkuð sé nefnt.

Vefur um sjórannsóknir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?