Rannsóknir á hryggleysingjum með myndavélum

Undanfarin ár og áratugi hefur það færst í vöxt að vakta stofna með myndavélatækni í stað þess að nota hefðbundin veiðarfæri. Misjafnt er eftir tegundum hvort fýsilegt sé að beita slíkri tækni en fyrir sumar hefur ný tækni gjörbylt mati á þéttleika til hins betra. 

Leturhumarinn er ein af þeim tegundum þar sem lífshættir gera það að verkum að vísitölumælingar með humarvörpu eru ill framkvæmanlegar. Humarinn grefur sér holur eða göng í mjúkan leirinn og dvelur þar stóran hluta lífsferils síns. Ferðir humarsins utan holanna ráðast af margvíslegum þáttum sem bæði tengjast líffræði dýrsins og umhverfisþáttum.

Leturhumar við holu

Aðferðir til að telja holurnar og fá upplýsingar um stofnstærð voru þróaðar á níunda áratug síðustu aldar við Skotland. Síðan þá hafa sífellt fleiri þjóðir tekið upp þessa tækni. Holurnar eru taldar af tölvuskjá, en sleði með upptökuvél er dreginn í 10 mínútur á hverri stöð, eða um 300 metra. Fyrsti leiðangurinn til að telja humarholur við Ísland var farinn sumarið 2016 á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Fyrsta mat á þéttleika var rúmlega 500 milljón humarholur á um 6 þúsund ferkílómetrum eða um 0,09 leturhumrar á fermeter á þekktri veiðislóð. Þéttleiki við Ísland er nokkuð lægri en hjá suðlægari stofnum en á móti kemur að meðalstærð humra við Ísland er há.

Myndavélatækni hefur einnig verið beitt á tegundir sem oft er að finna í nokkuð miklum þéttleika á sjávarbotni. Þá er myndavél slakað niður á botninn og myndir teknar af þekktu flatarmáli. Árið 2014 hófust tilraunir til að meta stofnstærð hörpudisks í Breiðafirði með botnmyndum. Fyrirmyndin af þeim rannsóknum kemur frá austurströnd Bandaríkjanna þar sem þessari aðferð hefur verið beitt á hafdisk með góðum árangri. Áður fyrr var þéttleiki metinn með plógum en oft er erfitt að meta veiðanleika í dregin veiðarfæri líkt og skelplóg auk þess sem botnlag á hverjum stað hefur áhrif auk annara þátta. Talningar af botnmyndum í Breiðafirði hafa gefið góða raun. Árið 2014 hófust einnig tilraunaveiðar á hörpudiski í firðinum, en veiðar höfðu legið þar niðri síðan árið 2003.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?