Sjávarútvegsskóli GRÓ

Árið 2020 var fyrsta starfsár Sjávarútvegsskólans undir merkjum UNESCO. Því tengdu var sett á fót UNESCO miðstöð á Íslandi sem fékk nafnið GRÓ þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu. Miðstöðin hefur það hlutverk að samhæfa starfsemi þeirra fjögurra skóla sem áður störfuðu undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Tveir aðilar gengdu stöðu forstöðumanns GRÓ á árinu. Bryndís Kjartansdóttir gegndi stöðunni í byrjun og síðan Friðrik Jónsson frá 1. október.

Frá upphafi hefur Sjávarútvegsskólinn boðið upp á rannsóknatengt sex mánaða þjálfunarnám fyrir fagfólk í sjávarútvegi frá þróunarlöndum. Í gegnum tíðina hefur Sjávarútvegsskólinn einnig tekið að sér ýmiss önnur verkefni á sviði þjálfunar fagfólks, m.a. þróað og haldið stutt námskeið, vinnustofur og ráðstefnur í samstarfslöndunum. Sjávarútvegsskólinn hefur veitt skólastyrki undanfarin ár til meistara- og doktorsnáms við háskóla á Íslandi. Vegna COVID varð að fresta stórum hluta af fastri starfsemi Sjávartútvegsskólans. Hins vegar var tíminn nýttur í að rýna starfsemi skólans til að bæta gæði og verkferla, ný verkefni voru mótuð og sum þeirra framkvæmd. Allt eru þetta þættir sem nýtast í þróun Sjávarútvegsskólans á komandi árum.

Sex mánaða þjálfunarnámið

Í lok febrúar útskrifuðust 24 nemendur, 12 konur og 12 karlar, af fjórum sérlínum; sjö af fiskveiðistjórnunarlínu, sex í gæðastjórnun í fiskiðnaði, sex af fiskeldislínu, og fimm af fiskifræðilínu. Hópurinn er sá fyrsti til að útskrifast undir nýju skipulagi Sjávarútvegsskóla GRÓ. Af því tilefni ávarpaði fostöðumaður GRÓ, Bryndís Kjartansdóttir, nemendur og gesti athafnarinnar. Við útskriftina luku fjórir aðilar rannsóknum á fiskeldi í Nigeríu í tengslum við verkefni sem stofnað var til 2019 í samstarfi við Ibadan háskólann og fiskideild lanbúnaðarráðuneytisins í Nígeríu. Meginmarkmið verkefnisins var að skoða hnignun á vexti Afríku-grana sem er stærsta fiskeldistegund í Nígeríu. Verkefnið er fyrsta sinnar tegundar í starfsemi Sjávarútvegsskólans þar sem nemendur frá sama landinu leggja til rannsóknir tengdar einu verkefni og gögnum safnað sérstaklega í tengslum við það í heimalandinu. Heildarútkoman verður skoðuð 2021 og hugsanlega er komin hér aðferðafræði hjá Sjávarútvegsskólnum sem styrkir enn frekar uppbyggingu á færni fagaðila með þarfir samstarfsstofnananna og landanna að leiðarljósi.

Sökum COVID var ekki hægt að taka inn nýjan hóp í september eins og venja er og var inntaka nýs hóps frestað um heilt ár.

Styrkir til framhaldsnáms á Íslandi

Sjávarútvegsskólinn hefur veitt hlutastyrki til fyrrum nemenda til framhaldsnáms á Íslandi frá 2005. Skólastyrkirnir eru bundnir stefnu Sjávarútvegsskólans um samstarf við heimastofnanir nemenda og hagnýtingu rannsóknanna. Alls voru 13 einstaklingar styrktir 2020, þar af voru sjö doktorsnemar og útskrifaði einn þeirra, Dr. Vianny Ntugonza frá Uganda, frá Háskóla Íslands í júní undir leiðsögn Dr. Gunnars Stefánssonar. Fjöldi nemenda sem fá skólastyrki er breytilegur, en gerð er krafa meðal annars um að doktorsrannóknir fari að hluta til fram í heimalandi viðkomandi nemenda með stuðningi heimastofnunarinnar. Vaxandi áhugi er fyrir þessum styrkjum og mun reyna meira á samstarf Sjávarútvegsskólans og háskólanna á Íslandi um val á styrkþegum og framgang rannsóknanna.

Nýtt Fræðsluráð

Nýtt fræðsluráð Sjávarútvegsskólans var stofnað á árinu. Við sameiningu skólanna fjögurra undir hatti GRÓ þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, var stjórn Sjávarútvegsskólans lögð niður, en hennar hlutverk hafði verið að fylgjast með rekstri og faglegri þróun skólans og vera fostöðumanni til aðstoðar með framkvæmd verkefna.

Nýtt fræðsluráð ber ábyrgð á faglegri þróun skólans samkvæmt þjónustusamningi utanríkisráðuneytis og Hafrannsóknastofnunar. Í fræðsluráði Sjávarútvegsskólans sitja fulltrúar helstu samstarfsaðila og yfirmenn sérlína skólans. Þeir eru: Margeir Gissurarson (Matís), Dr. Jónas P. Jónasson (Hafrannsóknastofnun), Dr. Rannveig Björnsdóttir (Háskólinn á Akureyri), Dr. Daði Már Kristófersson (Háskóli Íslands), Dr. David Roger Ben Haim (Háskólinn á Hólum), Dr. Hrefna Karlsdóttir (Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi), og Þór Heiðar Ásgeirsson sem jafnframt er formaður fræðsluráðsins (Sjávarútvegsskóla GRÓ). Gert er ráð fyrir að ráðið koma saman til formlegs fundar tvisvar á ári.

Nýr vefur

Í tengslum við nýtt skipulag skólanna sem tilheyra þróunarmiðstöð GRÓ var unnið að nýrri vefsíðu miðstöðvarinnar sem m.a. heldur utan um gagnagrunna skólanna. Nýr vefur á að auka sýnileika þeirrar vinnu og verkefna sem skólarnir sinna og munu notendur geta fengið heildarsýn yfir þau verkefni og það starf sem skólarnir sinna í samstarfslöndunum. Verkefnið hefur reynst stærra og flóknara en gert var ráð fyrir, en verkefnið er leitt af starfsfólki Sjávarútvegsskólans. Vefslóðin er grocenter.is og þar má velja einstaka skóla ásamt því að fá yfirlit yfir alla þá sem koma að starfi þeirra.

Önnur/ný verkefni

Stuðningur við framkvæmd á heimsmarkmiði 14 (Voluntary commitment)
Árið 2017 lofaði Sjávarútvegsskólinn á sjávarútvegsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd á heimsmarkmiði 14 að styðja lítil þróunareyríki (e. Small Island Developing Countries – SIDS) til að finna leiðir til að nýta auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt innan hugmyndafræði bláa hagkerfisins, og einnig að styðja fátæk ríki í Afríku sem eiga land að strandsvæðum til að bæta nýtingu á afla. Hluti af loforði Sjávarútvegsskólans var að taka nemendur í sex mánaða þjálfunarnámið sem fresta þurfti vegan COVID, en einnig að vinna að öðrum verkefnum sem stutt gætu við loforðin.

Unnið var að þremur verkefnum sem tengjast heimsmarkmiði 14: 1) Fjórir fræðsluþættir um Heimsmarkmið 14. Þar fjalla sérfræðingar Sjávarútvegsskólans um nokkur undirmarkmið sem tengjast sjávarútvegi og hvernig rannsóknir nemenda Sjávaútvegsskólans nýtast við framkvæmd Heimsmarkmiðs 14. Þættina má finna á vefsíðu Sjávarútvegsskólans (https://www.grocentre.is/ftp/media-ftp/sdg-14). 2) Undirbúningur að ráðstefnu eyríkja með stóra og víðfeðma fiskveiðilögsögu (LON/SIDS) sem halda átti í Færeyjum en var frestað vegna COVID. Ráðstefnan hefur þjú megin þemu og tók Sjávarútvegsskólinn að sér að skipuleggja og stjórna dagskrá um þróun fiskeldis í litlum þróunareyríkjum. Til stendur að bjóða fyrrum nemendum að koma á ráðstefnuna og kynna verkefni á sviði fiskeldis sem þeir tengjast. 3) Uppsetning reykofna í vestur Afríku og þjálfun á fagfólki því tengdu. Verkefnið hefur verið unnið í samvinnu í samstarfi við utnaríkisráðuneytið og Matís og kláraðist á árinu. Tólf (12) reykofnar sem þróaðir voru af Matís og Sjávarútvegsskólanum voru byggðir í Sierra Leone og fiskifulltrúar (e. fisheries officers) þjálfaðir í notkun ofnanna og gæðamálum þeim tengdum. Verkefnið er metið og verið er að skoða möguleika á framhaldi í samvinnu við utanríkisráðuneytið.

Evrópuverkefnið FarFish
Verkefnið miðar að því að bæta veiðistjórn hjá þróunarríkjum sem hafa samninga við Evrópusambandið um veiðar í þeirra lögsögu. Sjávarútvegsskólinn hefur farið með verkefnastjórn í hluta verkefnisins sem snýra að uppbyggingar fagþekkingar í þeim löndum sem taka þátt í verkefninu. Til stóð að halda námskeið um nýtingu takmarkaðra gagna (data limited methods) í stofnmati á Grænhöfðaeyjum er vegna COVID var námskeiðinu frestað. Enn á eftir að ljúka þjálfun lykilfagfólks frá fjórum samstarfslöndum. Verkefninu mun ljúka 2021.

Stofnun GRÓ þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu undir merkjum UNESCO
Starfsfólk Sjávarútvegsskólans tók virkan þátt í samræmingarvinnu vegna stofnunar GRÓ. Mikil vinna fór í kennimerki, stefnumótun, hönnun, og sameiginlega vefsíðu. Margir samstarfsfundir voru haldnir og leiddi Sjávarútvegsskólinn vinnu tengdri stefnumótun og vefþróun.

Starfsmannamál

Starfsfólk Sjávarútvegsskólans á árinu voru:

Þór Ásgeirsson, forstöðumaður

Mary Frances Davidson, aðstoðarforstöðumaður

Stefán Úlfarsson, sérfræðingur og verkefnastjóri

Julie Ingham, skrifstofustjóri (90% starf)

Beata Wawiernia, skrifstofa

Tumi Tómason, sérfræðingur og umsjónarmaður framhaldsnema (49% starf)

Á venjulegu ári ferðast starfsfólk Sjávarútvegsskólans mikið til samstarfslanda til að undirbúa samstarf, velja nemendur, og kynnast stöðu og áherslum sjávarútvegsmála í þróunarlöndum. Mjög fáar ferðir voru farnar á árinu sökum COVID. Tumi Tómasson og Þór Ásgeirsson funduðu í janúar í Færeyjum um þátttöku Sjávarútvegsskólans í ráðstefnu (ey)ríkja sem stjórna hlutfalslega mjög stórri efnahagslögsögu. Þór Ásgeirsson fór á tveggja daga fund til UNESCO í París í febrúar til að funda um stofnun UNESCO miðstöðvarinnar á Íslandi og mögulegt samstarf Sjávarútvegsskólans við UNESCO. Mary Frances Davidson heimsótti í mars Seyshelleyjar vegna FarFish verkefnisins og svo í framhaldinu fundaði hún með fiskimálayfirvöldum í Máritíus um samstarfs við Sjávarútvegsskólann. Margir samstarfsfundir voru haldnir í gegnum vefinn.

Þór Ásgeirsson fór í 3 mánaða leyfi frá 1. maí og gengdi Mary Frances Davidson stöðu forstöðumans á því tímabili.

Utanríkisráðuneytið óskaði eftir afnotum af einum sérfræðingi Sjávarútvegsskólans. Stefán Úlfarsson sérfræðingur fór í vistaskipti í ráðuneytið í október og verður fram í maí 2021.

Beata Wawiernia lét af störfum í lok ágúst eftir 12 mánaða starf, en hún var ráðin tímabundið í september 2019.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?