Eðlisefnafræðilegir þættir, hryggleysingjar á botni og gróður
Sýnataka hefur farið fram í vor, sumar og haust fyrir efna- og eðlisfræðilega þætti og í janúar verður farið í vetrarsýnatöku. Á sama tíma hefur blaðgræna verið mæld og háfað fyrir púpuhömum rykmýs. Í ágúst (sýnataka að sumri) var sýnum þessu til viðbótar safnað til greininga á hryggleysingjum á botni. Ein ferð var farin í júlí sérstaklega til að skrásetja gróðurfar á botni stöðuvatnanna í samstarfi við Náttúrufræðistofnun.
Fiskur í vötnum
Í ágúst var farið í þrjú vötn, Vatnshlíðarvatn, Másvatn og Svartárvatn en vötnin eru af sitthvorri vatnagerðinni. Í hvert vatn var lögð ein netasería yfir nótt. Í einni seríu eru 11 net með mismunandi möskvastærð, milli 13 mm og 60 mm, sem gefur gott úrtak hvað lengd og aldur fiska varðar.

Tekið úr netum við Svartárvatn.

Neta vitjað í Vatnshlíðarvatni
Um Life Icewater verkefnið
Verkefnið LIFE Icewater hlaut 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.
Verkefninu er ætlað að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi, að tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu í vatnamálum, bæta vatnsgæði, svo sem með úrbótum á fráveitu og hreinsun fráveituvatns, og að fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns.
Með verkefninu gefst tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila, en verkefnið er unnið ásamt 21 íslenskum samstarfsaðilum úr röðum sveitarfélaga og hinna ýmsu stofnana.
Styrkurinn er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals 5,8 milljarðar króna en LIFE-áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60%. Verkefnunum er skipt upp í sjö hluta og verða unnin á árunum 2025 til 2030. Sjá nánar hér.

Svartárvatn, gróðurkönnun.

Ytra Deildarvatn, háfað fyrir púpuhömum rykmýs.

Finnastaðaá, blaðgræna mæld á steinum.

Selá, botndýrasýnataka.

Bleikjur úr Svartárvatni.
