Vel heppnaðri ferð rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar lauk í vikunni

Ljósm. Hafrannsóknastofnun Ljósm. Hafrannsóknastofnun

Vel heppnaðri ferð rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar lauk í vikunni þegar skipið kom til hafnar í Reykjavík eftir 50 daga leiguverkefni í Noregi. Skipið lagði úr höfn 6.ágúst sl. og sigldi til Tromso í Noregi þar sem norskir vísindamenn voru teknir um borð. Fyrst var farið í um 20 daga karfaleiðangur og að honum loknum komið aftur til hafnar í Tromso. Skipt var um áhöfn að miklu leyti, vistir teknar og nýr hópur norskra rannsóknamanna steig um borð og haldið í grálúðuleiðangur í aðra 20 daga. Skipið fór allt norður á 80°breiddargráðu og hefur skipið aldrei farið svo langt norður áður.

Skemmst er frá því að segja að leiðangrarnir tókust mjög vel og voru norsku rannsóknarmennirnir mjög ánægðir með áhöfn og skip en þetta er í þriðja skiptið á fjórum árum sem skipið er leigt til Noregs um þetta leyti árs. Umtalsverðar tekjur fást af leigu skipsins en á móti kemur að ekki var hægt að nota það í kortlagningu hafsbotnsins í ágúst eða haustrall vegna leigunnar. Næsti leiðangur skipsins er loðnuleiðangur sem hefst laugardaginn 28. september.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?