Hafrannsóknastofnun hefur lokið við úrvinnslu niðurstaðna loðnumælinga sem fóru fram dagana 19.-25. janúar 2026. Samkvæmt gildandi aflareglu strandríkja, sem byggir á niðurstöðum haustmælingar árið 2025 og þessarar vetrarmælingar, leggur Hafrannsóknastofnun til að afli fiskveiðiárið 2025/2026 verði ekki meiri en 197 474 tonn.
Loðnan dreifð yfir stóran hluta yfirferðasvæðisins
Mælingarnar náðu yfir stórt svæði norðvestur, norður, norðaustur og austur af landinu með þátttöku fimm skipa (Mynd 1.). Aðstæður til mælinga voru ágætar og hvorki veður né hafís höfðu teljandi áhrif á niðurstöður mælinga. Líkt og áður hefur komið fram var loðnan dreifð yfir stóran hluta yfirferðarsvæðisins með mesta þéttleika í fremsta hluta göngunnar fyrir austan land og úti af Húnaflóa. Veiðistofninn mældist í heild 710 þúsund tonn (CV=0.24). Um 54% (382 þúsund tonn) veiðistofnsins var austan við land og gert er ráð fyrir að sá hluti fylgi hefðbundinni hrygningargöngu suður og vestur fyrir land. Um 46% (328 þúsund tonn) mældist norðvestan við landið.
Óljóst er hvort loðnan norðvestan við land fari fyrir Horn og hrygni vestan við landið, hrygni norðan við land eða fari hefðbundna leið austur fyrir landið og mun Hafrannsóknastofnun kanna það með leiðangri í febrúar. Á meðan óvissa ríkir um göngu loðnunnar fyrir Norðvesturlandi til hrygningar vill stofnunin mælast til að veiðar fari fram fyrir Norðurlandi líka en ekki eingöngu á þeim stofnhluta sem er þegar kominn austur fyrir land.
Hér má finna ráðgjafarskjal Hafrannsóknastofnunar fyrir loðnu.

Dreifing loðnu samkvæmt bergmálsgildum dagana 19.-25. janúar 2026.