Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 2021/2022

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Í dag kynnir Hafrannsóknastofnun úttekt á ástandi nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár. Á grundvelli varúðarsjónarmiða og langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu er lagt til aflamark fyrir tæplega 30 nytjastofna. Ráðgjöfina má nálgast á vef Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur 13% lækkun aflamarks þorsks fiskveiðiárið 2021/2022. Byggir sú ráðgjöf á aflareglu stjórnvalda. Því lækkar ráðlagður heildarafli úr 256.593 tonnum á yfirstandandi fiskveiðiári í 222.737 tonn. Það eru tvær meginástæður fyrir lækkuninni:

  • Árgangar 2013 (8 ára) og 2016 (5 ára) eru litlir og hafa þeir umtalsverð áhrif til lækkunar á stærð viðmiðunarstofnsins. Megin uppistaða í þyngd stofnsins er 4-9 ára þorskur og nú eru 2 af þeim 6 árgöngum slakir.
  • Stofnmatið í ár sýnir að stofnstærðin hefur verið ofmetin á undanförnum árum. Viðmiðunarstofn árið 2020 var þannig ofmetinn um 19% miðað við núverandi mat. Mæligildi eldri fisks, bæði í aldursgreindum afla og í stofnmælingum, hafa síðustu ár verið hærri en áður hafa sést. Vægi yngri fisks, sem er enn ekki kominn að fullu í veiðina, var einnig minnkað miðað við það sem áður var. Þessar breytingar leiða til þess að stofnmatið fylgir nú betur breytingum í stofnmælingum en áður var.
  • Þorskstofninn er enn mjög sterkur. Ef frá eru talin undanfarin 5 ár eða svo hefur stofninn ekki verið stærri í 40 ár. Sókn er enn nærri sögulegu lágmarki.

Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn þorsks verði svipaður að stærð þangað til árgangarnir frá 2019 og 2020 koma inn í viðmiðunarstofninn eftir 2-3 ár, en horfur eru á að þeir séu um og yfir meðallagi.

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 50.429 tonn sem er 11% hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári. Áætlað er að viðmiðunarstofninn muni halda áfram að vaxa næstu tvö árin. Árgangar frá 2015–2017 eru metnir nálægt meðaltali, árgangur 2018 lítill og niðurstöður stofnmælinga benda til að árgangar 2019 og 2020 verði yfir meðallagi.

Litlar breytingar eru á ráðgjöf ufsa samkvæmt aflareglu stjórnvalda. Aflamark samkvæmt aflareglu fyrir fiskveiðiárið 2021/2022 er 77.561 tonn eða um 1% lægra en síðastliðið fiskveiðiár.

Nýliðun gullkarfa hefur verið mjög slök undanfarin áratug og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað á undanförnum árum og fyrirséð að sú þróun muni halda áfram á næstu árum. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2021/2022 því 31.855 tonn, 17% lægri en á yfirstandandi fiskveiðiári.

Ráðgjöf fyrir grálúðu hækkar um 13% frá fyrra ári og er 26.650 tonn.

Viðsnúningur virðist nú vera í þróun stofnstærðar íslensku sumargotssíldarinnar sem minnkaði ört frá árinu 2008 vegna slakrar nýliðunar og þrálátrar frumdýrasýkingar í stofninum. Árgangur 2017 er metinn stór og kemur inn í viðmiðunarstofninn í ár. Ráðgjöf samkvæmt aflareglu stjórnvalda hækkar því úr 35.490 tonnum fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 í 72.239 tonn fyrir 2021/2022 eða um 104%.

Á meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir ráðgjöf stofnunarinnar.

Tillögur um hámarksafla fiskveiðiárið 2021/2022, ásamt tillögum og aflamarki samkvæmt ákvörðun stjórnvalda fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 (í tonnum). Einnig er sýnd hlutfallsleg (%) breyting á ráðgjöf milli fiskveiðiára.

mynd af töflu

1 Ráðgjöf samkvæmt aflareglu.

2 Ráðgjöf og aflamark samkvæmt samþykktum stjórnunarmarkmiðum.

3 Aflamark á öllu útbreiðslusvæði stofns fyrir almanaksár

4 Samanlagt heildaraflamark allra veiðiþjóða og aflamark fyrir Ísland í sviga.

 

Smelltu á hlekk til að komast á Ráðgjafarvef.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?