Nýr rauðþörungur uppgötvaður við Ísland

Flekkir af rauðleitri klóblöðku neðan til í fjörunni á utanverðum Reykjanesskaga. Ljósmynd: Karl Gun… Flekkir af rauðleitri klóblöðku neðan til í fjörunni á utanverðum Reykjanesskaga. Ljósmynd: Karl Gunnarsson.

Nýlega uppgötvuðu starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, ásamt vísindamönnum við Náttúrugripasafnið í Lundúnum, áður óþekkta tegund rauðþörunga hér við land. Þörungurinn er blaðlaga, getur orðið 30 til 40 cm langur og 10 til 25 cm breiður. Hann er áberandi í fjörum, sérstaklega við Suðvesturland en finnst einnig víða við vesturströndina, við Vestfirði og hefur fundist á einum stað við Norðurland. Þörungurinn fannst fyrst, við Öndverðarnes, yst á Snæfellsnesi, um aldamótin 1900. Þörungurinn var þá talinn tilheyra áður þekktri tegund. Það reyndist síðar rangt. Í ljós kom að hér var um að ræða algerlega óþekkta tegund sem á sína nánustu ættingja í Kyrrahafi. Tegundin hefur hlotið nafnið Schizymenia jonssonii á latínu til minningar um Sigurð Jónsson þörungafræðing og á íslensku er hún nefnd klóblaðka. 

Norður-Atlantshafið er sennilega best þekkta svæði í heiminum hvað varðar grunnsævislífverur vegna langrar og samfelldrar sögu rannsókna á þörungum og dýrum á grunnsævi í Norður Evrópu. Það kemur því verulega á óvart að svo stór og áberandi tegund sem klóblaðkan er, skyldi hafa farið fram hjá rannsakendum og ekki uppgötvast um hvaða tegund var að ræða, fyrr en nú.

Erfðagreining leiddi í ljós að þörungurinn getur vaxið ýmist sem skorpa eða verið blaðlaga og er líklega um að ræða mismunandi ættliði í æxlunarferli tegundarinnar.

Þess má einnig geta að klóblaðka er góður matþörungur og að í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknarstofnunar við Grindavík eru um þessar mundir í gangi tilraunir með ræktun klóblöðku til matar, í samvinnu við Hyndlu ehf.

Sjá nánar um klóblöðku hér.

English version

 Klóblaðka sem óx við Hvassahraun á Reykjanesskaga. Ljósmynd: Svanhildur Egilsdóttir.Eintök af klóblöðku sem Helgi Jónsson þörungafræðingur safnaði við Öndverðarnes árið 1897 og eru geymd í grasasafninu í Kaupmannahöfn. Ljósmynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Klóblaðka sem óx við Hvassahraun á Reykjanesskaga. Og eintak af klóblöðku sem Helgi Jónsson þörungafræðingur safnaði við Öndverðarnes árið 1897 og eru geymd í grasasafninu í Kaupmannahöfn. Ljósmyndir: Svanhildur Egilsdóttir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?