Ný grein um tegundafjölbreytileika á grunnsævi Íslands

Ný grein um tegundafjölbreytileika á grunnsævi Íslands

Nýlega kom út greinin Groundfish and invertebrate community shift in coastal areas off Iceland, sem sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun þau Ingibjörg G. Jónsdóttir og Bjarki Þ. Elvarsson skrifuðu ásamt Haakon Bakka varðandi tegundafjölbreytileika á grunnsævi Íslands.

Í greininni er tegundasamsetning fiska og rækju skoðuð í sex fjörðum frá Arnarfirði að Öxarfirði og einnig hvernig samfélögin hafa breyst frá árinu 1995 til 2015. Notast var við gögn sem safnað var í stofnmælingu innfjarðarrækju í september/október á ári hverju.

Þegar horft er til fjölda fiskitegunda innan fjarða þá má segja að svæðin séu frekar tegundasnauð en oftast fengust ekki nema 6 – 10 tegundir í hverju hali.

Á seinni hluta síðustu aldar var rækja útbreidd á svæðunum og voru rækjuveiðar stundaðar í öllum þessum 6 fjörðum. Á þeim tíma var fremur lítið magn af þorski og ýsu í fjörðunum.

Hins vegar varð mikil breyting á samfélögunum um aldamótin. Þá jókst magn þorsks og ýsu og strax í kjölfarið fækkaði einstaklingum af öðrum tegundum, eins og flatfiskum, mjórum, stóra mjóna og rækju. Líklegt er að afrán hafi valdið þessari fækkun einstaklinga en ekki er hægt að útiloka að breytingar í hitastigi sjávar hafi einnig haft bein eða óbein áhrif á þessar breytingar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?