Niðurstöður makrílleiðangurs í júlí-ágúst

Niðurstöður makrílleiðangurs í júlí-ágúst

Lokið er samantekt sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 28.júní til 5.ágúst 2019. Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.

Vísitala lífmassa makríls var metinn 11,5 milljónir tonna sem er 85% hækkun frá árinu 2018 og er mesti lífmassi sem mælst hefur síðan gagnaröðin/leiðangurinn hófst árið 2007. Mestur þéttleiki mældist í norðvestur Noregshafi (mynd 1). Á hafsvæðinu við Ísland mældist 76% meira af makríl en 2018. Mestur var þéttleikinn sunnan og vestan við landið, líkt og verið hefur undanfarin ár.

Magn norsk-íslenskrar síldar hækkaði einnig og var vísitala lífmassa metin 4,8 milljónir tonna sem er 7% hækkun frá árinu 2018. Útbreiðsla stofnsins var svipuð og undanfarin ár fyrir fullorðna hluta stofnsins (6-14 ára) þar sem mesti þéttleikinn var norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Ísland (mynd 2). Mestur þéttleiki af yngri síld (3-6 ára) mældist í norðaustur Noregshafi.

Fjórða árið í röð var lögð aukin áhersla á að fylgjast með útbreiðslu kolmunna og að meta stærð stofnsins. Vísitala stofnstærðar, fyrir fisk > 20cm, var 2,0 milljónir tonna sem er sú sama og 2018. Kolmunni fannst á mest öllu rannsóknarsvæðinu nema í köldum sjó við Austur-Grænland og í Austur Íslandsstraumnum milli Íslands og Jan Mayen (mynd 3). Við Ísland mældist mest af kolmunna við landgrunnsbrúnina sunnan við landið líkt og verið hefur undarfarin ár.

Yfirborðshiti sjávar sunnan, vestan og norðan við Ísland var um 1°C hærri en langtímameðaltal síðustu 20 ára og um 3°C hærri við austurströnd Grænlands en um 1°C lægri í Grænlandssundi. Í meginhluta af Noregshafi var yfirborðshiti um og yfir meðaltali síðustu 20 ára en undir meðaltali austarlega í hafinu.

Heildar vísitala um magn dýrasvifs á öllu rannsóknasvæðinu mældist svipuð og 2018 en  mikill breytileiki var milli svæða. Þannig mældist um 30% minnkun vísitölunnar á hafsvæðinu við Ísland og 55% minnkun við Grænland en 20% aukning var í magninu í Noregshafi.

Niðurstöður leiðangursins voru kynntar Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) í gær og eru niðurstöðurnar, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark sílda, makríls og kolmunna þann 1. október.

Sjá skýrslu um niðurstöður leiðangursins.

mynd með vísitölu makríls

1. mynd. Vísitala á magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður sumarið 2019. Enginn makríll mældist í hvítum reitum og gulur-rauður litakvarðinn táknar breytileika í magni sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra.

útbreiðslumynd síldar

2. mynd. Útbreiðsla og magn (bergmálsgildi) síldar sumarið 2019. 

útbreiðslumynd kolmunna

3. mynd. Útbreiðsla og magn kolmunna sumarið 2019.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?