Mun minna mældist af makríl

1. mynd. Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júní t… 1. mynd. Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júní til ágúst 2021. Enginn makríll mældist í hvítum reitum og gulur til rauður litakvarðinn táknar vaxandi þéttleika sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra og grár kross eru togstöðvar þar sem enginn makríll veiddist.

Lokið er samantekt á niðurstöðum sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 30.júní til 3.ágúst 2021. Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi en jafnframt að rannsaka vistkerfi og umhverfi sjávar. Leiðangurssvæði var 24% minna árið 2021 samanborið við árin 2018-2020 þar sem nánast ekkert var farið inn í Grænlenska landhelgi og ekkert suður fyrir 62°45´N í Íslandsdjúpi og á Reykjaneshrygg. Minnkun leiðangurssvæðis hafði ekki áhrif á niðurstöður leiðangursins þar sem útbreiðslumörk makríls fyrir sunnan, vestan og norðan Ísland mældust innan yfirferðasvæðisins.

Vísitala lífmassa makríls var metinn 5,15 milljónir tonna sem er 58% lækkun frá árinu 2020 og er minnsti lífmassi sem mælst hefur síðan 2012. Mestur þéttleiki mældist í miðju Noregshafi líkt og í fyrra en minna mældist í norðanverðu Noregshafi (mynd 1). Á hafsvæðinu við Ísland mældist 19% minna af makríl en 2020. Makríll mældist suðaustan og austan við landið, ólíkt síðasta ári þegar enginn makríll mældist fyrir austan. Vart varð við makríl norðan og vestan við Ísland en magnið var óverulegt.

Magn norsk-íslenskrar síldar er svipað á milli ára þar sem vísitala lífmassa var metin 5,9 milljónir tonna sem er sami lífmassi og mældist árið 2020. Talið er að 2016 árgangurinn sé að fullu gegninn úr Barentshafi í Noregshaf og vóg árgangurinn um 54% af lífmassa stofnsins. Útbreiðsla síldarstofnsins var svipuð og undanfarin ár fyrir utan að lítið sást af síld norður af Færeyjum (mynd 2). Líkt og fyrri ár mældist mikið af eldri síld fyrir austan og norðan Íslands, en yngri síldin í norðaustur Noregshafi.

Sjötta árið í röð var lögð áhersla á að ná yfir allt útbreiðslusvæði kolmunna og að meta stærð stofnsins. Vísitala stofnstærðar var 2,2 milljónir tonna sem er 22% hækkun frá síðasta ári. Þessi hækkun skýrist af magni eins árs kolmunna sem vóg 49% af lífmassa stofnsins. Kolmunni fannst á mest öllu rannsóknarsvæðinu nema í köldum sjó í Austur Íslandsstraumnum milli Íslands og Jan Mayen (mynd 3). Við Ísland mældist kolmunni austan, suðaustan, sunnann og suðvestan við landið. Fyrir sunnan og suðvestan mældist mestmegnis 0-ára fiskur en allir aldurshópar fyrir suðaustan og austan. Þetta er fyrsta skiptið sem 0-ára kolmunni mælist í einhverju magnið við landið síðan gagnasöfnun hófst árið 2016.

Austan og norðan Íslands var hiti í í yfirborðslögum sjávar ívið hærri nú en á sama tíma í fyrra og hærri en meðaltal síðustu 20 ára. Í suður hluta Noregshafs var yfirborðshiti yfir meðaltali síðustu 20 ára en nærri langtímameðaltali í norður hlutanum, sem þýðir lækkun í samanburði við síðasta ár.

Vísitala um magn dýrasvifs á hafsvæðinu við Ísland jókst lítillega samanborðið við fyrir ár en minnkaði lítillega í Noregshafi.

Niðurstöður leiðangursins voru kynntar innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) í síðustu viku. Þær eru, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES mun birta ráðgjöf um aflamark norsk-íslenskrar síldar, makríls og kolmunna þann 30. september.

Skýrsla um niðurstöður leiðangursins.

Vísitala um magn makríls

1. mynd. Vísitala um magn makríls reiknuð fyrir reiti (2 breiddargráður og 4 lengdargráður) í júní til ágúst 2021. Enginn makríll mældist í hvítum reitum og gulur til rauður litakvarðinn táknar vaxandi þéttleika sem tonn á ferkílómetra. Stærð hringja sýnir magn makríls á togstöðvum sem tonn á ferkílómetra og grár kross eru togstöðvar þar sem enginn makríll veiddist.

Útbreiðsla og magn norsk-íslenskrar síldar

2. mynd. Útbreiðsla og magn norsk-íslenskrar síldar í júní til ágúst 2021 samkvæmt bergmálsgildum á fersjómílu (NASC) sýnd sem bláar línur hornréttar frá rauðum leiðarlínum.  

 Útbreiðsla og magn kolmunna

3. mynd. Útbreiðsla og magn kolmunna í júní til ágúst 2021 samkvæmt samkvæmt bergmálsgildum á fersjómílu (NASC) sýnd sem bláar línur hornréttar frá rauðum leiðarlínum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?