„Íslenskir“ hnúfubakar á faraldsfæti

Hvalurinn ISMN1586 í Faxaflóa Hvalurinn ISMN1586 í Faxaflóa

Þann 19. júní síðastliðinn sást síðan hnúfubakur í Faxaflóa af hvalaskoðunarfyrirtækinu Special tours sem var í kjölfarið gefið númerið ISMN1586. Þökk sé alþjóðlegu samstarfi og skráningu hnúfubaka við Grænhöfðaeyjar sem samtökin BIOS.cv og Frederick Wenzel sjá um, var hægt að sjá að þessi hvalur hafði áður verið myndaður við Grænhöfðaeyjar, aðeins þremur mánuðum áður en hann var myndaður í Faxaflóa í um 5400 km fjarlægð.

Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt þegar það kemur að því að meta far dýra eins og hnúfubaks sem ferðast langar vegalengdir. Hnúfubakar í Atlantshafi eyða yfirleitt sumrum sínum á fæðuslóð í norðri, til dæmis við strendur Íslands og Noregs. Á veturna halda þeir sig við miðbaug, frá Karíbahafi til Grænhöfðaeyja.

Áður hefur verið fjallað um hér á síðunni um hnúfubak sem sást í Cape Samana (Dóminíkanska lýðveldinu) í Karíbahafi í janúar 2020 sem hafði áður verið ljósmyndaður og skráður sem ISMN0122 í skrá íslenskra hnúfubaka (ISMN) sem Valerie Chosson starfsmaður Hafrannsóknastofnunar heldur utan um.

mynd af sporðum hvala 

Á mynd má sjá hvalinn ISMN1586 bæði í Faxaflóa og við Grænhöfðaeyjar.

Íslenska hnúfubakaskráin ISMN (IS Megaptera Novaeangliae Catalog) sem er að finna á Hafrannsóknastofnun geymir skráningar á yfir 1500 hnúfubökum frá 1980 til dagsins í dag. Þeim hefur verið safnað í leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar og af ýmsum samstarfsaðilum sem sent hafa inn myndir af hnúfubökum ásamt upplýsingum um staðsetningu. Hægt er að senda inn upplýsingar og myndir á vefslóðina Submit-photo


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?