Fjórða grunnslóðaleiðangri Hafrannsóknastofnunar lokið

Sæbjúgu úr togi fyrir austan land Sæbjúgu úr togi fyrir austan land

Fyrir rúmri viku lauk grunnslóðaleiðangri Hafrannsóknastofnunar. Markmið leiðangursins ár hvert er stofnmæling á flatfiskum og sandsíli. Sérstök áhersla er á nýliðun flatfiska. Hefur leiðangurinn verið farinn með sambærilegum hætti frá árinu 2017. Í ár var einnig bætt við leiðangurinn togstöðvum til að fylgjast með þéttleika sæbjúgna. Togað var með 4 m bjálkatrolli fyrir flatfiskum og sæbjúgum og með sandsílaplógi fyrir sandsíli. Auk þessara verkefna var umhverfisvöktun sjókvíaeldis stunduð í Reyðarfirði og Berufirði, en sem liður í þeirri vöktun voru tekin botngreipasýni, setkjarnasýni, vatnsgæði könnuð með sondu auk myndavélasniða til greiningar á stærri lífverum.

 

Tog í grunnslóðaleiðangri 2020. Grænu punktarnir sýna flatfiskastöðvar, fjólubláu sæbjúgnastöðvar og sandsílastöðvar eru gular.

 

Leiðangurinn hófst á humarmerkingu í Jökuldýpi, eins og hefur komið fram í frétt hér á vefnum, en eftir þá vinnu tóku hefðbundin störf við. Alls var togað á 208 stöðvum, inná flestum fjörðum og flóum landsins. Í umhverfisvöktun sjókvíaeldis voru alls tekin 126 botngreipasýni, 16 setkjarnar, 11 myndavélasnið og 11 vatnsgæðasýni með sondu.

Bjálkatrollið hafði ekki verið áður prófað til sæbjúgnaveiða, en gekk þessi tilraun vel og eru líkur á að hægt sé að nota þennan leiðangur til stofnmælingar á sæbjúgum í framtíðinni.

Minna veiddist af skarkola, sandkola og þykkvalúru á flatfiskastöðvum en undanfarin ár, en töluvert meira veiddist af smáum þorski, ýsu og tindaskötu en áður.

Nokkuð veiddist af sandsíli á flestum stöðvum, og var um aukningu að ræða frá undanförnum árum. Er um fjórða besta árið að ræða síðan vöktun á sandsíli hófst árið 2007.

Leiðangurinn stóð yfir frá 26. ágúst til 11. september á rannsóknaskipinu Bjarni Sæmundsson HF-30. Skipstjóri var Guðmundur Sigurðsson og leiðangursstjóri var Guðjón Sigurðsson.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?