Doktorsvörn - Teresa Silva

Doktorsvörn - Teresa Silva

Teresa Sofia Giesta da Silva rannsóknamaður á Hafrannsóknastofnun ver doktorsritgerð sína Vistfræði ljósátu á Íslandsmiðum (e. Ecology of krill in Icelandic waters) við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands föstudaginn 14. desember kl. 10:00. Vörnin fer fram í Öskju, stofu 132 og er öllum opin.

Leiðbeinandi Teresu er Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, en auk hans voru í doktorsnefnd Guðrún Marteinsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, og Ólafur S. Ástþórsson, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun.

Ágrip

Ljósáta er mikilvæg í vistkerfi Íslandsmiða. Vegna þess að stór hluti af frumframleiðslu svifþörunga berst til efri fæðuþrepa um ljósátu er líklegt að breytingar í stofnstærðum ljósátustofna segi til sín í vexti og viðgangi dýra sem eru ofar í fæðukeðjunni. Rannsóknir á vistfræði ljósátu eru því mikilvægar.

Rannsóknin byggir á þremur ritrýndum greinum og einni sem liggur fyrir í handriti. Fyrsta greinin fjallar um árstíða- og langtímabreytingar ljósátu suðvestur, suður og suðaustur af landinu í tengslum við umhverfisþætti og svifgróður. Gögnin sem liggja til grundvallar eru bæði úr gagnasafni Hafrannsóknastofnunar og úr svonefndum átuvísum (Continuous Plankton Recorders) sem Sir Alister Hardy hafrannsóknastofnunin í Plymouth á Englandi sér um. Niðurstöðurnar sýndu að á árunum 1958 til 2007 minnkuðu ljósátustofnar suður og suðvestur af landinu. Í ritgerðinni er líkum leitt að því, að hlýnun sjávar á umræddu tímabili hafi valdið því þess að vorvöxtur plöntusvifs var tiltölulega seint á ferðinni sem aftur kann að hafa valdið því að það dró úr vexti ljósátu.

Tvær greinar lýsa útbreiðslu, magni og aldurssamsetningu ljósátu umhverfis Ísland að vorlagi í tengslum við umhverfisþætti og vorvöxt plöntusvifs. Niðurstöðurnar sýndu að magn ljósátu tengist bæði ólífrænum þáttum (aðallega hita, seltu og botndýpi) og lífrænum (einkum magni og tímasetningu vorvaxtar svifgróðurs). Útbreiðsla sjógerða við landið hefur þannig mikil áhrif á vöxt og viðgang ljósátu. Til dæmis voru ljósátuegg og -lirfur mun algengari í hlýsjónum suður og vestur af landinu en í kaldari sjó fyrir norðan og norðaustan í maí 2013. Fullorðin dýr voru einnig algengust í hlýsjónum. Þannig var stærsta ljósátutegundin, náttlampi (Meganyctiphanes norvegica), algengust í hlýsjónum fyrir sunnan og vestan. Augnsíli (Thysanoessa inermis) var hins vegar tiltölulega algengt allt í kringum land, en einsog náttlampi fannst mest af því í hlýsjónum fyrir sunnan og vestan.

Í fjórðu greininni er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna þar sem náttlampi var alinn við mismunandi hitastig í tilraunastöð Hafrannsóknastofnunar að Stað við Grindavík. Hitastig reyndist hafa mikil áhrif á úrgangslosun og dánartölu dýranna. Tíðni skelskipta jókst með auknu hitastigi.

Nánari upplýsingar má finna á vef Háskóla Íslands.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?